Við kjósum forseta

Inga Jóna Þórðardóttir

Það byrjaði allt með einni ritgerð, þegar japanska sendiráðið í Reykjavík efndi til ritgerðarsamkeppni fyrir tæpum tuttugu árum um samstarf Japans og Íslands. Halla Hrund Logadóttir sendi inn ritgerð, sem fjallaði um mögulegt samstarf landanna á sviði jarðhita og orkuskipta. Hún vann til verðlauna fyrir ritgerðina og var boðin í tveggja vikna ferðalag um Japan og kynntist þar menningu og atvinnuháttum landsmanna. Þessi ferð hafði mikil áhrif á hana og um árabil bjó hún (við nám og störf) í ólíkum löndum og aflaði sér reynslu og menntunar.

Frásögn um þetta birtist í Morgunblaðinu í byrjun mars sl. þar sem til umfjöllunar var ráðstefna skipulögð af sendiráði Íslands í Japan sem Halla Hrund tók þátt í. Við lestur þessarar frásagnar áttaði ég mig á því hve mörgum góðum kostum Halla Hrund er búin. Hún er víðsýn og umburðarlynd, jákvæð og opin fyrir nýjungum.  Hún er óhrædd við að taka frumkvæði og setja sig inn í ólíkar aðstæður.

Eftir að hún ákvað að gefa kost á sér til embættis forseta Íslands kom fljótt í ljós hversu auðvelt Halla Hrund á með að ná til fólks. Í kosningabaráttunni hefur hún vakið athygli fyrir fallega framkomu, einlægni og glaðværð. Skoðanakannanir sýna að stuðningur við hana kemur úr ólíkum áttum, þvert á stjórnmálaflokka og fólk um land allt styður hana.  Það finnur að hún skynjar hjartsláttinn í ólíkum byggðarlögum. Hún er fljót að koma auga á fjölbreytt tækifæri og hvernig best er að vinna úr þeim til heilla fyrir land og þjóð.

Forseti Íslands þarf að geta hafið sig yfir flokkspólitísk deilumál, en um leið að geta öðlast trúnað og traust þeirra sem starfa á hinu pólitíska sviði. Forsetinn getur gegnt lykilhlutverki í að efla samstöðu þjóðarinnar og hvetja til góðra verka. Forsetinn þarf að minna á hvað sameinar okkur sem þjóð og hlúa að arfleifð okkar, tungu og menningu.

Styrkleikar Höllu Hrundar felast í reynslu hennar og þekkingu, en ekki síst í persónuleika og skapgerð. Ég er sannfærð um að hún mun gegna þeim skyldum sem embætti forseta Íslands krefst með miklum sóma.  Hún mun verða traustur fulltrúi þjóðarinnar á alþjóðavettvangi og hún hefur alla burði til að sameina fólk að baki sér, ólíka hópa með ólíka sýn.  Hún verður forseti allrar þjóðarinnar.

 

Inga Jóna Þórðardóttir