Veldur hver á heldur

Einar Brandsson

Í rekstri sveitarfélaga koma oftar en ekki upp hugmyndir og/eða vandamál sem þarfnast ríkulegs skilnings, stuðnings og oftar en ekki, skjótrar úrlausnar, löggjafans og fjárveitingavaldsins. Eðli málsins samkvæmt eru því sveitarstjórnarmenn í reglulegum samskiptum við alþingismenn hvers kjördæmis.

Alþingismenn líkt og sveitarstjórnarmenn eru jafn ólíkir og þeir eru margir. Áhugasviðið mismunandi og svo ræður pólitískur styrkleiki þeirra auðvitað nokkru hvers þeir eru megnugir á þingi.

Nú eru brátt liðin 12 ár síðan ég hlaut fyrst kjör sem bæjarfulltrúi á Akranesi og hef ég síðan marga fjöruna sopið í baráttu fyrir hagsmunum Akurnesinga og míns kjördæmis.

Á undanförnum fimm árum hefur Haraldur Benediktsson leitt lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi og í kjölfar góðs árangurs í kosningum verið fyrsti þingmaður kjördæmisins. Hann hefur á þessum árum skapað sér mikið traust með störfum sínum sem í hans tilfelli nær langt út fyrir raðir Sjálfstæðisflokksins. Það hefur verið auðvelt að ná sambandi við hann og hann hefur alltaf brugðist skjótt við þeim erindum sem honum berast.

Samstarf okkar bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins við Harald hefur verið ákaflega traust og saman höfum við náð farsælli lausn í mörgum baráttumálum. Lausn sem ekki hefur verið augljós við fyrstu sýn. Af mörgu er að taka. Þar ber hæst framganga hans til réttlátrar lausnar í uppgjöri á lífeyrisskuldbindingum kaupstaðarins, fjármögnun endurbyggingar Faxabrautar, aukning fjárveitinga af ýmsum toga til Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, barátta fyrir byggingu Sundabrautar, flýting á breikkun vegar um Kjalarnes, framlag til Þróunarfélags Grundartanga tryggt svo einhver af þeim verkefnum séu nefnd er upp hafa komið og segja má að séu utan þeirra venjubundinna verkefna er snúa að starfi þingmanna.

Á næstu misserum bíða mörg verkefni svo tryggja megi viðsnúning í fjármálum hins opinbera í kjölfar veirufaraldursins. Í þeirri baráttu mun reyna á styrk Haraldar eftir áralanga reynslu hans í fjárlaganefnd. Okkar bíða einnig þau verkefni að tryggja betur ýmsa atvinnustarfsemi er tengist útsvarstekjum Akraneskaupstaðar. Þar ber væntanlega hæst að tryggja áframhaldandi starfsemi stóriðjunnar á Grundartanga og framþróun hennar.  Því miður hefur ríkisstjórnin ekki getað tryggt þá starfsemi á sama tíma og henni tókst með álverið í Straumsvík.

Það er því mikið fagnaðarefni að Haraldur hafi áfram gefið kost á sér í oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi. Það gerði hann m.a. eftir áskoranir á bæjarmálafundum hjá okkur Sjálfstæðismönnum á Akranesi. Ekki er óeðlilegt að grípa til samlíkingar úr íþróttum þegar ég segi að maður breytir ekki sigurliði. Þar þurfa heildarhagsmunir íbúa kjördæmisins að ráða. Mín skoðun er því sú að framboðslisti Sjálfstæðisflokksins er sigurstranglegastur undir forystu Haraldar Benediktssonar.

 

Einar Brandsson

Höf. er bæjarfulltrúi á Akranesi fyrir Sjálfstæðisflokkinn.