Vegna umræðu um skotæfingasvæði

Hilmar Már Arason

Þakka þér fyrir að svara grein minni, Jónína Erna Arnarsdóttir. Ég ætla að bregðast við svari þínu.

 

Í fyrsta lagi

Á fundi í Hjálmakletti var okkur sagt að öllum athugasemdum yrði svarað von bráðar. Nú eru komin rúm tvö ár og þitt svar er það fyrsta sem við fáum. Rétt að þakka fyrir það.

 

Í öðru lagi

Ég leitaði á heimasíðu Borgarbyggðar og fann ekki skýrsluna. Sneri mér þá til starfsmanns Borgarbyggðar sem sendi mér hana í pósti. Ég dró þá ályktun að skýrslan væri ekki á netinu en hún er á netinu – vinnubrögð til fyrirmyndar hjá Borgarbyggð, rétt að þakka og hrósa fyrir það.

Skýrslan er góð en ekki eru öll mæligildin marktæk sökum slæmra veðurskilyrða þegar mælingar fóru fram og ekki var mælt við fólkvangsmörkin í 150 m fjarlægð, þar sem fyrirhugað er að fara í gróðursetningar, né við vinsælan reið-, göngu- og akveg sem er í 800 m fjarlægð.

 

Í þriðja lagi

Það hefur ekki verið fundað með Skógræktarfélaginu, skátum né umsjónarnefndinni, hagsmunaaðilum sem hafa nýtt svæði í áratugi. Niðurstaða fundarins með ábúendum í Lækjarkoti var að þetta væri slæm staðsetning fyrir skotæfingasvæðið og það yrði ekki staðsett þarna. Það er góð stjórnsýsla að taka upplýsta og málefnalega ákvörðun. Til að svo megi verða þarf að hlusta á öll sjónarmið og eiga í góðum málefnalegum umræðum við alla sem málið varðar. Finna bestu lausn með hag þeirra sem eru að nýta svæðið í huga.

Þú vitnar til vettvangsferðar USL nefndarinnar. Var rætt við íbúa í nágrenninu? Reynsla þeirra í Kollafirði af skotæfingasvæðinu í Álfsnesi er ekki góð. Reykjavíkurborg keypti upp bæ í Kollafirði á tugi milljóna og það er óánægja meðal íbúa í Kollafirði og á Kjalarnesi vegna staðsetningar skotæfingasvæðisins.

Þegar þú fullyrðir að leyfilegt sé að nota hljóðdeyfa á skotæfingasvæðum, ertu þá að vísa í reglugerðabreytingu B nr. 832 2016? Reglugerðabreytingin er stutt og skýr. Í útskýringum með henni kemur fram að:

„Stærri rifflar verða ekki hljóðlausir þó að hljóðdempari sé notaður og ekki fer á milli mála að verið sé að skjóta úr riffli. Skot úr stórum veiðiriffli getur verið um 150-160 decibel án hljóðdeyfis en farið niður í 130 dB með hljóðdeyfi. Þannig fer hávaðinn niður fyrir sársaukamörk sem eru um 140 dB og dregur þannig úr hættu á heyrnarskemmdum en skotveiðimaður þarf engu að síður að nota heyrnarhlífar til að verja sig.“

 

Rétt er að geta þess að hljóð dempast eftir því sem fjær dregur skotstað.

Í reglugerðinni er veitt undanþága frá banni til að nota hljóðdeyfi á skotvopn vegna atvinnu sinnar, svo sem við eyðingu vargs eða meindýra í þéttbýli. Undanþágan snýr að þeim sem þurfa að nota riffla í atvinnuskyni. Hvergi minnst undanþágur vegna æfinga eða íþróttaiðkunar. Það er stór munur þar á. Kjarni reglugerðabreytingarinnar er að:

 

„Óheimilt er að setja hljóðdeyfi á skotvopn nema með leyfi lögreglustjóra. Eingöngu er heimilt að veita leyfi fyrir hljóðdeyfi á stóran riffil sem notar miðkveikt skot. Þó er óheimilt að nota hljóðdeyfi ef skot hefur verið hlaðið niður þannig að hraði skots fari undir hljóðhraða. Að því leyti sem það samrýmist friðunar- og veiðilöggjöf getur lögreglustjóri, ef nauðsyn ber til, veitt undanþágu frá banni til að nota hljóðdeyfi á öll vopn til þeirra sem nota skotvopn vegna atvinnu sinnar, svo sem við eyðingu vargs eða meindýra í þéttbýli.“

 

Við Jónína erum sammála um að upplýst umræða er af hinu góða og við hvetjum alla til að kynna sér málið sem best.

Að lokum skora ég á bæjaryfirvöld að velja nýtt svæði fyrir skotæfinga, hið fyrsta. Það verður aldrei sátt um þessa staðsetningu hjá þeim sem fyrir eru á svæðinu, hvorki félagasamtökum né ábúanda sem næst er. Við vitum að ef svo ólíklega fer að þessi staðsetning verði valin þá verða kærur og skaðabótakröfur á hendur sveitarfélaginu, með tilheyrandi seinkunum og kostnaði fyrir alla.

 

Hilmar Már Arason

Höf. er formaður umsjónarnefndar Einkunna, útivistarperlu við Borgarnes.

Fleiri aðsendar greinar