Verndum og sköpum störf innanbæjar

Stefán Skafti Steinólfsson

Ágætu lesendur!

Það er brýnna en nokkru sinni að vernda þau störf sem við Skagamenn höfum þó enn innanbæjar. Hvert einasta starf þarf að verja með kjafti og klóm, ekki síst kvennastörfin sem eru alltof fá. Setja þarf kraft í að laða að fyrirtæki smá og stór og reyna að fjölga fjölbreyttum kvennastörfum og hlutastörfum fyrir öryrkja. Ég vil óska nýráðnum verkefnastjóra atvinnumála hjá Akraneskaupstað, Sigríði Steinunni Jónsdóttur, til hamingju með starfið. Mikið verk er að vinna. Beita þarf öllum ráðum og ívilnunum til að halda í störfin og auðvelda fyrirtækjum róðurinn. Bæjaryfirvöld geta á margan hátt beitt sér. Þrýsta þarf á stjórnvöld að bæta umhverfi smærri fyrirtækja t.d. með því að lækka tryggingargjald svo um munar. Það er furðulegt að halda því svo háu í svo litlu atvinnuleysi sem raun ber vitni.  Koma þarf hreint fram með skráningu aflaheimilda en varla sporði er landað hér af stærsta kvótaeigandanum HB-Granda. Það veldur því að eigi er gerlegt að sækja um byggðakvóta. Það er heiðarlegra að skipin séu afskráð hér og byrjað verði frá grunni að byggja upp fiskveiðar og útgerð. Ekki síst í ljósi fjórðu iðnbyltingar og þeim störfum sem hægt er að skapa. Ljósið í myrkrinu er flutningur Ísfisks á Akranes. Fyrirtækið er þó ofurselt því að kaupa fisk á markaði þar sem duttlungar stórútgerða ráða fiskverði. Brýnt er að styðja fyrirtækið með ráðum og dáð svo fjölga megi störfum. Varðandi aðstöðumál hafnarinnar má minna á góð og fögur fyrirheit Faxaflóahafna um að gera Akraneshöfn að þróttmikilli fiskihöfn. Þar hefur hrapalega mistekist. Það vekur upp spurningu hvort Útgerðarfélagi Reykjavíkur standi til boða sömu kjör og boðin voru HB-Granda varðandi aðstöðu og hafnarmannvirki. Er hugsanlegt að laða fyrirtækið til okkar og auka umsvif í fiskvinnslu og tengdum störfum.

Gríðarmikilvægt er að leysa raforkumál síldarverksmiðjunnar og koma þar upp rafkatli sem allra, allra fyrst. Verksmiðjan er gullmoli við hrygningarstöðvar loðnunnar. Því eru nýlegar uppsagnir starfsmanna mikil vonbrigði og fyrirhyggjuleysi.  Það var dapurlegt að lesa fréttir af fundi sambands sveitarfélaga í haust þar sem var lítið tekið á vanda  sem steðjar að sjávarútvegi á Akranesi og Vesturlandi öllu. Smjörklípan um veiðigjald glepur sýn á meðan fyrirtækin eru „grömsuð“ frá okkur og atvinnan flyst annað. Minna má á að þjóðfélagið var byggt upp án veiðigjalda eða rangláts kvótakerfis í sjávarútvegi. Útgerð er að deyja út á Akranesi og er það miður.  Senda þarf skýr skilaboð til stjórnvalda að gölluðu kerfi þurfi að breyta og leggja veiðigjöld af. Frjálsar krókaveiðar er eitthvað sem bæjarstjórn Akraness ætti að beita sér fyrir. Verðmætin af auðlindinni koma gegnum störfin og veltuna sem áður fyrr.

Síðast en ekki síst þarf að vernda iðnaðarhverfi hér innanbæjar. Það gengur ekki að sífellt sé verið að ásælast lóðir sem ætlaðar eru undir iðnað, til íbúðabygginga. Sem dæmi má nefna Dalbrautarreitinn, Ægisbraut og Sementsreitinn. Halda ætti hluta Sementsreits eftir til þess að stækka og bæta höfnina. Svona iðnaðarlóðir kosta milljarða, marga milljarða. Það er nauðsynlegt að byggðin sé blönduð og fólk geti gengið eða ekið stuttan spöl til vinnu.  Það er góð blanda með störfum á Grundartanga og Reykjavík. Með því svefnbæjar „viðmóti“ sem margir hafa bent á að sé farið að einkenna bæinn okkar, er bæjarbragurinn fátækari. Ekki gengur að hafa öll eggin í sömu körfunni. Menning, þekking og mannlíf tapast.  Akranes getur verið framsækið nútíma sjávarþorp sem hlúir vel að fjölskyldum, atvinnu og mannlífi.  Tökum höndum saman og gerum bæinn betri.

 

Stefán Skafti Steinólfsson.

Höf. er verkamaður.

Fleiri aðsendar greinar