Vegna álits um stjórnsýslu í Borgarbyggð

Steinar Berg

Þegar sótt er um rekstarleyfi þurfa að liggja fyrir umsagnir ábyrgra opinberra aðila. Jákvæð eða neikvæð. Ekki er hægt að víkja sér undan að veita umsögn. Þetta kemur skýrt fram í áliti samgöngu- og sveitastjórnarráðuneysins um stjórnsýslu í Borgarbyggð. Niðurstaða ráðuneytisins vegna samskipta okkar í Fossatúni við Borgarbyggð er samt ekki í samræmi við eigin skilgreiningu, þó hún sé ávítur. Eðlileg niðurstaða væri beinskeyttari og afdrifaríkari fyrir Borgarbyggð.

Það var undarleg tilfinning og sár, að fá símtal að morgni dags fyrir tveimur árum um að lögreglan væri á leiðinni til að loka starfseminni. Við með öll gistirými því sem næst fullbókuð og rétt að komast yfir að hreinsa og framreiða mat fyrir gestina. Að þurfa að fara að kljást við mannlegar ákvarðanir og andstyggilegheit sem höfðu það að markmiði að klekkja á okkur. Af hverju, vissum við ekki. Höfðum alltaf sýnt fyllstu kurteisi í öllum samskiptum og virt ábendingar og engir annmarkar á rekstrinum eða umhverfinu.

Ástæðan; byggingarfulltrúi Borgarbyggðar hafði neitað að veita Fossatúni umsögn vegna rekstarleyfis, þrátt fyrir fyrirliggjandi skriflega staðfestingu um að hann myndi gefa jákvæða umsögn. Símtöl til skrifstofu og ráðafólks Borgarbyggðar reyndist árangurslaust, enginn vilji bara „humm“. Við blasti að gera ráðstafanir og flytja gestina vegna yfirvofandi lokunar. Þessu fylgdi hugarangur og vesen, sem setti alla starfsemina úr skorðum.

Loks ákvarðaði sýslumaður á Vesturlandi að rekstarleyfi skyldi gefið út þrátt fyrir að umsögn vantaði frá byggingarfulltrúa Borgarbyggðar. Þakka skal það sem vel er gert og rétt. Lögregluheimsókn, ósanngjarnri aðför og umtalsverðu tjóni var afstýrt.

Það var svo skrýtið að fá bréf frá lögreglunni skömmu síðar og staðfestingu þess efnis að við Fossatúnshjón vorum sýkn orðin af broti sem við höfðum aldrei framið.

Það er of yfirgripsmikið að fjalla um efnislega þætti en fyrir þá sem vilja þá er greinagóð samantekt á:

Eiginlega drepfyndin lesning. Raunveruleikinn dreginn um leið fáránleikans og vanhæfni og illvilji ríðandi við einteyming. Sorglegt samt að lenda í valdníðslu þeirra sem ráðnir eru til að liðka fyrir.

 

Steinar Berg Ísleifsson

Höf. er ferðaþjónustubóndi í Fossatúni

Fleiri aðsendar greinar