
Við höfum burði til að byggja upp og fjárfesta
Lilja Björg Ágústsdóttir
Sterkur fjárhagslegur grunnur er forsenda uppbyggingar og framfara.
Eftir efnahagshrunið haustið 2008 hrundi fjárhagur Borgarbyggðar eins og víða annars staðar og árið 2010 var sveitarfélagið eitt tíu sveitarfélaga sem komu til skoðunar hjá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga. Í kjölfar erfiðleika í rekstri Borgarbyggðar árin 2013 og 2014 var ákveðið að leggjast í töluverða vinnu til að rétta af fjárhaginn en því skyni var ákveðið að fara í verkefnið „Brúin til framtíðar“ sem er samstarfsverkefni Borgarbyggðar og KPMG. Gengur það í mjög grófum dráttum út á að sett eru fjárhagsleg markmið og kortlagt hvaða áhrif þau hafa á reksturinn samhliða fjárhagsáætlunargerð, semsagt einskonar mælaborð sett upp til að vinna eftir.
Í upphafi var aðeins lagt upp með að finna heildstæða lausn svo Borgarbyggð gæti uppfyllt viðmið Eftirlitsnefndarinnar. Þegar þeim lágmarkskröfum var náð urðu markmiðin metnaðarfyllri þar til sú staða var komin upp árið 2019 að sveitarfélagið stóð mjög vel fjárhagslega. Það má segja að verulegur viðsnúningur hafi orðið á síðustu árum í fjárhagsstöðu Borgarbyggðar en ef bornar eru saman tölur frá greiningardeild Arion banka árið 2013 og svo aftur árið 2019 sést það mjög skýrt. Árið 2013 var Borgarbyggð með alls 15 veikleikamerki samkvæmt viðmiðum greiningardeildarinnar en árið 2019 var sveitarfélagið metið fjárhagslega sterkt og aðeins með eitt veikleikamerki sem snéri að of litlum fjárfestingum, þeim „veikleika“ hefur aldeilis verið brugðist við og bætt úr síðan.
Bættur fjárhagur kallar á annars konar markmið
Eftir árið 2019 hefur orðið ákveðin stefnubreyting varðandi fjármál og fjárfestingar en breyttar fjárhagslegar aðstæður gáfu tækifæri til breyttrar nálgunar og annars konar markmiðasetningar í „Brúnni til framtíðar“. Ljóst er að húsnæði sveitarfélagsins fór ekki varhluta af þessum fjárhagsvandræðum sem sveitarfélagið gekk í gegnum á framangreindu tímabili en á því kjörtímabili sem er að klárast kom í ljós að víða var ástand húsnæðis orðið mjög slæmt þ.e. mikil viðhaldsþörf hafði skapast og sumsstaðar kom í ljós, því miður, raki og mygla. Því hefur þurft að bregðast við af festu.
Lögð hefur verið mikil áhersla á uppbyggingu m.a. á bæði leik- og grunnskólahúsnæði síðustu ár en einnig farið í fjárfestingar m.a. á nýju ráðhúsi. Viðbygging við Grunnskólann í Borgarnesi á lokametrunum og bygging leikskólans Hnoðrabóls á Kleppjárnsreykjum er lokið. Var farið í fjárfestingu á nýju ráðhúsi vegna þess að ljóst var að ráðast þurfti í kosnaðarsamar viðgerðir á eldra húsnæði vegna m.a. rakavandamála, nýja húsnæðið hentaði starfsemi stjónsýslunnar mun betur og það fékkst á góðu verði. Vegna alls framanrakins þurfti að grípa þegar í stað til ráðstafana og urðu því útgjöld vegna ársins 2021 nokkuð meiri en gert var ráð fyrir í upphaflegri áætlun og en gert var við árslok 2021 ráð fyrir halla á sveitarsjóð upp á 22 milljónir króna að teknu tilliti til viðauka.
Rekstur A og B hluta sveitarsjóðs enn að styrkjast
Rekstrarniðurstaða ársins 2021 varð neikvæð um 90 milljónir króna en sú niðurstaða skýrist að öllu leyti vegna hækkunar á lífeyrisskuldbindingum sveitarfélagsins en hún varð mun hærri en reiknað hafði verið með vegna breyttra útreikninga sem tóku gildi í lok árs 2021. Lagt var upp með í fjárhagsáætlun að sá liður yrði um 80 milljónir króna en við þessa breytingu hækkaði hann um alls 194 milljónir þannig að lífeyrisskuldbindingarnar urðu samtals 274 milljónir króna. Ljóst er að ef ekki hefði komið til þessara breyttu reiknireglna vegna lífeyrisskuldbindinga þá hefði rekstrarniðurstaða ársins 2021 orðið jákvæð. Tekjur sveitarfélagsins voru um 130 milljónum króna hærri en gert var ráð fyrir en þar af eru tekjur frá jöfnunarsjóði sveitarfélaga 87 milljónir og um 61 milljón vegna hærra útsvars.
Í dag er fjárhagsstaðan sterk. Ef horft er á samstæðu A og B hluta í árslok 2021 hefur handbært fé frá rekstri aukist verulega frá ári til árs og er nú 487 milljónir króna. Eigið fé samstæðunnar er 4.571 milljónir króna og eiginfjárhlutfall því um 45%. Veltufé frá rekstri er nú 528 milljónir króna eða 10,8% en æskilegt hlutfall veltufjár frá rekstri er um 10%. Skuldaviðmið sveitarfélagsins stendur nú í 59% en það viðmið má almennt ekki fara upp fyrir 150% hjá sveitarfélögum, þannig að af framangreindu er ljóst að Borgarbyggð er í mjög sterkri stöðu til að taka spennandi skref í frekari uppbyggingarátt á komandi tímum.
Hvað þýðir þetta?
Góð fjárhagsstaða auk lágs skuldaviðmiðs er forsenda þess að nú er hægt að fara í stórfellda uppbygginu og því er nú kjörið tækifæri til að keyra enn frekar á viðhald og uppbyggingu innviða. Ákveðið hefur verið að ráðast í mjög metnaðarfulla uppbyggingu íþróttamannvirkja í Borgarnesi en sú vinna er þegar hafin þar sem undirbúningshópur hefur lokið störfum. Fjárfest hefur verið í mannvirki í kring um núverandi íþróttahús og stofnuð hefur verið byggingarnefnd sem fær það hlutverk að starfa ásamt verkefnastjóra að frekara samráði við íbúa og hagaðila í tengslum við framkvæmd verkefnisins. Er þetta forsenda áframhaldandi uppbyggingar sveitarfélagsins og íbúafjölgunar þar sem margir horfa til aðstöðu til íþróttaiðkunar við val á búsetu. Eins hefur verið ákveðið að fara í endurbætur á skólahúsnæðinu á Kleppjárnsreykjum en töluvert af grunnskólahúsnæðinu var rifið á síðasta kjörtímabili þegar leikskólinn Hnoðraból var byggður við og hluti húsnæðisins er ónothæfur vegna rakamyndunar.
Það þarf að ganga skörulega til verks og láta skipuleggja lóðir til úthlutunar í sveitarfélaginu. Það var áhersla fráfarandi sveitarstjórnar að úthluta öllum lausum lóðum á kjörtímabilinu og innkalla lóðir sem ekki hafði verið aðhafst á og úthluta þeim aftur. Í því skyni að ná að úthluta lóðum og einnig til að hvetja til frekari framkvæmda var m.a. settur á 50% afsláttur af gatnagerðargjöldum og 100% afsláttur af lóðargjöldum. Þetta virkaði vel fyrir þá sem voru í þeim hugleiðingum að byggja íbúðarhús og því var nánast öllum lóðum úthlutað. Eins þarf að verja mun meiri fjármunum en nú er gert bæði í gatnagerð til að mæta aukinni eftirspurn eftir byggingarlóðum og ekki síður í viðhald þeirra gatna sem eru fyrir.
Ágæti lesandi! Það eru bjartir tímar framundan í Borgarbyggð og við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins bjóðum áfram fram krafta okkar og reynslu til að leiða þá vinnu sem þarf að ganga í af krafti, dugnaði og framsýni.
Lilja Björg Ágústsdóttir
Höfundur er oddviti Sjálfstæðismanna og forseti sveitarstjórnar í Borgarbyggð