Vegna fyrirspurna um búsetu að Þjóðbraut 1 á Akranesi

Aðalsteinn Sigurgeirsson

Þar sem ég er alveg að verða 103 ára, vantar bara 30 ár uppá, vil ég búa við þægindi og öryggi eins og þann lúxus sem er hér á Þjóðbrautinni. Það eru sextán verslanir, bankar og önnur þjónustufyrirtæki í fimm mínútna göngufæri frá húsinu. Ef um stærri innkaup er að ræða getur maður ekið niður í bílakjallara að lyftunni og sett vörurnar í innkaupakerru og trillað því beint upp í íbúð. Í bílakjallaranum er þvotta- og bónaðstaða fyrir bíla allra íbúa hússins. Þvottahús er á hverri hæð með tveimur þvottavélum og þurrkurum sem húsið á og sér um viðhald á, góð aðstaða til að brjóta saman tauið. Það er líka gert ráð fyrir því að hver og einn geti verið með sína vél í sameiginlegu þvottahúsi. Það er mikill kostur að vera laus við þessi tæki úr íbúðinni. Þrif á allri sameign sjá verktakar um nema í þvottahúsum. Það eru sex íbúðir á hverri hæð. Hljóðeinangrun er mjög góð í húsinu og heyrist aldrei neitt á milli íbúða eða þegar gengið er um, þetta er eins og í einbýli. Íbúðirnar og húsið allt er hjólastóla-vænt sem kallað er. Í desember síðastliðnum var gerð könnun hjá búsetu- og leigufélögum á suðvesturhorni landsins hver kostnaðurinn væri á mánuði og kom Þjóðbrautin best út í þeim samanburði. En sú sölutregða sem hefur verið hér er fyrst og fremst kerfis- og stjórnsýslulegs eðlis sem búið er að taka á. Frá því í nóvember hafa selst fjórar íbúðir og góðar horfur eru með sölu á búseturétti á þeim sem falar verða á næstunni.

Búmenn hsf. eiga húsið og á því hvílir lán hjá Íbúðalánsjóði, búseturétthafar borga leigu sem er í raun afborgun af því mánaðarlega. Á Þjóðbrautinni var búseturéttargjaldið 10% af byggingarkostnaði og eftirstöðvar til 50 ára. Búseturétthafi eignast aldrei íbúðina, aðeins í öruggri leigu svo lengi sem hann greiðir.

Í búsetugjaldi hvers mánaðar er; afborgun af láni, fasteignagjald, vatns- og holræsagjald, viðhaldssjóður, hústrygging, hiti, þjónustugjald og rekstrasjóður húsfélagsins Þjóðbraut 1. Árið 2016 var búsetugjaldið (húsaleigan) fyrir 102 fermetra íbúð án bílastæðis í kjallara 124.395 kr. á mánuði miðað við fullar vaxtabætur, það gerist varla betra.

 

Aðalsteinn Sigurgeirsson

Höf. er stjórnarmaður Búmanna hsf. Akralind 4 Kópavogi.