Varnarlínur þurfa sitt viðhald

Þórhildur Þorsteinsdóttir

Að horfa á eftir bústofni sínum skotnum ofan í gám er lífsreynsla sem enginn bóndi vill lenda í, aldrei, allra síst að vori til og stutt er í sauðburð, tíma sem flestir ef ekki allir sauðfjárbændur hlakka til þó hann geti oft verið erfiður. En niðurskurður sauðfjárstofnsins á Bergsstöðum í Miðfirði er staðreynd sökum riðusmits. Eitt afurðahæsta bú landsins, Ari og Ella eru með þeim metnaðarfyllstu bændum sem ég þekki. Það eru forréttindi að hafa svona bændur í sínu liði. Þau vinir mínir bogna við þessa lífsreynslu, ekki að undra, en þau brotna ekki og koma enn sterkari til baka það veit ég.

En það eru ekki bara þau; það eru nágrannar, sveitungar og sauðfjárbændur í Miðfjarðarhólfi sem þetta hefur áhrif á. Innan þess hólfs eru afurðarmikil bú á landsvísu, bú þar sem sumir bestu hrútar sæðingarstöðvanna hafa komið. Hrútar þar sem við hin höfum notað til að bæta okkar stofn. Miðfjarðarhólf var skilgreint sem ósýkt svæði telst nú sýkt svæði næstu 20 árin. Það er högg fyrir sauðfjárræktina í heild sinni í landinu.

Þeir sem eru einhverju viti bornir vita að Miðfjarðarhólf liggur að Vesturlandshólfi og á milli þessara hólfa er varnargirðing. Á hverju ári kemst fé á milli, fé úr Borgarfirði fer yfir og öfugt. Meira að segja hafa Brekkubændur átt fé í Miðfirðinum og í Brekkurétt hafa komið kindur úr Miðfjarðarhólfi og má segja að árlega komi fé í Þverárrétt úr þessu hólfi. Varnarlína á að þjóna tilgangi sínum en til þess þarf fjármagn og vilja. Nú er riða komin upp í „næsta húsi“ og því ríður á að viðhaldi girðingarinnar á milli þessara hólfa verði sinnt sem skyldi og bætt í ef eitthvað er.

Ég er ekki með þessum hugleiðingum að ala á einhverjum ótta eða hræðsluárróðri heldur að benda á þá staðreynd að ósýkt hólf með öllu er ekki endilega óhult um aldur og ævi eins og þetta dæmi sannar. Við megum aldrei sofna á verðinum eða verða kærulaus. Nú þurfum við Borgfirðingar að standa saman, sem er nú kannski ekki okkar sterkasti leikur, en getum það nú alveg samt ef á reynir og þurfum að þrýsta á að varnarlínum verði haldið sómasamlega við. Þið sem eru í stjórnum og nefndum, nú þurfið þið að taka upp símtólið.

Þórhildur Þorsteinsdóttir,
Brekku