Við erum öll í sama liðinu!

Stjórn miðbæjarsamtakanna Akratorgs

Við í Miðbæjarsamtökunum Akratorgi þökkum fyrir jákvæðar viðtökur við undirskriftasöfnunni okkar á island.is þar sem við segjum: „Við undirrituð eigum okkur draum um aukið mannlíf í miðbænum okkar og trúum því að ef gamla Landsbankahúsið við Akratorg yrði ráðhús myndi það gerbreyta myndinni og verða táknrænt fyrsta skref í áttina upp á við og að líflegri miðbæ. Við viljum að gamla Landsbankahúsið við Akratorg verði ráðhús Akurnesinga.“

Þegar þetta er skrifað eru rúmlega 300 búin að skrifa undir og við vonumst eftir fleiri nöfnum. En hvers vegna erum við að standa í þessu brasi þegar við gætum verið að taka til í þvottahúsinu eða horfa á góða seríu á Netflix? Jú, vegna þess að okkur þykir vænt um bæinn okkar, munum mörg hvernig það var þegar miðbærinn var svo miklu líflegri en hann er í dag, og þegar maður á heima í bæ með líflegum miðbæ – ja þá er einfaldlega skemmtilegra að vera til. Þetta er ekki flóknara en það.

Þegar það fer svo saman að hugmyndin er góð fjárhagslega og hagkvæm, er umhverfisvæn, eykur lífsgæði og gefur jákvæða mynd af okkur sem hér búum, er þá ekki tilvalið að skoða hana vel og vandlega?

Hér eru nokkur rök með okkar málflutningi:

Nr. 1.   Það vantar líf í miðbæinn á Akranesi.

Nr. 2.   Það vantar stefnu varðandi miðbæinn á Akranesi.

Nr. 3.   Við Akurnesingar eigum ekki ráðhús.

Nr. 4.   Við eigum 1400 fm hús við Akratorg sem vill vera ráðhús!

Nr. 5.   Akraneskaupstað vantar húsnæði undir starfsemi ráðhúss.

Nr. 6.   Starfsemi bæjarins er til bráðabirgða í of litlu húsnæði FEBAN við Dalbraut 4 og vantar framtíðarhúsnæði.

Nr. 7.   Það myndi kosta meira en 1000 milljónir að byggja gamla Landsbankahúsið í dag – jafnvel mun meira.

Nr. 8.   Húsið er ein merkasta bygging Akurnesinga að margra mati, teiknað af Skagamanni.

Nr. 9.   Það er tiltölulega auðvelt að hreinsa innan úr því og innrétta í takt við nýja tíma.

Nr. 10. Gamla Landsbankahúsið (sem við eigum) er til sölu fyrir lágmarksverð fyrir „réttan aðila.“

Nr. 11. Það er jafnvel pláss fyrir aðra starfsemi í húsinu líka (veitinga/kaffihús og fleira)?

Nr. 12. Bæjarstjórinn myndi vera með skrifstofu í ráðhúsinu við Akratorg og þaðan yrði bænum stýrt. Og svo framvegis.

Bæjaryfirvöld virðast ekki kæra sig um að ræða þetta mál og skoða fyrir alvöru heldur byggja nýtt stjórnsýsluhús við Mánabraut sem myndi líklega kosta 10 sinnum meira en það kostar að gera við og laga húsið við Akratorg.

Við sendum í vikunni formlega ósk til allra kjörinna bæjarfulltrúa um fund með þeim. Tveir af níu eru búnir að svara okkur þegar þetta er skrifað. Við vonumst til að fá kjörna fulltrúa okkar í bæjarstjórn til málefnalegrar umræðu við okkur um miðbæinn, með opnum hug um möguleikann á ráðhús á Akratorg. Þeir eru nefnilega fulltrúar okkar íbúanna.

Áfram Akranes!

Stjórn miðbæjarsamtakanna Akratorgs:

 

Ólafur Páll Gunnarsson

Anna Guðrún Ahlbrecht

Guðni Hannesson

Bjarnheiður Hallsdóttir

Tinna Steindórsdóttir

Aldís Petra Sigurðardóttir

Ole Jakob Volden