Verður héraðið læknislaust?

Halla Signý Kristjánsdóttir

Heilsugæslur um landið eiga að vera fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðisþjónustunni. Þær eru mikilvægur hlekkur og eiga fyrst og fremst að þjóna íbúum viðkomandi sveitarfélags eða hverfis. Fjöldi lækna og starfsfólks á heilsugæslum tekur mið út frá fjölda skráðra íbúa hvers umdæmis fyrir sig. Hvert sveitarfélag eða umdæmi hverrar heilsugæslu getur verið mjög mismunandi að stærð, fjölda íbúa og að landfræði. Vegalengd að næstu heilsugæslu getur verið allt frá nokkrum kílómetrum upp í hundruð kílómetra endana á milli, þá sér í lagi á landsbyggðinni.

Óeðlilegt álag á starfsfólk

Á undanförnum árum hefur reynst erfitt að manna stöður lækna á heilsugæslum víða á landsbyggðinni. Starfsumhverfi heilsugæslunnar er erfitt í fámennum en víðfeðmum héruðum. Læknar sem gefa sig í slíkt umhverfi þurfa að standa langar vaktir og oft og tíðum undir miklu álagi. Til lengdar eru þessar vinnuaðstæður lítt spennandi né heilbrigt umhverfi fyrir fjölskyldufólk. Sólarhringurinn getur verið undir í vinnu, álagið og ábyrgðin mikil. Enginn endist í slíku vinnuumhverfi.

Þrír læknar fyrir allt að tólf þúsund manns

Starfssvæði heilsugæslunnar í Borgarnesi samanstendur af Borgarbyggð, Skorradalshreppi ásamt Eyja- og Miklaholtshreppi. Fjöldi íbúa á starfssvæðinu eru um 3.900 manns en fjöldi lækna við heilsugæslustöðina er að jafnaði þrír. Já, það eiga þrír læknar að þjóna þessu víðfeðma landsvæði, en ekki hefur þó verið fullmannað í þessar stöður undanfarin ár. Þrátt fyrir að íbúar séu skráðir 3900 þá er mikil dulin búseta á svæðinu. Þessi tala getur þrefaldast yfir sumartímann þar sem fjöldi fólks er staðsett í sumarbústöðum vítt og breitt um Borgarfjörð nokkra mánuði á ári. Þá er ótalin sú mikla umferð ferðamanna um svæðið. Læknir sem yfirgefur heilsugæslustöð eftir 8 tíma vinnudag getur átt von á því að fá útkall upp í Húsafell sem er í 62 km. fjarlægð frá Borgarnesi. Hann verður að sinna aðilanum þrátt fyrir að hann sé ekki „skráður“ á  viðkomandi heilsugæslu. Þá liggur þjóðvegur 1 í gegnum svæðið með tilheyrandi umferð sem því fylgir, læknir í Borgarnesi þarf að vera tilbúinn til hendast með sjúkrabíl upp á Holtavörðuheiði um miðja nótt til þess að sinna slysi.

Ástandið alvarlegt

Nú hafa tveir læknar við heilsugæsluna í Borgarnesi sagt starfi sínu lausu. Heilsugæslan í Borgarnesi hefur verið viðurkennd sem kennslustöð og má því ráða inn sérnámslækna eða kandídata sem vinna undir handleiðslu sérfræðilæknis á staðnum.  Eins og staðan er í dag hefur ekki tekist að ráða í þrjár sérfræðistöður lækna. Þriðja staðan hefur hingað til verið skipuð sérnámslækni eða kandídat. Til þess að hægt sé að manna stöðina með kandídötum eða sérnámslæknum þarf að vera sérfræðilæknir á stöðinni. Eins og staðan er núna er ekki búið að ráða sérfræðilækni í fullt starf í haust, hvað tekur þá við?

Íbúar finna nú þegar fyrir miklu álagi á heilsugæslunni, erfitt er að fá tíma hjá lækni og getur biðin talið nokkrar vikur. Það er erfitt að sjá eftir góðum læknum og enn erfiðara þegar er algjör óvissa ríkir um framhaldið. Miklu skiptir að fólk hafi aðgang að lækni sem er á staðnum og þekkir sögu fólks og fjölskyldna. Við vitum öll að einstaklingur sem þekkir vel til er fljótari að setja sig inn í flókar aðstæður heldur en afleysingarlæknar sem koma og fara. Það er samfélagslega mikilvægt að hafa fastráðna lækna á heilsugæslum.

Horfa þarf á starfsumhverfið í heild

Það er orðið augljóst að breytinga er þörf, það þarf að meta hvert svæði fyrir sig. Það þarf að taka með í reikninginn stærð landsvæðis, umfang, samgöngur og landslag mannlífs og náttúru. Starfssvæði heilsugæsla eru margvísleg og mismunandi um allt land. Ekki er lengur hægt að horfa einungis í íbúatölu þegar meta á starfsumhverfi lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks.

Hér áður fyrr létu læknar bjóða sér ýmsar aðstæður en það er ekki boðlegt lengur. Læknar, ljósmæður og þeir sem sinna svæðinu vilja og þurfa að eiga sér eðlilegt fjölskyldulíf ef þeir eiga að endast í starfi í fámennu en víðfeðmu héraði. Fjarlækningar eru góðar og gildar en þeim verður ekki viðkomið ef tilkynnt er um hjartaáfall í Húsafelli eða slys á Holtavörðuheiði. Það þarf að standa vörð um heilsugæsluna, fyrsta skrefið í því væri að meta hvert starfssvæði upp á nýtt þegar horft er til fjölda starfandi lækna og gera vinnuumhverfið meira aðlaðandi. Þannig má betur hlúa að heilsu þjóðarinnar.

 

Halla Signý Kristjánsdóttir

Höfundur er þingmaður Framsóknar og er í framboði fyrir flokkinn í Norðvesturkjördæmi.