Varðandi grein í síðasta tölublaði Skessuhorns

Jóhanna F Jóhannesdóttir

Eftir lestur viðtals við Jósep Blöndal yfirlækni á HVE í Stykkishólmi sem birtist í Skessuhorni í síðustu viku eru nokkur atriði sem undirrituð telur ástæðu til að gera athugasemdir við og upplýsa betur um.

Það er öllum ríkisstarfsmönnum ljóst að þegar 70 ára aldri er náð ber þeim að láta af störfum og þó að einhverjir hafi aðrar hugmyndir um starfslok og vilji vinna áfram þá er mikilvægt að gæta jafnræðis þannig að það sama gangi yfir alla. Það er óþarfi að gera stjórnendur HVE tortryggilega og láta líta þannig út að í þessu ákveðna tilviki vilji stjórnin starfsmanninn „burtu sem allra, allra fyrst“.

Þegar starfsmaður lætur af störfum við 70 ára aldur og hefur töku lífeyris er heimilt að ráða viðkomandi tímabundið í tímavinnu. Slíkt er aðeins gert í undantekningartilvikum og þá til skamms tíma. Breyting á starfsskyldum við þessi tímamót er eðlileg og í sumum tilvikum óhjákvæmileg t.d. geta starfsmenn ekki verið í stjórnunarstörfum eftir sjötugt. Í ljósi þess að enn hefur ekki tekist að fá nýjan lækni til að taka við þá stendur fráfarandi yfirlækni til boða tímavinna út árið 2017.

Mér finnst vegið að stjórnendum HVE í þessari grein og dapurlegt að sjá í lok hennar að gefið er í skyn að stjórnendum sé ekki treystandi fyrir framtíð HVE í Stykkishólmi.  Þá er einnig gefið í skyn að stjórnendum sé ekki treystandi til að ráða lækni í stað þess sem nú er kominn á lífeyri, en í greininni segir orðrétt: „og það kemur ekki til greina að láta HVE ráða bara einhverja til að taka við rekstrinum! Þess vegna er ég búinn að auglýsa stöðu læknis meðal annars erlendis“. Í þessu sambandi er rétt að taka fram að það er rúmt ár síðan byrjað var að auglýsa eftir lækni til að taka við starfi yfirlæknis á háls- og bakdeildinni. Fyrsta auglýsingin  var birt í júníbyrjun 2016 og var auglýst samfleytt í þrjá mánuði. Því miður barst engin umsókn og auglýsa þurfti því aftur í október. Umsóknarfrestur rann út 31. desember 2016 án þess að umsókn bærist. Í janúar 2017 var vonast til að úr rættist eftir að fráfarandi yfirlæknir sendi kynningarbréf um starfsemi háls- og bakdeildarinnar á valinn hóp lækna sem starfa á Íslandi og erlendis en þegar ljóst var í lok febrúar að enginn þeirra væri líklegur til að ráða sig varð að samkomulagi að fráfarandi yfirlæknir myndi auglýsa eftir lækni erlendis en því miður birtist sú auglýsing ekki fyrr en í lok maí. Það eru vissulega vonbrigði að enginn læknir skuli enn sem komið er hafa lýst áhuga á að taka við keflinu af fráfarandi yfirlækni en stjórn HVE vonar sannarlega að það muni takast á næstu vikum eða mánuðum.

Ég hafna því að stjórnendur HVE hafi sl. sjö ár fyrst og fremst hugsað um „spítalann á Akranesi en að hinar starfsstöðvarnar hafi mætt afgangi, þar á meðal sjúkrahúsið í Stykkishólmi, og jafnvel verið reynt að draga sem mest úr starfseminni þar“.  Hvergi í stofnunni allri hefur niðurskurður verið meiri en einmitt á Akranesi þar sem sjúkrasvið stofnunarinnar er umfangsmest. Ef einhver kann að hafa gleymt því að það varð hrun á Íslandi rétt fyrir stofnun HVE þá er rétt að minna á það hér. Stofnunin þurfti að glíma við mikinn niðurskurð og fækkun starfsmanna á fyrstu árunum eftir sameiningu og er enn að glíma við fjárskort eins og aðrar heilbrigðisstofnanir. Áhersla stjórnvalda undanfarin ár hefur verið að efla þjónustu í heilsugæslu en á móti hafa fjárheimildir til sjúkrasviða heilbrigðisstofnana verið skertar. Þannig hefur skerðing til sjúkrasviðs HVE numið um 25% frá hruni og stöðugt þarf að leita leiða til hagræðingar í rekstri.

Háls- og bakdeildin er ekki eina deildin á HVE þar sem óánægju gætir með að ekki hefur fengist aukið fjármagn í reksturinn til að bæta við mannafla svo unnt sé að efla starfsemina. Þrátt fyrir að ekki hafi verið hægt að efla háls- og bakdeildina síðustu árin þá liggja fyrir áætlanir að næsta áfanga framkvæmda HVE í Stykkishólmi sem felast í því að stórbæta alla endurhæfingaraðstöðu, fyrir inniliggjandi sjúklinga, göngudeildarsjúklinga og sjúkraþjálfara með því að koma aðstöðunni fyrir á einni hæð í stað tveggja eins og er í dag. Miklu skiptir að vinnuaðstaðan fyrir sjúkraþjálfara sé góð því eins og réttilega kemur fram í greininni þá eru sjúkraþjálfararnir hryggjarstykkið í starfsemi háls- og bakdeildar. Teikningar liggja fyrir og farið verður af stað í þessar breytingar um leið og fjármagn er tryggt. Breytingarnar eru mikilvægur áfangi sem beðið er eftir og enginn þarf að efast um að þjónustan verði tryggð og því til stuðnings vitna ég í starfsáætlun HVE sem gefin var út fyrir u.þ.b. ári síðan en þar segir: „Í Stykkishólmi eru endurhæfingarrými og þar verði áfram rekin öflug sérhæfð endurhæfingardeild sem veitir meðferð við háls- og bakverkjum og stendur öllum landsmönnum til boða“.

Stjórn HVE bíður enn niðurstöðu samráðshóps á vegum Embættis landlæknis sem skipaður var fyrir tæpum fimm árum, í framhaldi af 20 ára afmæli háls- og bakdeildarinnar árið 2012 þar sem fráfarandi yfirlæknir var skipaður formaður.  Samráðshópunum sem átti að skila niðurstöðum árið 2013 var falið það mikilvæga verkefni að gera tillögur um samhæfingu og ráðgjöf þeirra fagaðila sem taka þátt í greiningu og meðferð langvinnra verkja í hálsi og baki á Íslandi.  Ég bind vonir við að niðurstöður samráðshópsins líti ljós fyrir 25 ára afmæli deildarinnar í nóvember 2017 og geti, auk annars, styrkt enn frekar þá öflugu og góðu starfsemi sem er á háls- og bakdeild HVE.

 

Jóhanna F. Jóhannesdóttir, forstjóri HVE

„Í Stykkishólmi eru endurhæfingarrými og þar verði áfram rekin öflug sérhæfð endurhæfingardeild sem veitir meðferð við háls- og bakverkjum og stendur öllum landsmönnum til boða“. Ljósm. sá.

Fleiri aðsendar greinar