Við þurfum að ræða Vesturlandsveg – öryggisins vegna

Björn Bjarki Þorsteinsson

Fyrir löngu er tímabært að Vesturlandsvegur og ástand hans komist í umræðuna af alvöru. Gríðarleg umferðaraukning hefur átt sér stað á landinu öllu og nú er það svo að umferðaræðar út frá höfuðborgarsvæðinu eru komnar í þokkalegt lag fyrir utan Vesturlandsveg. Umferð um Kjalarnes er mikil um þröngan, illa farinn og illa upplýstan veg.  Þessi vegur skiptir máli fyrir stóran hóp landsmanna. Þetta er ekki einungis samgönguæð okkar Vestlendinga til og frá höfuðborginni, nei síður en svo. Stór hluti landsmanna notar þessa leið og þar með þennan veg á ferð sinni til og frá borginni svo ekki sé minnst á alla ferðamennina sem um veginn fara til að sækja ýmsar perlur landsins.

Það eru gríðarleg vonbrigði að vegamálayfirvöld, ráðamenn höfuðborgarinnar og ríkisvaldið í heild sinni leggi ekki meiri áherslu á úrbætur á þessum hættulega vegarkafla. Umræður um Sundabraut hafa legið að mestu í láginni undanfarin ár en það er mat undirritaðs að af þeirri umræðu verði að dusta af rykið. Öryggismál varðandi umferðina út úr borginni hljóta að vega þar meðtalin, ekki þarf mikið að gerast á leiðinni Ártúnsbrekka – Mosfellsbær til þess að allt hreinlega stíflist og t.d. forgangsumferð með veika og slasaða teppist.

Við Vestlendingar höfum vissulega lagt ríka áherslu á úrbætur í samgöngumálum vegna stóraukinnar umferðar á Vesturlandsvegi. Við höfum verið hógvær í málflutningi okkar varðandi samgöngumál og höfum haft skilning á þörfum annarra landshluta sem hafa verið ver settir en sjá nú fram á betri tíð.  Sýnið nú ábyrgð í verki ágætu ráðamenn sem farið með ákvörðunarvald í vegamálum, tökum þessa hættulegu leið frá Reykjavík að Hvalfjarðargöngum til rækilegrar endurskoðunar til hagsbóta fyrir umferðaröryggi okkar landsmanna. Þegar þessi kafli er kominn í sómasamlegt lag getum við farið að tala um úrbætur á kaflanum frá Hvalfjarðargöngum upp í Borgarnes og mögulega tvöföldun Hvalfjarðarganga. Byrjum þar sem hættan og þörfin er mest.

 

Björn Bjarki Þorsteinsson

Höf. er forseti sveitarstjórnar í Borgarbyggð