Velkomin heim að Hólum

Bjarni Jónsson

Með stolti og gleði bjóða Skagfirðingar Landsmót hestamanna 2016 velkomið heim að Hólum. Skagafjarðarsýsla keypti Hóla  1881 og stofnaði þar bændaskóla á hinu forna biskups- og menntasetri Norðlendinga um aldir. Fyrir mig sjálfan er þessi stóratburður, Landsmót hestamanna heima á Hólum einkar ánægjulegur. Ég minnist  þess þegar ég fluttist með foreldrum mínum og fjölskyldu  til Hóla síðla sumars 1981 og bjuggum við þar öll næstu 20 árin en ég lengur. Faðir minn, Jón Bjarnason síðar þingmaður og ráðherra var þá nýráðinn skólastjóri Hólaskóla,  en reglubundið skólahald hafði legið þar niðri í tvö ár.  Til stóð að leggja niður allt skólahald og loka Hólastað sem  menntasetri.  Þeirri ákvörðun var sem betur fer breytt og endurreisn Hóla ákveðin. Við vorum þá orðin  fjögur systkinin í fjölskyldunni  og mér fannst við vera að fara úti í nokkra óvissu. Sárt var  að yfirgefa kindurnar, hestana mína og hið fjölbreytta sveitalíf sem ég hafði alist upp við í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi. Ég fékk þó að taka skjóttu hryssurnar mínar tvær með mér  heim að Hólum. Þær voru hörkuviljugar og þóttu nokkuð villtar þegar þær komu saman við hin ræktuðu ríkishross á Hólum. En á Hólum hafði þá verið rekið hrossaræktarbú í meira en 20 ár. Þegar ég hugsa til baka  til ársins 1981 að við komum að Hólum. Þá var varla  nokkuð almennilegt hús íbúðarhæft og borið  saman við staðinn í dag er breytingin ótrúleg ef ekki kraftaverk.

 

Endurreisn Hóla

Sérstaða Hólaskóla var þá þegar mörkuð sem miðstöð hrossaræktar og reiðkennslu í landinu og reyndar um gjörvallan heim íslenska hestsins. Og byggingar risu ein af annarri, hesthús, reiðskemmur og reiðvellir, íbúðarhús og kennsluhúsnæði.  Skólahús og aðrar eldri byggingar voru  gerðar upp. Námið efldist og þróaðist  með alþjóðlegum blæ  og hróður þess barst víða um heim.  Innan fárra ára voru nemendur erlendis frá jafnvel fleiri en þeir íslensku. Fyrir okkur sem ólumst upp á Hólum á þessum umbrotatímum  var þetta ævintýri líkast. Og þó svo faðir minn sæist lítið nema um blánóttina og móðir mín oft kölluð í mötuneytið, gestamóttöku eða búa um næturgesti heima, var staðurinn og íbúarnir eins og ein stór fjölskylda. Yngstu systkini mín tvö fæddust á Hólum, og svo síðar dóttir mín. Af öllu því góða fólki,  stóru fjölskyldu, nemenda og starfsfólks  verð ég að nefna einn án þess að halla á aðra. Ég er ekkert viss um að við værum nú að halda landsmót á Hólum ef traustri bústjórn Grétars Geirssonar hefði ekki notið við öll fyrstu árin okkar á Hólum.

Næturgestir, farkennarar þurftu yfirleitt að gista í húsi okkar því þröngt var um pláss og aðsókn nemenda mikil og umfram það sem hægt var að taka inn. Og Hólastaður óx og dafnaði, stolt Skagfirðinga.  Vígslubiskup Hílastiftis og embættið fluttist heim að Hólum og fékk víðtækt hlutverk  í kirkjumálum Hólastiftis. Námið færðist á Háskólastig, Hólaskóli- Háskólinn á Hólum miðstöð rannsókna og í kennslu i öllu því er varðar íslenska hestinn. Skólinn fékk til liðs við sig færustu reiðkennara  og samstarf við  allar greinar hestamennskunnar var ætíð mjög náið. Vindheimamelar í Skagafirði hafa um langt árabil verið landsmóts og samkomustaður hestmanna í Skagafirði.  Er mér sérstaklega minnisstætt landsmótið á Vindheimamelum 1982 og að verða vitni að því þegar glæsihryssan okkar Þrá, þá 4 vetra sló svo eftirminnilega í gegn.  Þrá og afkomendur hennar hafa síðan gert garðinn frægan um allan heim íslenska hestsins.

 

Landsmót heima á Hólum

Hinn mikli kraftur og fórnfýsi hestamanna í Skagafirði skóp Vindheimamelum sérstakan sess meðal vina íslenska hestsins um langt árabil.  Okkur verður hugsað með þakklæti til þeirra allra. Eftir að Hólar efldust sem miðstöð íslenska hestsins kom ítrekað til umræðu  að byggja Hóla upp sem landsmótsstað.  Slík hugmynd þurfti samt að þróast og er nú orðin að veruleika í Landsmóti hestamanna á Hólum 2016. Sem sveitarstjórnarmaður í Skagafirði um árabil hefur verið ánægjulegt að fylgjast með aðdraganda og undirbúningi þessa landsmóts.

Góðir landsmótsgestir! Hestamennskan, reiðmennskan, ræktun íslenska hestsins hefur tekið gríðarlegum framförum og breyst í  hreinar listgreinar og háþróaðar íþróttir. Glæsileiki og fegurð hrossanna er hrífandi og meiri en orð fá lýst.   Þessi stökkbreyting sem gerst hefur hér á Hólum síðan endurreisn staðarins hófst 1981, er hreint ótrúleg. Hólar í Hjaltadal  er stolt okkar Skagfirðinga, Norðlendinga og landsmanna allra. Megi landsmótsgestir njóta eftirminnilegra og góðra stunda. Verið  velkomin heim að Hólum.

Bjarni Jónsson

Fleiri aðsendar greinar