Við eigum bara eina heilsu

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir

Við eigum bara eina heilsu, góð heilsa er það dýrmætasta sem hver manneskja á. Sveitarfélög hafa bæði samfélagslegan og fjárhagslegan ávinning af því að styðja og hvetja íbúa til heilbrigðs lífs.

En hvernig förum við að því að átta okkur á stöðunni varðandi lýðheilsu í samfélaginu sem við búum í? Hvernig mælum við lýðheilsu? Hvernig metum við hvar við þurfum að bæta í, gera betur. Til eru fjölmargar leiðir og hefur embætti landlæknis gefið út svokallaða lýðheilsuvísa. Lýðheilsuvísum er ætlað að auðvelda sveitarfélögum og heilbrigðisstofnunum að greina stöðuna á sínu svæði. Hægt er að greina styrkleika og veikleika og með þá vitneskju er hægt að vinna að því að finna leiðir til að skilja þarfir til bættrar heilsu og líðan í sveitarfélaginu.

Í lýðheilsuvísum sem komu út sl. haust má skoða stöðuna á Vesturlandi. Þar kemur t.d. fram að fleiri fullorðnir nota virkan ferðamáta í vinnu/skóla í samanburði við aðra landshluta. Hlutfall framhaldsskólanema sem hefur prófað kannabis er lægst á landinu, sem er afar ánægjulegt. Lægsta hlutfall framhaldsskólanema sem segist oft hafa verið einmana. Hlutfall barna í 8.-10. bekk sem tekur þátt í skipulögðu íþróttastarfi er lægst á Vesturlandi miðað við aðra landshluta.  Fleiri fullorðnir meta andlega heilsu sæmilega/lélega og á Vesturlandi mæta færri konur í leghálskrabbameinsskoðun en í öðrum landshlutum.

Skipulag þarf að vera á forsendum alhliða heilsueflingar, bæði líkamlegrar og andlegrar, auk þess að hámarka loftgæði. Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu eða hjólreiðar. Þess vegna vill VG efla Borgarbyggð enn frekar sem heilsueflandi samfélag m.a. með því að fjölga göngu- og reiðhjólastígum, gera skal framkvæmdaáætlun fyrir allt sveitarfélagið í samstarfi við Vegagerðina og landeigendur. Auk þess þyrfti að fjölga merktum gönguleiðum og koma fyrir bekkjum og líkamsræktartækjum utandyra. Einnig skal gefa út gönguleiðakort um Borgarbyggð. Þetta ætti að vinna í samstarfi við áhugamannafélög og landeigendur.

Íþróttir og tómstundir eiga að vera fyrir alla, aðgengi að þeim þarf því að vera í lagi og fjölbreytt úrval í boði. Vinstrihreyfingin grænt framboð leggur áherslu á forvarnargildið sem öflugt íþrótta- og tómstundastarf hefur í för með sér og því mikilvægt að styðja vel við þetta starf hjá öllum aldurshópum.

Ein stærsta áskorunin þegar horft er á lýðheilsuvísana er að horfa á þá staðreynd að fleiri fullorðnir meta andlega heilsu sæmilega/lélega. Það þarf að vinna gegn einmanaleika og kvíða með fjölbreyttum leiðum. Það hafa verið færð rök fyrir því að útivera ein og sér hafi mikil jákvæð áhrif á andlega heilsu. Það þarf líka að vera tryggt aðgengi að sálfræðingum og hlúð sé að starfsumhverfi fólks.

Það er mín bjargfasta skoðun að ef við hugum að andlegri og líkamlegri heilsu, erum við enn betur í stakk búin fyrir framtíðina. Verkefni á borð við „Heilsueflandi samfélag“ er frábært framtak og það þarf að efla enn frekar, markmiðið ætti að vera virk þátttaka allra samfélagshópa.

 

Sigríður Júlía Brynleifsdóttir

Höf. skipar 2. sæti á lista VG í Borgarbyggð

 

Fleiri aðsendar greinar