
Vegna fréttar á heimasíðu Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi
Gísli Guðmundsson
Samkvæmt frétt á heimasíðu Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi héldu þau fund með forsætisráðherra um neyðarástand í vegamálum á Vesturlandi þann 21. febrúar sl. og ber að fagna þessu frumkvæði sveitarfélaganna. Hins vegar sakna ég þess að hvergi er minnst á hið lélega fjarskiptasamband sem er á veginum um Vatnaleið og hefur verið i mörg ár.
Árið 2010 stýrði ég, sem varðstjóri í lögreglunni á Snæfellsnesi, aðgerðum á slysavettvangi umferðarslyss á Vatnaleið, en á þeim vettvangi var símasambandslaust sem kom sér afar illa.
Ég minnist þess þegar Sturla Böðvarsson var samgöngumálaráðherra, og vann kraftaverk í samgöngumálum á Vesturlandi, að hann talaði um fjarskipti sem samgöngumál. Fyrir nokkrum dögum átti ég leið um Vatnaleið og fékk símtal á leið minni og þegar ég ók um þann stað sem slysið varð um árið rofnaði símasambandið skyndilega. Þannig að nú 15 árum síðar er enn símasambandsrof á Vatnaleið sem er óásættanlegt. Ég vil því hvetja forsvarsmenn sveitarfélaganna á Snæfellsnesi að koma þessum staðreyndum á framfærri við ráðherrann sem er nú við völd.
Með vinsemd og virðingu,
Gísli Guðmundsson, fyrrverandi lögregluvarðstjóri á Snæfellsnesi