Vanmetnar fyrirmyndir?

Ásta Kristín Guðmundsdóttir

Mér eru minnisstæð slagorðin „Hreint land – fagurt land“ sem ómuðu í tilkynningum í útvarpinu á uppvaxtar árum mínum, voru límd á auglýsingaskilti og skrifuð á áberandi staði dagblaðanna.  Þessi orð eru eins og greipt í vitundina, meitluð í stein.  Í huga mínum og margra annarra var þessi upphrópun einskonar boðorð og eftir þeim skyldi farið.  Þetta var umhverfisvitundarátak með það að markmiði að hvetja fólk til að ganga snyrtilega um landið og skilja ekki eftir rusl á víðavangi.

Tilgangurinn var í raun einfaldur; fólk skyldi sýna ábyrga umgengni í náttúrunni.  Því miður hefur hressilega fjarað undan áhrifum þessa átaks enda einhverjir áratugir síðan blásið var í lúðrana. Það hefur varla farið framhjá nokkrum manni umræðan undanfarin misseri um plastmengun í hafi, fjúkandi rusl og óábyrga hegðun mannfólksins gagnvart lífríkinu, náttúrunni og komandi kynslóðum.  Svo mjög hefur almenningur tekið við sér að sprottið hafa upp hópar sem láta sig umgengni um náttúruna varða. Víða er lyft grettistaki í að hreinsa rusl og snyrta lóðir, opin svæði, strandlengjur og iðnaðarsvæði.  Það hefur myndast nýtt umhverfisvitundarátak, s.k. „plokk” þar sem fólk fer út og tínir rusl.  Fólki þyrstir í að gera gagn og finnur að það getur með einföldum og ódýrum hætti lagt umhverfinu lið samhliða útivist og hreyfingu.  Er það vel og megi „plokk” bylgjan breiðast út meðan hennar er þörf.

Hin hliðin á teningnum er öllu grátlegri; sú staðreynd að umgengni okkar sem þjóðar skuli vera með þeim hætti að landsátak þurfi til að hreinsa upp ruslið eftir okkur!  Kem ég því aftur að þeirri ábyrgð sem hver og einn hefur gagnvart sínu rusli, sínum úrgangi.  Þetta er þáttur sem því miður allt of margir tengja engan veginn við.  Það er ábyrgðin sem hver og einn neytandi ætti að axla með neysluvenjum sínum. Keyptar eru vörur og þjónusta sem aldrei fyrr.  Neysla og framkvæmdagleði landans er í sögulegu hámarki; 2007 hvað?  En neyslunni fylgir ekki bara stundargleði heldur einnig skyldur.  Öll neysla skilur eftir sig spor, mismikil og misafturkræfanleg. Ég lít svo á að þegar neytandi velur að kaupa þér ákveðna vöru samþykkir sá hinn sami framleiðsluferli vörunnar, meðvitað eða ómeðvitað, en jafnframt að axla ábyrgð á því sem eftir situr þegar veislan er búin, þ.e. umbúðunum/úrganginum.  Svo einfalt er það!  Það sama á við um fyrirtækjarekstur og tel ég bæði rétt og sjálfsagt að sá aðili sem rekur starfsemi er verður þess valdandi að rusl fýkur frá henni, t.a.m. frá verslunum, bensínstöðvum, byggingasvæðum eða verksmiðjum, leggi metnað sinn í að hreinsa reglulega í kringum sig.  Hér var ekki ætlunin að fjalla einungis um fjúkandi rusl heldur einnig þau ómældu verðmæti sem sóað er með allt of lítilli áherslu á endurnýtingu og flokkun. Þar gæti landinn, almenningur, fyrirtæki og sveitarfélögin gert svo miklu betur. Mörg sveitarfélög á Vesturlandi hafa fyrir löngu stigið metnaðarfull skref í úrgangsmálum en önnur heldur minni.  Horfi vonandi hver í sinn barm í því samhengi.

Vissulega er ruslatínsla almennings verðugt verkefni, þakkarvert og sýnir að fjöldi fólks hefur sterka umhverfisvitund. Ég vil þó minna á að ábyrgðin á stefnumótun í úrgangsmálum liggur hjá sveitarfélögunum. Aldrei skyldi vanmeta þann drifkraft sem liggur í fyrirmyndunum og í mínum huga eiga ákvarðanir sveitarfélaganna í úrgangsmálum að vera til fyrirmyndar.  Því skora ég á þau framboð sem hyggjast bítast um sæti í sveitarstjórnum á Vesturlandi að kappkosta hvernig markmiðum í úrgangsmálum verði náð á komandi kjörtímabili.

 

Ásta Kristín Guðmundsdóttir

Borgarnesi