Vangaveltur Grundfirðings

Loftur Árni Björgvinsson

Ég bý í Grundarfirði og uni þar vel. Ég og maki minn fluttum hingað ásamt dóttur okkar árið 2013. Við ætluðum að vera hér í eitt skólaár þar sem ég hafði fengið tímabundna ráðningu sem enskukennari við Fjölbrautaskóla Snæfellinga og 9 árum síðar þá erum við hér enn.

Þar sem við héldum að við yrðum einungis tímabundið hér í Grundarfirði þá vorum við ekkert sérlega að velta fyrir okkur kostum og göllum þess að búa hér fremur en annars staðar. Okkur bauðst að vera hér áfram og nú sjáum við fram á að dóttir okkar ljúki ekki bara grunnskólanum hér heldur líklegast framhaldsskólanum líka.

Mér finnst magnað að hér geti börn stundað samfellt nám frá leikskóla og þangað til háskóli tekur við. Við erum með framsækinn fjölbrautaskóla hér í bænum. Námið er verkefnamiðað leiðsagnarnám þar sem nemendur geta unnið samkvæmt sveigjanlegu skipulagi og námsumhverfið gerir nemendur ábyrgari í eigin námi. Í FSN er upplýsingatækni nýtt á fjölbreyttan hátt og stafrænt nám er í fyrirrúmi.

Nemendur grunnskólans eru almennt vel undirbúnir þegar þeir hefja nám hjá mér í framhaldsskólanum og hvað okkur varðar þá líður dóttur okkar vel hér í grunnskólanum. Hennar þörfum er mætt og allt bara ansi flott og gott – og mér skilst að heilt yfir eigi það sama við um flesta aðra. Stelpan nemur allskyns við skólann og snillismiðja, þar sem nemendur skapa og smíða úr allskyns hrávið, þykir henni hvað skemmtilegust ásamt upplýsingatækni – en bæði sköpun og upplýsingatæknimennt er mjög mikilvægur undirbúningur fyrir þátttöku í stafrænni framtíð.

Í grunnskólanum höfum við kraftmikla og góða kennara sem sinna starfi sínu faglega og af heilindum þrátt fyrir að oft þurfi sökum fjármagns að sníða stakk eftir vexti. Mig langar að sjá meira fjármagni veitt til grunnskólans okkar. Því meira fjármagn sem sett er í menntun barna því ríkara verður samfélagið sökum auðgi þeirra sem byggja samfélag framtíðarinnar – og eru flestir ekki að vona að börnin í dag verði þau sem byggja Grundarfjörð framtíðarinnar.

Mig langar að sjá stöðugildum fjölgað til þess að minnka álag á starfsfólk. Mig langar að skólinn hafi fjármagn og færi á að uppfæra tölvu- og tækjabúnað. Mig langar að sjá meira fjármagni veitt í snillismiðjur, í tónlistarskólann, í upplýsingatækni, í forritunarkennslu og nýsköpunarmennt. Mig langar að skólinn hafi fjármagnið og starfskraftinn til þess að koma Grunnskóla Grundarfjarðar í fremstu röð þeirra skóla sem eru að undirbúa nemendur fyrir virka þátttöku í stafrænum heimi.

 

Loftur Árni Björgvinsson

Höfundur er í 3. sæti fyrir L-lista Bæjarmálafélagsins Samstöðu