Veðjum á uppbygginguna

Lilja Björg Ágústsdóttir

Mikil eftirspurn hefur verið eftir lóðum í Borgarbyggð síðasta eina og hálfa árið og nú er staðan þannig að fáar lóðir eru lausar til úthlutunar eins og sakir standa. Í byrjun árs 2019 var farið í markvissar aðgerðir af hálfu sveitarstjórnar til þessa að stuðla að uppbyggingu húsnæðis, bæði fyrir einstaklinga og atvinnurekstur. Fyrst var ákveðið að lækka álagningarhlutafall fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði niður í 1,39% sem er með því lægsta sem gerist á landinu í þeim flokki og lækka álagningarhlutafall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði tvö ár í röð. Í kjölfarið var tekin ákvörðun um að veita 50% afslátt af gatnagerðargjöldum og 100% afslátt af lóðargjöldum bæði af íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Þessar ákvarðanir gerðu það að verkum að töluverðum fjölda íbúðarhúsalóða var úthlutað seinnipart ársins 2019 og árið 2020.

Ekki virtist vera eins mikill áhugi fyrir atvinnulóðum á þeim tíma þrátt fyrir framangreindar aðgerðir meðal annars þar sem eitthvað af þeim atvinnulóðum sem voru í boði reyndust vera of stórar fyrir þá sem höfðu hug á því að byggja. Því var ákveðið að minnka hluta atvinnuhúsalóðanna í Sólbakkanum og leitast þannig við að koma betur til móts við þennan hóp. Þá virtist orðrómur á kreiki þess efnis að sumar þeirra lóða væru óheppilegar sem byggingarsvæði vegna þess að langt væri niður á fast og því væri byggingarkostnaður hár. Núna í upphafi árs 2021 var tekin prufuhola á atvinnulóð í Sólbakkanum til að kanna nánar hversu langt er niður á fast og kom í ljós að það voru aðeins um tveir metrar sem er mjög ásættanlegt. Því ákvað byggðarráð Borgarbyggðar fyrir skemmstu að láta taka fleiri prufuholur í Sólbakkanum og Vallarásnum til að sannreyna nákvæmlega hversu langt er niður á fast í þeim lóðum sem eru í boði. Af framangreindu má ráða að þarna er til staðar tækifæri til að fá hentugar lóðir á góðum kjörum fyrir þá sem hafa hug á að byggja sér atvinnuhúsnæði og tekið verður vel á móti öllum fyrirspurnum varðandi slíkar beiðnir.

Eins hefur það haft áhrif að til staðar eru tvö samstarfsverkefni á milli sveitarfélagsins og annarra aðila með það að markmiði að fjölga húsnæðisframboði í sveitarfélaginu. Fyrst er um að ræða samstarfsverkefni við Hoffell um uppbyggingu óhagnaðardrifins leiguhúsnæðis við Brákarsund. Þar verða byggðar 8 íbúðir og hefur sveitarfélagið fest kaup á einni þeirra. Hitt verkefnið er stórt samstarfsverkefni á milli sveitarfélagsins og þriggja stórra verktaka í sveitarfélaginu þ.e. Steypustöðvarinnar ehf., Eiríks Ingólfssonar ehf. og Borgarverks ehf. Ætla þessir þrír aðilar að byggja upp nýjasta hluta hverfisins í Bjargslandinu í Borgarnesi með byggingu fjölbýlishúsa, raðhúsa, parhúsa og einbýlishúsa auk þess að sjá um gatnagerð og jöfnun lóða. Mögulegt verður að fá úthlutað lóðum tilbúnum til bygginga og festa kaup á húsum á umræddu svæði. Rammasamningur um verkefnið er á lokametrum og reiknað er með að skrifa formlega undir samning í þessari viku. Framleiðsla á fyrstu húsunum er þegar hafin og vonandi verður hægt að sjá þau rísa í sumar eða haust. Er þetta verkefni hvoru tveggja til þess fallið að stuðla að aukinni atvinnuuppbyggingu og til þess að mæta mikill eftirspurn eftir húsnæði í sveitarfélaginu.

Þá er einnig ljóst að atvinnurekendur eru að taka við sér en nú eftir áramótin hefur verið mun meiri áhugi  á atvinnuhúsalóðum og hefur verið ákveðið bregðast þegar í stað við því með því að koma aftur á 50% afslætti af gatnagerðargjöldum og 100% afslætti af lóðargjöldum, sem munu gilda út þetta ár og afturvirkt að áramótum. Viljum við með þessu sýna að við höfum trú á uppbyggingunni og að það sé vilji til þess að koma til móts við þá aðila sem ákveða að byggja upp atvinnurekstur sinn í sveitarfélaginu.

Við stöndum þannig frammi fyrir því „lúxus“ vandamáli að framboð lóða fer minnkandi en þegar er hafin vinna til að bæta þar úr. Nú er unnið að yfirferð á öllum lóðum í sveitarfélaginu og til að sjá hvort mögulegt sé að bæta við lóðum bæði í dreifbýlinu og í Borgarnesi. Þá hefur ekki verið eins mikið byggt á þeim lóðum sem hefur verið úthlutað eins og vonir stóðu til og því er einnig hafin vinna við að fara yfir allar úthlutaðar lóðir og heyra í þeim lóðarhöfum. Eins er vinna við endurskoðum aðalskipulagsins að komast á fullt skrið þar sem tekin verður afstaða til þéttingu byggðar í Borgarnesi og möguleg ný byggingarsvæði.

Borgarbyggð er samfélag í sókn og það er mikil einföldun að horfa bara á tölur varðandi skráðan íbúafjölda í sveitarfélaginu á hverju ári. Töluvert rót er á milli svæða og hefur orðið myndarleg fjölgun íbúa á ákveðnum svæðum eins og t.d. í Borgarnesi. Þrátt fyrir að fækkað hafi lítillega í sveitarfélaginu á síðasta ári þá er töluverð breyting á íbúasamsetningunni og fer börnum og yngri íbúum fjölgandi. Þetta má m.a. sjá af því að börnum bæði á leik- og grunnskólastigi fer fjölgandi á ákveðnum svæðum í sveitarfélaginu og m.a eru biðlistar inn á leiskólanna í Borgarnesi og nýr leikskóli á Hnoðrabóli er fullsetinn. Ljóst er að næstu verkefni sveitarfélagsins er að halda áfram uppbyggingu mikilvægra innviða eins og leik- og grunnskólahúsnæðis og nýs íþróttahúss til að mæta fjölgun íbúa á komandi árum.

 

Lilja Björg Ágústsdóttir.

Höf. er oddviti Sjálfstæðisflokks og forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar.