Við verðum að vera aðeins frumlegri

Áslaug Þorvaldsdóttir

Um daginn var ég að hlusta á hóp stráka sem sátu stutt frá mér að tala saman. Því meira sem ég hlustaði því meira komst ég að því að þeir blótuðu nánast eingöngu á ensku og kölluðu hvorn annan allskonar níðyrðum sem hafa verið notuð yfir konur t.d. hóra, tík og mella. Þetta þótti hópnum agalega fyndið en svo fannst mér ekki.

Eftir heldur stutta og óformlega rannsókn komst ég að því að það eru miklu fleiri smánarorð yfir konur heldur en karlmenn. Smánarorð yfir karlmenn eru alveg til þau eru eitthvað eins og durtur eða ruddi. Þau orð eru lítið notuð af yngri kynslóðinni og rista ekki nærri því eins djúpt og smánarorð kvenna. Konur fá yfir sig orð sem eru meira tengd vændi en einu valkostir kvenna fyrir t.d. hundrað árum var hjónaband eða vændi.

Yngri kynslóðin hefur gaman að því að „roasta“ vini sína. Orðið „roast“ kemur úr ensku og það þýðir að grilla, rista eða að steikja eitthvað. Þetta er leið til þess að gantast aðeins í vinum sínum en það mikilvæga er að „roast“ eiga að vera fyndin. Ef „roast“ eru ekki fyndin þá eru þau bara móðgandi og þá hefur enginn gaman að þessu.

Smánarorð hvort sem þau eru yfir karla eða konur eru ekki eitthvað sem maður vill segja við vini sína en blótsyrði og móðganir hafa orðið ófrumlegar og stundum mjög særandi. Legg ég til að við leggjum hrakyrði niður og þegar maður ætlar að gantast í vinum sínum að gera það á hátt sem þau vita að er grín. Til dæmis er hægt að segja; „ertu með greindarvísitölu á við stofuhita?“ í staðinn fyrir: „djöfulsins fáviti getur þú verið“. Bæði eru móðgandi á einhverju stigi en það fyrra er frumlegra og getur frekar verið tekið sem gríni eða „roast“ heldur en þetta seinna sem maður heyrir alltof oft.

Níðyrði kvenna hafa verið notuð til þess að bæla niður konur í aldanna rás. Þau eru niðrandi og hatursfull og það er sorglegt hversu algeng þau eru í notkun yngri kynslóða. Sumir vilja halda því fram að það sé verið að „endurheimta“ þessi orð. Sem dæmi má nota orðið „bitch“ í ensku sem er búið að „endurheimta“ og er notað á milli vina en þó að það sé búið að „endurheimta“ það þá er það samt líka notað sem níðyrði. Níðyrði eiga sér sögu og eru ekki fyndin leið til þess að „roasta“ vini sína.

Áslaug Þorvaldsdóttir