Verður Vesturland eitt sveitarfélag?

Reynir Ingibjartsson

Nú ætlar Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra sveitastjórnamála að gera enn eina tilraunina til að sameina sveitarfélög svo þau geti sinnt síauknum þjónustukröfum. Sveitarfélög með innan við 250 íbúa sameinist í stærri einingu fyrir næstu sveitastjórnakosningar 2022, og síðan verði íbúamarkið hækkað í 1000 íbúa fyrir kosningarnar 2026.

Sem gamall heimamaður af Vesturlandi, hefur maður fylgst með tilraunum til sameiningar á Vesturlandi og þar hefur sannarlega gengið á ýmsu. Best hefur kannski tekist til með Borgarbyggð og Dalabyggð og þar virðast flestir sáttir í dag.

En hvað blasir við í dag ef tillögur ráðherrans verða samþykktar sem lög? Hvorki Hvalfjarðarsveit eða Skorradslshreppur uppfylla þessi íbúamarkmið. Meðan sýslurnar voru eitt lögsagnarumdæmi, voru Mýra- og Borgarfjarðarsýsla gjarnan nefnd í sömu andrá þegar kom að margvíslegum samstarfsverkefnum. Ef fyrrgreind sveitarfélög sameinast Borgarbyggð, er þetta gamla byggðamynstur sameinað á ný. Sameining við Akranesbæ virðist ekki á dagskrá og það er bara Borgarfjarðarbúin sem aðskilur Hvalfjarðarsveit og Borgarnes (Borgarbyggð).

Er þetta ekki nokkuð augljóst? Sá mæti maður, Jón Helgason rithöfundur og fyrrum ritstjóri, leit ávallt á sig sem Borgfirðing, þótt hann væri fæddur á Stóra-Botni í Hvalfirði.

Þá er það Snæfellsnesið. Þar hefur sundurlyndið lengi ráðið ríkjum varðandi sameiningu sveitarfélaga og margvísleg héraðsmál. Afleiðingin m.a. sú að tvö sveitarfélög hafa sameinast út fyrir héraðið þ.e. Skógarstrandarhreppur, Dalabyggð og Kolbeinsstaðahreppur, Borgarbyggð. Um leið er aldagömul héraðsvitund á Snæfellsnesi að breytast og íbúarnir orðnir að hálfgerðum nýbúum í Borgarbyggð og Dalabyggð.

Hvað gera svo íbúar í Helgafellssveit og Eyja- og Miklaholtshreppi? Þeir verða að snúa sér í einhverja átt. Einn kosturinn er að leita til íbúanna í fyrrum Skógarstrandarhreppi og Kolbeinsstaðahreppi með ósk um sameiningu. Það gæti svo aftur á móti styrkt stöðuna gagnvart Stykkishólmsbæ sem augljóslega þarf að ræða við. Grundarfjörður gæti svo bæst við þar sem íbúarnir eru nú innan við eitt þúsund. Snæfellsbær virðist vilja vera áfram sérstakt sveitarfélag og ekki til viðtals fyrr en ráðamenn þar sjá hugsanlega fram á einangrun á Snæfellsnesi.

Loks eru það Dalirnir. Þar blasir við fyrir árið 2026 að leita eftir sameiningu við önnur sveitarfélög. Nærtækast er að sameinast Reykhólahreppi en það dugar kannski ekki til? Hvað þá? Dalamenn hafa horft bæði í norður og suður en hvað með vestur? Ef sveitarfélög á Snæfellsnesi sameinast í eitt, er þá ekki til í dæminu að til verði Breiðafjarðarbyggð? Meðan Breiðafjörður var samgönguæðin, voru mikil tengsl milli Snæfellsness, Dala og Austur-Barðastrandar. Vegur um Skógarströnd með varanlegu slitlagi gæti breytt miklu. Þegar stofnað var Breiðfirðingafélag fyrir nærri öld, náði félagssvæðið yfir allt Breiðafjarðarsvæðið. Síðar klufu brottfluttir Snæfellingar og Barðstrendingar sig út úr því.

Á Vesturlandi sem og víðar, dugar ekki lengur að hjóla áfram í gömlu hjólförunum. Það á að taka tillögur ráðherra um sameiningu sveitarfélaga, mjög alvarlega. Vestlendingar eiga svo sameiginlegan kost – að sameina öll sveitarfélögin á Vesturlandi í eitt. Kannski væri það skynsamlegasti kosturinn?

 

Reynir Ingibjartsson frá Hraunholtum.

Fleiri aðsendar greinar