Við höldum áfram ábyrgum rekstri í Borgarbyggð

Lilja Björg Ágústsdóttir

Samkvæmt ársreikningi Borgarbyggðar fyrir árið 2017 er staða sveitarsjóðs sterk. Rekstarhagnaður áranna 2014 til 2017 er jákvæður um ríflega 800 milljónir, skuldir hafa lækkað en skuldahlutfallið er nú 111% og skuldaviðmið er 67%. Þetta er verulega gott vegarnesti til komandi ára og þeirra stóru verkefna sem í farvatninu eru. Jákvæð þróun skuldaviðmiðs sveitarfélagsins sýnir glöggt ábyrga fjármálastjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins.

Við megum þó ekki sofna á verðinum á komandi kjörtímabili og því er mikilvægt að nálgast fjármál sveitarfélagsins áfram af ábyrgð og festu. Við, frambjóðendur D-listans, viljum byggja á þeim góða grunni sem lagður hefur verið og setja okkur skýr fjárhagleg markmið fyrir næsta kjörtímabil.

Á sama tíma og góður árangur hefur náðst í rekstri eru fyrirhugaðar langþráðar framkvæmdir við skólamannvirki sveitarfélagsins. Í kjölfarið af þeim þarf síðan að hefja faglegan undirbúning að viðbyggingu við íþróttahúsið í Borgarnesi eða byggingu fjölnota íþróttahúss. Það er mikilvægt að hafa í huga, þar sem nánast allt framkvæmdafé sveitarfélagsins er bundið til næstu ára í áðurnefndum tveimur framkvæmdum, þá teljum við ekki ábyrgt að hefja framkvæmdir við það verkefni fyrr en á seinni hluta komandi kjörtímabils.

 

Bætt þjónusta og endurskoðun á gjaldskrám

Þjónustustig hefur aukist á kjörtímabilinu, m.a. með inntöku 12 mánaða leikskólabarna, gert hefur verið stórátak í atvinnumálum fatlaðra og aðgengi barna að tómstundum og íþróttum verið gert betra með upptöku tómstundakortsins. Grunnskólarnir hafa eflst, þeir eru nú gjaldfrjálsir og lögð er áhersla á hreyfingu, heilsu og næringarríkan mat innan skólanna.

Við viljum halda áfram að leita leiða til að auka ánægju íbúa með því að bæta þjónustu og endurskoða gjaldskrár en einnig með það að markmiði að laða til okkar fleiri íbúa og styrkja þannig tekjustofna sveitarsjóðs.

Í því skyni er í stefnuskrá okkar Sjálfstæðismanna að lækka leikskólagjöld á komandi kjörtímabili fyrir allt að átta tíma vistun. Með því erum við að bjóða uppá framúrskarandi þjónustu áfram, þar sem meðal annars er nánast brúað bilið á milli fæðingarorlofs og atvinnumarkaðar á samkeppnishæfu verði við önnur sveitarfélög í nágrenni við Reykjavík. Þessar aðgerðir bæta hag barnafjölskyldna í Borgarbyggð. Verkefnið þarf að nálgast af varfærni þ.e. lækka gjaldið í þrepum og fylgjast með íbúaþróuninni samhliða. Í stóra samhenginu er ekki um mikla fjármuni að ræða úr sveitarsjóði og þeir munu  skila sér til baka í aukinni ánægju og fjölgun barnafjölskyldna.

Einnig ætlum við að bjóða upp á frítt aðgengi að íþróttamannvirkjum fyrir eldri borgara og öryrkja til að hvetja þann hóp til heilsueflingar og hreyfingar. Auk þess viljum við skoða frekari hækkun á tómstundastyrk til barna og ungmenna. Það hefur sýnt sig að reglubundin hreyfing stuðlar að bættri heilsu og auknu vellíðan.

Samhliða íbúafjölgun þarf að gera ráð fyrir húsnæði en nú horfir við stór aukning á framboði lóða, bæði í Borgarnesi og á Hvanneyri. Nauðsynlegt er að nýta það sóknarfæri með því að breyta tímabundið gatnagerðargjöldum til að hvetja bæði verktaka og einstaklinga til framkvæmda.

 

Nýttu kosningaréttinn og hafðu áhrif

Þann 26. maí næstkomandi verður kosið til sveitastjórna um allt land. Við, frambjóðendur D-listans í Borgarbyggð, erum einstaklingar sem höfum mikinn metnað, áhuga og vilja til að vinna fyrir samfélagið okkar með hag þess að leiðarljósi. Við munum horfa á hagsmuni samfélagsins alls, hvar sem hvert og eitt okkar býr innan þess. Hagsmunir þéttbýlis og dreifbýlis fara oftast saman og markmiðið þarf alltaf að vera það, að gera Borgarbyggð að enn betri stað til að búa í og að við, íbúar Borgarbyggðar, getum verið stolt af okkar sveitarfélagi og sátt við þá þjónustu sem boðið er upp á.

Ágæti kjósandi, við ætlum okkur að gera sveitarfélagið enn öflugra í þjónustu við íbúana og munum leita allra leiða til þess að styrkja enn frekar tekjustofna og innviði samfélagsins. Við óskum eftir stuðningi þínum til þess laugardaginn 26.maí.

Gerum lífið í Borgarbyggð betra – við erum til þjónustu reiðubúin!

 

Lilja Björg Ágústsdóttir

Höf. er oddviti Sjálfstæðisflokksins í Borgarbyggð.

 

Fleiri aðsendar greinar