Velferð í forgangi í öflugri Borgarbyggð

Jóhanna Marín Björnsdóttir

Sveitarstjórnarkosningar eru framundan og eitt eiga öll framboð sameiginlegt, sem tefla fram framboðslista hér í Borgarbyggð, að vilja gera samfélagið okkar góða enn betra. Það er mér hjartans mál að hér hlúum við að samfélaginu okkar á þann hátt að einstaklingum líði vel og að hér vilji fólk búa. Borgarbyggð er fallegt og vel staðsett sveitarfélag sem býr yfir mörgum kostum. Náttúrufegurð, mannauðurinn og fjarlægðin, já eða nálægðin við höfuðborgina, eru allt mikilvægir þættir í því að hér líður fólki vel. Það er þó alltaf rými til að gera gott betra og erum við frambjóðendur D listans í Borgarbyggð með fjölbreyttar leiðir í stefnuskrá okkar til þess að gera gott samfélag enn betra.

Ungmennahús og heimavist við MB

Velferðarmál, heilsuefling og skólamál eru þau málefni sem ég brenn helst fyrir og er það helst vegna áhuga míns á þeim og þar liggur menntun mín og reynsla. Grunnskólagönguna kláraði ég í Borgarnesi og þaðan lá leiðin í Menntaskóla Borgarfjarðar sem var þá að hefja sitt annað starfsár. Menntaskóli Borgarfjarðar er afar mikilvæg stofnun í Borgarbyggð og þurfum við að styðja áfram við þá starfsemi eins og kostur er. Sjálfstæðisflokkurinn leggur meðal annars fram í stefnuskrá sinni að styðja við uppbyggingu heimavistar við MB. Það er tilraunarinnar virði að sjá hvaða áhrif heimavist myndi hafa á aðsókn í MB og hvort skólabragurinn myndi mögulega eflast enn frekar. Í takt við þetta vill Sjálfstæðisflokkurinn að ungmenni hafi samastað í frítíma sínum og leggur því til að stofnað verði ungmennahús að nýju. Heilsuefling þarf nefnilega að taka til margar þátta, t.a.m. félagslegra-, tilfinningalegra- og líkamlegra þátta og því má félagslíf ekki gleymast þegar við einblínum á heilsusamlegt líferni og viljum hvetja íbúa samfélagsins til að efla sína heilsu.

Eftir útskrift úr MB lá leið mín á Laugarvatn þar sem ég kláraði BS gráðu í íþrótta- og heilsufræði og hef í framhaldi af því þjálfað hina ýmsu hópa og einstaklinga í Borgarbyggð og víðar.

Fjölgum búsetukostum fyrir aldraða og hugum að heilsueflingu

Það var þó alltaf draumur að verða hjúkrunarfræðingur sem varð að veruleika sumarið 2021 þegar ég útskrifaðist frá Háskólanum á Akureyri. Það var sannarlega dýrmætt að geta búið í Borgarnesi ásamt fjölskyldu minni og stundað nám í HA. Í dag starfa ég sem hjúkrunarfræðingur á Brákarhlíð og kenni einnig áfangann heilbrigðisfræði við Menntaskóla Borgarfjarðar. Það er ólýsanlega gefandi starf að vinna með öldruðum en sá hópur gefur manni svo sannarlega aðra og víðari sýn á lífið. Það er skylda okkar sem yngri erum að hlúa vel að þessum aldurshópi sem fer sífellt stækkandi í samfélaginu. Það þarf að fjölga búsetukostum fyrir aldraða og leggur Sjálfstæðisflokkurinn það til í stefnuskrá sinni. Eldri aldurshópar eru gríðarlega fjölbreyttur hópur með mismunandi þarfir, það þarf bæði að huga að bættri heilsueflingu fyrir eldri aldurshópa og eins að þrýsta á að heimahjúkrun verði veitt alla daga svo að einstaklingar geti búið lengur heima því það er jú það sem flestir vilja meðan heilsa og geta til líkamlegra athafna er til staðar.

Eflum snemmtæka íhlutun og styðjum við íþróttir

En úr eldri aldurshópum og að börnunum okkar. Fyrir mig sem móður skiptir það mig miklu máli að hér í Borgarbyggð sé hlúð vel að heilsu barnanna okkar og tækifærum þeirra til náms og tómstunda. Hér er öflugt og gott skólastarf á öllum menntastigum en einnig er það hagur okkar allra að snemmtæk íhlutun verði efld, sem dæmi með talmeinafræðingum og sálfræðingum. Það er staðreynd að íþróttir og tómstundir eru okkar öflugasta forvörn og því er mikilvægt að hér sé fjölbreytt úrval af tómstundum svo að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi. Það eru spennandi tímar framundan hvað varðar stækkun á íþróttahúsinu í Borgarnesi og þá getur vonandi pláss myndast fyrir fjölbreyttari hreyfingu í takt við bætta aðstöðu fyrir þær íþróttir sem fyrir eru. Það er einlæg ósk mín að hér vilji fólk búa vegna þess að hér sé vel staðið að íþróttum og tómstundum fyrir börn en þetta eru hlutir sem fólk kynnir sér vel áður en búseta er valin. Sjálfstæðisflokkurinn vill leggja meiri áherslu á í verki að Borgarbyggð er aðili að verkefninu heilsueflandi samfélag og með bættri aðstöðu og auknum stuðningi getum við svo sannarlega gert enn betur hvað það mikilvæga verkefni varðar.

Það eru spennandi tímar framundan

Kæri lesandi; hér að ofan hef ég rakið helstu hugðarefni mín sem ég tel skipta máli í góðu samfélagi. Ég hef metnað til að láta gott af mér leiða bæði í mínum daglegu störfum og nú býð ég fram krafta mína og þekkingu til að setjast í sveitarstjórn Borgarbyggðar. Ég hvet alla íbúa Borgarbyggðar sem náð hafa aldri til þess að taka þátt í kosningunum 14. maí nk. það er réttur okkar sem höfum náð 18 ára aldri og þannig getum við öll haft áhrif á það hverjir setjast í sveitarstjórn. Það eru spennandi tímar framundan í Borgarbyggð, mig langar til að hafa áhrif á það hvernig mál þróast og því óska ég eftir þínum stuðningi við D listann í Borgarbyggð. Búið er að stilla upp samstilltri liðsheild reynslumikils fólks og okkar sem erum að koma ný að borði, saman getum við meira, ég, þú og öll Borgarbyggð sem gengur vonandi í takt á komandi kjörtímabili.

 

Jóhanna Marín Björnsdóttir.

Höf. er í 3. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Borgarbyggð