Verður lífið betra með slæmum kaffibolla?

Geir Konráð Theódórsson

Það er margt sem gleður mig við að vera kominn heim til Íslands eftir dvöl mína í Níger í Afríku. Það sem er ofarlega á þeim lista er að geta byrjað morguninn minn með góðum kaffibolla. Það var alveg hægt að fá kaffi í Níger, en það voru helst bara útlendingar eins og ég sem keyptu það í rándýru útlendingabúðunum. Meðal almennings í Níger er ekki mikil hefð fyrir kaffidrykkju, mun algengara er að fólk þar fái sér ákveðna tegund af svörtu tei og helst vel sykrað ef það er mögulegt. Algengt er að sjá menn sitja saman við göturnar í höfuðborginni Niamey eftir bænastundirnar. Þeir koma sér spekingslega fyrir á sandinum og drekka brennandi heitt te í brennandi hita. Ég gat ómögulega skilið hvernig hægt var að drekka heitan drykk í 45°C hita, en mismunandi erum við og líklegast ætti manneskja frá Níger erfitt með að skilja okkar siði og venjur. Sérstaklega ef hún kæmi til Íslands um miðjan vetur og myndi reka augun í biðröð af Íslendingum, mögulega standandi í blindbyl á myrku kvöldi, að bíða eftir að komast inn í sjoppuna til að kaupa sér rjómaís eða bragðaref.

En aftur að kaffinu, ég kynntist kaffinu fyrst þegar ég vann í smíðavinnu 13 ára gamall í Borgarnesi. Þetta var fyrsta alvöru sumarvinnan mín og þegar kaffihléið kom þá mætti ég inn á kaffistofuna hjá körlunum með Andrésblað og kókómjólk. Körlunum var flestum alveg sama um matarvenjur þessa drengs, en var þó einn smiðsneminn þarna sem fussaði yfir þessu og sagði að ég ætti að vera eins og alvöru karlmaður fyrst ég væri kominn í alvöru vinnu. Andrésblaðið og kókómjólkin hvarf úr höndunum á mér og í staðinn fékk ég klámblað og kaffibolla. Blaðið var svo sem áhugavert en mikið ógurlega fannst mér kaffið vont á bragðið. Mögulega hefði kaffið verið betra með mjólk og sykri, en smiðsneminn var staðfastur á því að þær viðbætur væru bara fyrir kerlingar eða menn sem girnast aðra karlmenn. Það bætti ekki úr skák að þegar neminn hellti upp á kaffið sjálfur þá var það sérstaklega hræðilegt, mögulega var það hrein leti, vankunnátta eða vitleysa hjá honum en hann átti það til að endurnota korginn og pokann í uppáhellingunni – þá var tekinn biti af kaffinu frekar en sopi. En tíminn leið og ég hlustaði á þessa vitlausu visku hans um karlmennsku í gegnum sumarið og hellti þessum viðbjóðslega vökva ofan í mig í hverri pásu. Brenglaðar og bjánalegar hugmyndir um karlmennsku eru víða en ég man að ég var efins, ég man að á meðan ég sötraði svarta vökvann var ég mikið að hugsa og pæla – líklegast væri betra að lifa lífinu eins og brosandi barn með kókómjólk en að verða svona leiðinlegur karlmaður með kaffi.

Kaffið hefur verið samtvinnað íslensku þjóðarsálinni og lífinu hér á landi síðan það fyrst fluttist hingað inn í kringum 1760. Kaffið var lengi vel hinn mesti munaður og var bara hellt upp á við sérstök tilefni, en eftir því sem tíminn leið fór drykkurinn að verða hluti af daglegu lífi landsmanna. Ætli hver kynslóð hafi ekki þurft að upplifa kaffispekinga eins og smíðanemann minn, einhver svona aðili sem otaði þessum óþverra að þeim sem yngri voru ásamt einhverjum misgáfulegum ráðleggingum. Sá grunur læðist að mér að það hafi verið einhverskonar kaffispekingur sem bjó til þær kaffikreddur sem séra Jónas Jónasson segir svo skemmtilega vel frá í bókinni sinni Íslenzkir þjóðhættir. Þar kemur meðal annars fram að; “ef maður lætur rjómann í kaffið á undan sykrinum, á maður ekki að giftast í 7 ár” og “maður verði ófríður af að drekka heitt kaffi, en fríkki við að drekka það kalt, og þeir, sem drekka mikið kaffi, verði geðvondir.”

Marga bollana drakk ég þarna um sumarið og veit ég ekkert hvort ég hafi fríkkað eða orðið geðvondur við drykkjuna, en þegar sumrinu lauk fór ég aftur að drekka kókómjólkina mína. Það var einfaldlega vegna þess að ég vandist aldrei bragðinu, mér fannst kaffið þarna á kaffistofunni hreinlega bara vont. Síðan þá hef ég kvartað í gegnum tíðina yfir vondu kaffi, en þá hafa þeir sem eldri eru oft verið snöggir að benda mér á þá staðreynd að ég sé hreinlega of ungur til að muna eftir alvöru slæmu kaffi. Það er bara lúxus að geta kvartað yfir baunakaffi, því lengi vel var siður að nota meira en bara baunir í íslenska kaffið.

Kaffibætir, oft kallaður “export”, var fluttur inn til Íslands frá því um 1870 og var hann notaður til að drýgja kaffið. Kaffibætir var gerður úr rótum kaffifífils eða sikoría, þetta var þurrkað, ristað og mulið og blandað saman við malað kaffi, stundum allt að því til helminga.  Ekki líkaði öllum kaffibætirinn þó hann hefði verið vinsæll fram undir miðja síðustu öld. Halldór Laxness var einn af þeim sem voru alls ekki hrifnir af þessari útgáfu af sopanum: „Ég get ekki nema af sérstakri kurteisi drukkið kaffi með því bragðvonda og heilsuspillandi skítbrasi samanvið, sem í auglýsíngum er nefnt ,,kaffibætir“, en alþýða nefnir ýmist rót, export eða sikkorí.” Vert er að taka fram að O.Johnson & Kaaber flutti inn þennan kaffibæti með nafninu Ludvig David, en eins og Laxness segir þá var þetta af einhverjum ástæðum oftast kallað eitthvað annað í daglegu tali. Skemmtilegt þykir mér að þetta hafi verið kallað rót, og þá veit ég loksins hvaðan lýsingin er tilkomin sem við notum enn í dag, það er að segja að tala um rótsterkt kaffi.

Þó að ég hafi sloppið við kaffibætinn og verið svo heppinn að drekka alvöru baunakaffi þarna í vinnunni, þá var minningin um bollann slæma samt svo sterk að ég vildi ekkert drekka þetta sull. Tíminn leið og einhvern tímann á þessum unglingsárum var ég að lokum staddur í fjölskylduboði. Stundin var runnin upp, fyrir framan mig voru tvær hitakönnur, ein með kakói og hin með kaffi, og kakóið var að klárast. Ég smakkaði af forvitni kaffið aftur. Nýlagað og vel sterkt fór það í bollann og ilmurinn greip mig alveg. Þegar fyrsti sopinn kom með þetta djúpa bragð og gaf þessa hlýju þá kolféll ég alveg. Þessi drykkur var alveg hreint himneskur, þetta var svo langt frá því að vera svarta karlmennskuleðjan úr smíðavinnunni, ég skildi bara ómögulega af hverju þetta var svona gott. Ég hef verið ástfanginn af kaffi frá þessari stundu, og þegar ég horfi til baka þá held ég að þessi fyrsti viðbjóðslegi slæmi kaffibollinn í smíðavinnunni hafi í raun bara verið blessun. Bragðlaukarnir mínir vöndust því að drekka þetta heimsins versta kaffi frá smíðanemanum – og blessunin var þá sú að eftir þá bragðlegu þrekraun er allt annað kaffi himneskt í samanburðinum.

Þessi lexía kemur mér oft til hugar. Þegar eitthvað kemur upp hjá mér og lífið gengur illa þá hugsa ég stundum um að þetta ástand sé bara slæmur kaffibolli, ég þurfi bara að klára hann. Ég veit nefnilega að þegar lífið verður betra og kemur loksins með góða kaffið þá mun ég kunna svo miklu betur að meta það – því ég hef upplifað og man svo vel eftir lífsins vonda kaffibollanum.

 

Geir Konráð Theódórsson

Gömul blaðaauglýsing um kaffibæti.

Fleiri aðsendar greinar