Vegna greinar Ásgeirs Sæmundssonar

Gunnlaugur A Júlíusson

Þegar einstaklingar tjá sig í fjölmiðlum um mál sem skiptar skoðanir eru um eða setja á annan hátt fram á opinberum vettvangi sjónarmið sín um eitthvað viðfangsefni þá er oft rétt að gera ráð fyrir því frekar en hitt að það kalli fram einhver viðbrögð. Það er eðlilegur hlutur og á við í báðar áttir. Mér þótti því ástæða til að bregðast við greinum Ásgeirs Sæmundssonar frá því í maí m.a. að því leyti sem þær vörðuðu starfsmenn og stjórnsýslu Borgarbyggðar. Þegar er farið fram í fjölmiðli með orðaval eins og hér eru nefnd dæmi um: „Enn er verið að týna gögnum og segja mér ósatt (sett fram í maí 2018)“, „sveitarfélagið týnt níu teikningasettum á þessum tíma“, „Upplogið deiliskipulag“, „…svörin (..) full af rangfærslum“, vitnað í tveggja manna tal við nýjan byggingarfulltrúa, sem hafði verið örfáa daga í starfi, á þann hátt að það skyldi vera honum til ávirðingar, og vitnað í tölvupóst ónafngreinds sveitarstjórnarfulltrúa á þann hátt að gefið er í skyn að utanaðkomandi öfl ráði því hvaða mál séu tekin fyrir hjá sveitarfélaginu, þá þótti mér eðlilegt að bregðast við.

 

Ásgeir heldur því fram að undirritaður hafi ráðist að mannorði hans með hroka og rangfærslum. Mannorðsárás og ásökunum um hroka hafna ég alfarið enda þótt hroki sé gildishlaðið hugtak og getur sýnst sitt hverjum í því sambandi. Hvað rangfærslur varðar þá rak ég við nánari yfirlestur gagna augun í eitt atriði sem nefna má rangfærslu. Ég orðaði það svo að allir eigendur nærliggjandi landsspildna hafi gert alvarlegar athugasemdir við grenndarkynningu um veitingu byggingarleyfis. Það er alveg ekki rétt með farið því við nánari yfirlestur þeirra gagna sem ég hef undir höndum þá eru á einu undirskriftablaði gerðar „athugasemdir“ við að byggingarleyfi skuli veitt. Aðrir gera „alvarlegar athugasemdir“ við sömu gjörð. Rétt er að þetta komi fram.

 

Hvað varðar vegtengingu inn á umrædda landsspildu þá segir Ásgeir í grein sinni að ég fullyrði að ekki liggi fyrir staðfesting á vegtengingu inn á hana. Það er rangt að ég hafi fullyrt eitthvað í þeim efnum. Ég segi að það hafi verið upplýst í samtölum við aðra landeigendur á svæðinu að ekki liggi fyrir staðfesting á hvernig vegtengingu skuli háttað inn á umrædda landspildu. Það er ekki fullyrðing af minni hálfu um eitt eða neitt. Það þjónar hins vegar ekki neinum tilgangi að fara í orðaskak út af túlkun orða í þessu sambandi. Hin eina niðurstaða, sem skiptir máli þegar upp er staðið, er að fyrir liggi staðfest samkomulag viðkomandi aðila um hvernig umræddri vegtengingu verði háttað. Slíkt samkomulag yrði þá hluti af öðrum skipulagsgögnum fyrir umrætt svæði þegar þar að kemur. Ég minntist á þetta atriði vegna þess að það segir mér að skipulagsmál á þessu svæði eru flókin og ekki hægt að ávísa úrlausn þeirra alfarið á borð stjórnsýslu Borgarbyggðar.

 

Ásgeir gerir athugasemd við þá stjórnsýslu að ekki skuli hafa verið rituð fundargerð af fundi sem haldinn um fyrrgreint mál þann 11. október 2017. Fundargerðir eru ritaðar af formlegum fundum sveitarstjórnar, byggðarráðs, fundum fastanefnda og afgreiðslufundum byggingarfulltrúa svo dæmi séu tekin. Fundargerð er frágengin með undirritun viðstaddra og síðan birt. Til viðbótar slíkum fundum eru haldnir innan stjórnsýslu sveitarfélagsins fjöldi óformlegra funda um erindi af ýmsum toga sem of langt yrði upp að telja. Erindi eru kynnt og borin fram, sjónarmið eru skýrð, rætt um ágreining, reynt að leysa mál o.s.frv. o.s.frv. Fundargerðir eru ekki ritaðar á slíkum fundum en eðlilega skrá viðstaddir hjá sér minnispunkta um efni sem tekin eru fyrir og umræður á fundinum eftir því sem ástæða þykir til. Slíkir minnispunktar eru ekki opinber gögn. Umræddur fundur var, eðli máls samkvæmt, ekki ætlaður til að taka ákvarðanir heldur fyrst og fremst til að fara almennt yfir stöðu málsins og skýra út það sem nauðsynlegt þótti af beggja hálfu. Því eru aðfinnslur, um að ekki hafi verið rituð fundargerð á fundinum, byggðar á misskilningi. Það er á hinn bóginn umhugsunarefni hve nákvæmlega eigi að skrá minnispunkta á fundum sem þessum ef þess má vænta að einstakar setningar eða tilvitnanir frá óformlegum fundi, eins og hér um ræðir, séu hermdir upp á viðstadda eftirá í fjölmiðlum.

 

Þegar ég hóf störf hjá Borgarbyggð fyrir rúmum tveimur árum þá varð ég fljótt var við að erindi sem bárust til sveitarfélagsins voru á stundum þannig orðuð að umhugsunarefni var hvort ætti að leggja þau formlega fram á fundum og birta þau þannig sem opinber gögn er væru aðgengileg öllum um ókomna framtíð. Erindi þessi beindust í sumum tilfellum að tilteknum starfsmönnum undir nafni. Aflað var upplýsinga hjá öðrum sveitarfélögum hvernig staðið væri að málum við áþekkar aðstæður. Niðurstaðan varð að byggðarráð samþykkti reglur um birtingu gagna með fundargerðum Borgarbyggðar á fundi sínum þann 23. febrúar 2017. Þær voru síðan staðfestar á næsta fundi sveitarstjórnar. Reglurnar eru aðgengilegar á vef Borgarbyggðar. Þær eru m.a. settar til að vernda starfsmenn sveitarfélagsins gagnvart því að send séu erindi til sveitarfélagsins þar sem fjallað er um einstaka tiltekna starfsmenn, jafnvel undir nafni, og gerð krafa um að viðkomandi erindi sé aðgengilegt öllum sem fylgiskjöl með fundargerðum. Í þessum reglum er því margt fleira undir en einungis nafnbirting starfsmanna. Mér finnst það dálítið langsótt að túlka þessar reglur þannig að þær eigi einnig að ná yfir tölvupósta sem ganga milli manna í umræðu um eitthvað mál. Þær hafa vitaskuld hvorki verið hugsaðar eða framkvæmdar í þá veru.

 

Ásgeir telur eðlilegt að hann sé beðinn afsökunar á aðdróttunum sem hann telur að sé að finna í viðbrögðum undirritaðs við fyrrgreindum greinum hans. Ég átta mig ekki alveg á því á hverju skuli beðist afsökunar. Ef einhver hefði hinsvegar átt inni afsökunarbeiðni af minni hálfu, ef engin viðbrögð hefðu orðið af hálfu undirritaðs við fyrrgreindum greinum, þá hefði það miklu frekar verið hlutaðeigandi starfsfólk Borgarbyggðar.

 

Ég hef enga þörf fyrir að eiga síðasta orðið í orðaskiptum sem þessum og mun því ekki bregðast frekar við hvað fyrrgreind greinaskrif varðar. Á hinn bóginn fylgist ég vitaskuld áfram með þeirri umræðu sem fer fram á opinberum vettvangi um málefni sem tengjast sveitarfélaginu og starfsfólki þess.

 

Virðingarfyllst,

Gunnlaugur A Júlíusson, sveitarstjóri

Fleiri aðsendar greinar