Við ætlum að byggja upp í Borgarbyggð!

Eðvar Ólafur Traustason

Þegar ég ákvað að taka þátt í stjórnmálum var það vegna þess að ég vildi láta gott af mér leiða fyrir samfélagið. Ég valdi að vinna með fólki í stjórnmálaafli sem hefur sýnt að það lætur verkin tala. Við í Framsókn leitum lausna með því að hlusta á ólík sjónarmið til að ná fram skynsamlegri niðurstöðu og það er það sem við ætlum að gera á komandi kjörtímabili. Í mínu sveitarfélagi Borgarbyggð er gott að búa, fyrirmyndar umhverfi fyrir börn og fjölskyldur og hér líður manni vel. Við eigum mikil tækifæri og við eigum margt spennandi fyrir höndum á næstu árum. En það verður hins vegar að viðurkennast að við höfum setið eftir þegar kemur að uppbyggingu þegar horft er á sambærileg sveitarfélög í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Íbúum hefur þar fjölgað verulega og mikil íbúðabyggð byggst upp samhliða því sem fyrirtæki hafa séð tækifæri á því að flytja störf eða starfsemi sína í heild sinni til þessara nærsvæða höfuðborgarinnar. Það hefur því miður ekki gerst í okkar samfélagi og eru nokkrar samverkandi ástæður fyrir því.

Eru engar lóðir til?

Framboð á lóðum hefur verið verulega áfátt og er svo komið að varla er til lóð fyrir fjölbýlishús eða einbýli, rað- og parhús í Borgarnesi. Skipulagsmál á Vallarási hafa verið í endurskoðun en það hefur ekki dugað til þess að koma neinu í gang enn sem komið er. Það hafa verið byggð hús sem hægt er að telja á höndum beggja handa á líðandi kjörtímabili í Borgarnesi svo dæmi sé tekið meðan að í öðrum sveitarfélögum eins og Akranesi og Árborg hafa risið hús og íbúðir í hundraða tali. Við erum með krísu á húsnæðismarkaði í Borgarbyggð og hana verður að leysa, og það hratt.

Þetta ætlum við að gera!

Við í Framsókn ætlum að rjúfa þá kyrrstöðu sem hefur ríkt um nokkurn tíma og keyra í gang feril uppbyggingar og framþróunar. Við ætlum á næstu þremur árum að skipuleggja og koma á markað hið minnsta, lóðum fyrir 300 íbúðir í allri Borgarbyggð. Við ætlum að gefa 75% afslátt af gatnagerðargjöldum atvinnuhúsnæðis til að efla fjárfestingu og fjölga atvinnutækifærum. Við ætlum líka að efla innviði til að mynda með því að vera búin að reisa nýtt íþróttahús fyrir árslok 2025. Það þarf að byggja upp og byggja hratt til að fjölga tækifærum og fjölga fólki. Verslun og þjónustu hefur farið mjög aftur á undanförnum áratugum og við ætlum að snúa því við. Það gerum við með því að fjölga íbúum, fá fleiri til þess að nota þjónustuna og fá fleiri aðila til að greiða skatta og skyldur til að auka hagkvæmni í rekstri. Það erum við sem viljum greiða götu þeirra sem vilja framkvæma og það erum við sem ætlum að gera Borgarbyggð að enn stærra og enn betra sveitarfélagi. Því þarf nýja Framsókn fyrir Borgarbyggð. X – B þann 14. maí.

 

Eðvar Ólafur Traustason

Höfundur skipar 3. sæti á lista Framsóknar í Borgarbyggð