
Varmaland er framtíðarsvæði grunn- og leikskóla – í hjarta Borgarfjarðar
Ásgeir Yngvi Ásgeirsson
Þann 2. mars síðastliðinn var haldinn fundur á Varmalandi um framtíðarsýn skólamála á svæðinu. Fundurinn var hugmynda- og samræðufundur og til hans mættu fulltrúar úr byggðarráði, sviðsstjóri fjölskyldusviðs, sveitarstjóri og skólastjórnendur ásamt foreldrum barna á svæðinu. Ingvar Sigurgeirsson sem leitt hefur vinnu við skólastefnu Borgarbyggðar mætti einnig og hélt stuttan formála í upphafi fundar og svaraði einnig spurningum foreldra. Mæting á fundinn var góð og umræður góðar.
Það er skemmst frá því að segja að eftir stendur að foreldrar á svæðinu eru einhuga um verkefnið sem framundan er. Þrátt fyrir að nemendum á Varmalandi hafi fækkað á undanförnum árum blasir við að kynslóðaskipti eru að eiga sér stað á svæðinu. Mikið er af ungum börnum á skólasvæði Varmalands og þörfin fyrir leikskóla mikil. Húsnæði grunnskólans á Varmalandi mun vel rúma leikskóla innan sinna veggja svo ekki þarf að byggja nýtt hús. Hluti skólans hefur nú þegar verið endurnýjaður og því í góðu ástandi. Leikskóli myndi efla skólasvæði Varmalands til muna og um leið styrkja grunnskólann. Leikskóli í Varmalandi myndi nýta mötuneyti og aðra aðstöðu, svo sem leikvöll, svo ekki þarf að leggja í mikinn kostnað við opnun leikskóla á Varmalandi á ný.
Varmaland er einstakur staður. Náttúran umlykur skólasvæðið og veðursæld er með eindæmum mikil. Það er skynsamlegt að hafa grunn- og leikskóla í sömu byggingu. Bæði af rekstrarlegum og faglegum ástæðum. Samfella í námi barnanna verður mun meiri með þessu fyrirkomulagi.
Þess ber að geta að hugmyndin um að færa leikskóla frá Bifröst í Varmaland er ein af þeim hugmyndum sem velt er upp í vinnu fræðslunefndar Borgarbyggðar. Nú er bara að fylgja málinu eftir og sigla því í höfn. Ég skora á framboð til sveitarstjórnarkosninga í Borgarbyggð að mynda sér skýra stefnu um málið fyrir kosningar. Kosningar vinnast ekki með ærandi þögn.
Ásgeir Yngvi Ásgeirsson