Varasamur Vesturlandsvegur

Elsa Lára Arnardóttir

Flest, ef ekki öll viljum við bættar samgöngur og víða er mikilla úrbóta þörf, hvort sem það er á hringveginum eða annars staðar. Í Norðvesturkjördæmi hefur mikið ákall verið um bættar vegasamgöngur á Vestfjörðum enda löngu kominn tími til. Flestir ef ekki allir þingmenn kjördæmisins hafa staðið saman í þeirri baráttu að bregðast við því ákalli. Nú loksins glittir í að verulegar samgönguumbætur á Vestfjörðum verði að veruleika. Hins vegar er mikið ákall um bættar samgöngur af landinu öllu og get ég vel skilið það.

Vesturlandsvegur hefur þó ekki mikið verið í umræðunni en það er þó nauðsynlegt að tryggja að mikilvægar vegaumbætur um veginn, fari af stað ekki síðar en 2018. Gert er ráð fyrir þeim framkvæmdum í samgönguáætlun sem innanríkisráðherra lagði fram á Alþingi og samþykkt var fyrir nokkrum vikum.  Þar er gert ráð fyrir því að hefja undirbúning við 2 + 1 veg á Kjalarnesi.

Nýlegar tölur sýna að dag hvern fara um 6000 bílar um Kjalarnesið. Stór hluti þeirra sem fara um veginn er fólk sem fer daglega til og frá vinnu og býr í sveitarfélögunum norðan meginn ganganna. Margir þessara aðila hafa verulegar áhyggjur af stöðunni og umferðaröryggi þeirra sem fara þennan veg. Nú er það svo að það eru komnar mjög djúpar rásir í veginn og í miklu vatnsveðri, eins og hefur verið núna í haust og vetur þá eru þessar rásir mjög varasamar. Þeir sem fara um veginn í þessu veðri verða helst að keyra úti í vegakanti til að hafa almennilega stjórn á bílnum. Einnig er það svo að á of stórum köflum vegarins vantar merkingar og jafnframt er leiðin mjög dimm. Skyggnið getur verið erfitt og það liggur oft við slysum í þeim umferðarþunga sem er þarna dag hvern.

Mikilvægt er að bregðast við þessu hið fyrsta og minni ég á þingmál þessa efnis sem ég lagði fram á síðasta þingi. Það þingmál verður lagt fram nokkuð endurbætt á næstu dögum. Þingmálið er hér: http://www.althingi.is/altext/145/s/0355.html

Þessi grein er byggð á ræðu minni í Störfum þingsins þann 13. desember.

 

Elsa Lára Arnardóttir

Höf. er þingmaður Framsóknarflokksins í NV kjördæmi.

 

Fleiri aðsendar greinar