Velkomin á stofnfund Heimastjórnarflokksins í Borgarbyggð

Eiríkur Þór Theodórsson

Allt frá barnæsku hef ég haft mikinn áhuga á félagsmálum og síðar einnig á stjórnmálum. Þessi áhugi í bland við ríka réttlætiskennd, hefur nýst mér vel í starfi innan verkalýðshreyfingarinnar og sem trúnaðarmanns og í öðrum störfum bæði sem frambjóðandi og umboðsmaður flokka, ég vil trúa því að það komi til með að nýtast mér einnig vel í stjórnmálunum ef þá og þegar til þess kemur.

Einn af mínum forfeðrum í föðurætt hét Sighvatur Árnason og hann var lengi alþingismaður. Þegar ég fór að lesa mér til um hann þá komst ég að því að hann var um tíma í stjórnmálaflokki sem hét Heimastjórnarflokkurinn. Mér fannst gráupplagt að endurnýta nafnið á þeim mæta stjórnmálaflokki, honum til heiðurs, því nafnið var á lausu.  Aðrar tengingar eru ekki við þetta nafn.

Heimastjórnarflokkurinn á í mínum huga að vera frjáls og þverpólitískur, enda finnst mér að sveitarstjórnarmálin þurfi alls ekki að vera föst í viðjum gömlu stjórnmálaflokkanna og stefnum þeirra og kreddum. Ég tel reyndar að slíkar „fjarstýringar“ að sunnan, hafi oft og iðulega komið illa niður á heimamönnum þegar upp er staðið og horft er til baka.

Í mínum huga er það ljóst að íbúarnir þurfa að taka nokkrar stórar og erfiðar, og jafnvel, sársaukafullar ákvarðanir fyrir framtíð okkar sveitarfélags. En til að forðast kyrrstöðu og doða í samfélaginu er nauðsynlegt að skera á nokkra hnúta sem hafa staðið framþróun samfélagsins fyrir þrifum.  Allt í kringum okkur í Borgarbyggð er verið að byggja upp íbúðir og atvinnuhúsnæði. Ný fyrirtæki eru að flytjast frá höfuðborgarsvæðinu og út á land. En hjá okkur í Borgarbyggð hafa hlutirnir gerst mjög hægt og það er eins og við séum að missa af lestinni á margan hátt. Tökum hvert mál fyrir sig:

Brákarey, hvað viljum við með hana?

Á að rífa þar allt niður og hvað á þá að koma þar í staðinn? Ef Borgarbyggð hefði fyrir um 10 árum síðan ákveðið að kaupa upp allar eignir þar sem komið hafa á sölu þá ætti sveitarfélagið í dag nær allar húseignir í eyjunni. Slík fyrirhyggja hefði auðveldað framhaldið, hvað svo sem ákveðið hefði verið að gera með eyjuna. Það er eins og hver meirihluti hugsi aðeins til eins kjörtímabils í einu og reyni að koma sem best út í augum kjósenda í lok þess tímabils. Mikil óánægja er í samfélaginu vegna lokunar sláturhússins í Brákarey fyrir allri félagsstarfsemi sem þar var í miklum blóma. Meirihlutinn skýlir sér á bak við úrskurð um að allt húsið sé ónothæft og hættulegt. Í stað þess að skoða lausnarmiðað hvað sé hægt að gera í stöðunni í samvinnu við félagasamtökin og notendur sem telja mörg hundruð manns. Innan þess fjölda eru tugir iðnaðarmanna sem lýst hafa sig tilbúna til sjálfboðaliðastarfs við endurbætur hússins. Þeim tilboðum hefur ekki verið svarað hingað til nema með fullyrðingu um að það kosti yfir 600 milljónir að gera við húsið. Inni í þeim áætlunum eru m.a. kostnaður við niðurrif á húsunum.

Skólamálin

Það er öllum ljóst að ekki verður hagkvæmt eða skynsamlegt að starfrækja fjórar skólastarfsstöðvar í Borgarbyggð til framtíðar. Skynsamlegast er að loka Varmalandsskóla sem fyrst. Rífa plásturinn af og tilkynna þá ákvörðun sem fyrst. Það er erfiðast fyrir alla að hafa þetta hangandi yfir sér í mörg ár og allt fer í niðurníðslu á meðan.

Samgöngumálin/Vegamálin

Þar komum við að heitu kartöflunni til áratuga. Á hringvegurinn okkar, þjóðvegur allra landsmanna, að liggja í gegnum Borgarnes til allrar framtíðar? Er það öllum fyrir bestu? Umferðin í gegnum bæinn, sérstaklega yfir sumartímann, hamlar akandi sem og gangandi umferð heimafólks, svo ekki sé minnst á öryggisleysið og slysahættuna.  Ef þjóðvegurinn á að liggja áfram í gegnum Borgarnes þá þarf að gera verulegar breytingar til úrbóta.  Leggja þarf mislæg gatnamót eða vegleg undirgöng til að leysa málin að hluta til.  Einnig kæmi til greina að setja hringtorg við Brúartorgið en þá þyrfti að rýma til fyrir því.

Vegurinn upp með landinu er á Samgönguáætlun til ársins 2025.  Samþykkt fyrri sveitarstjórnar Borgarbyggðar breytir þar engu um.  Það var reyndar mjög undarlegt að taka ekki upp viðræður við Vegagerðina áður en slíkt var ákveðið, ég tala nú ekki um að láta gera skoðanakönnun meðal íbúa Borgarness.  Hver ætli sé vilji íbúa Borgarness í þessu máli, ég tel raunhæfara að spyrja þá frekar en alla íbúa sveitarfélagsins.

Nýtt íþróttahús og aðrar byggingar

Mér er tamt að ræða um Borgarnes enda er ég Borgnesingur sjálfur. En ég hef líka verið Hvanneyringur um tíma og ber einnig sterkar taugar til þess staðar. Á Hvanneyri eru miklir möguleikar fyrir Borgarbyggð. Þar er nóg pláss til að byggja íbúðarhús og atvinnuhúsnæði.  Þar væri hægt að byggja nýja íþróttahúsið sem að svo sárlega vantar, það eru ekki nema 12 km á milli þessara staða, jafnlangt frá Hvanneyri til Borgarnes og frá Borgarnesi til Hvanneyrar.

Ég sé líka fyrir mér uppbyggingu í Reykholtsdalnum; í Reykholti og á Kleppjárnsreykjum.  Uppbygging er nú þegar á fullri ferð í Húsafelli, þar er verið að reisa sumarhús og íbúðarhús til dvalar á árs grundvelli. Það mun svo koma aftur að því að Bifröst hljóti uppreisn æru.  Sá sögulegi og fallegi staður á skilið að verða endurreistur ef svo má segja.

Þróun byggðar

Af nógu er að taka þegar byrjað er að ræða um framtíðarmöguleika uppbyggingar í Borgarbyggðinni.  En líta verður til lengri tíma en gert hefur verið til þessa.  Í Borgarnesi verður að taka ákvörðun um hvort að þétta eigi byggðina eða láta hana þróast „upp í sveit“, jafnvel allt að Einarsnesi.  Ölduhryggurinn, svæðið vestan við Borg á Mýrum er í eigu Borgarbyggðar og það hefur oft komið til greina sem íbúðabyggð. Rétt fyrir hrun var verktaki í viðræðum við Borgarbyggð um að reisa þar nokkurs konar sjálfbært þorp, íbúðarbyggð með verslun og leikskóla. Í dag er Borgarbyggð búin að gæla við friðun Borgarvogs sem girða myndi fyrir möguleika á að byggja í Ölduhryggnum.

Stjórnsýslan

Heimastjórnarflokkurinn er ekki hugsaður sem eins máls flokkur og heldur ekki sem óánægju framboð eingöngu. Hann er hugsaður sem vettvangur fyrir fólk með skoðanir og hann vill að litið sé til framtíðar varðandi skipulag byggðar en ekki bara til hvers kjörtímabils fyrir sig.  Hann vill að fólk fái að njóta sín til athafna án þess að regluverkið sé notað hamlandi gegn því. Að sveitarfélagið vinni ekki gegn sjálfsögðum rétti fólks til félagsstarfsemi og tómstundaiðkunar.

Það ætti að vera sjálfsagt að starfsfólk sveitarfélagsins vinni með og fyrir íbúana en ekki gegn því á hamlandi hátt. Heilu deildirnar hjá sveitarfélaginu hafa verið hálf lamaðar til margra ára. Margir sem sent hafa inn erindi til Borgarbyggðar á undanförnum árum hafa ekki fengið svör við sínum erindum eða verið svarað seint og illa.  Of mörg dæmi eru um ranga stjórnsýslu og nægir þar að nefna „Húsafellsmálið“ eitt og sér.  Endurbætur hafa átt sér stað í stjórnkerfinu og er það til bóta en betur má ef duga skal.  Aðhalds og umbóta er þörf.

Stofnfundurinn

Stofnfundur Heimastjórnarflokksins verður haldinn á Hótel B59 laugardaginn 11. desember kl. 16:00.  Ég hvet að sjálfsögðu alla sem áhuga hafa á sveitarstjórnarmálum til að mæta á fundinn. Ef við íbúarnir ætlum að hafa áhrif á gang mála verðum við að stíga fram og lýsa skoðunum okkar.  Það þýðir ekkert að tuða um málin eftir kosningarnar í maí á næsta ári.  Stígum fram og styðjum Heimastjórnarflokkinn til góðra mála.  Allir velkomnir.

 

Eiríkur Þór Theodórsson