Valdarán og engar kosningar til sveitarstjórnar

Svavar Garðarsson

Í boði laga um kosningar til sveitarstjórna

 

Þessi fyrirsögn er stutt lýsing á því sem hæglega getur gerst í fámennari sveitarfélögum með aðstoð kosningalaga. Í 29. grein stendur orðrétt: „Nú kemur aðeins fram einn framboðslisti og skal þá yfirkjörstjórn framlengja framboðsfrest um tvo sólarhringa. Komi ekki fram nýr framboðslisti áður en þeim fresti lýkur verður framkominn framboðslisti sjálfkjörinn.“

Hættan er þessi. Að þar sem 5 eða 7 sveitarstjórnarmenn eru í frekar fámennu sveitarfélagi og í síðustu kosningum (eða jafnvel mörgum undangengnum kosningum) hafa ekki verið bornir fram listar, þess í stað hefur verið viðhaft persónukjör þá eru allir þar til bærir íbúar í kjöri.

Svo kemur að kosningum eins og núna og næstum allir íbúarnir eru sultuslakir, enda hefur ekki komið neitt fram sem bendir til annars en að persónukjör verði áfram viðhaft.

Þá getur til þess að gera fámennur hópur fólks undirbúið framboðslista í kyrrþey og lagt hann fram á síðustu stundu. Þá er samkvæmt 29. gr. gefinn tveggja sólarhringa frestur og ef ekki kemur fram annar listi innan þess tíma þá er listinn sjálfkjörinn. Það eru minni líkur en meiri á því að tíminn dugi til að bregðast við með öðrum lista, sem þýðir engar kosningar, ekkert lýðræði.

Þessari 29. lagagrein þarf að breyta og það strax á þann hátt að komi ekki fram annar framboðslisti áður en þeim fresti lýkur verði viðhaft persónukjör. Með þannig breytingu er hægt að afstýra valdaráni og ræna í leiðinni réttinum af fólki til að kjósa. Á sama tíma og þetta er látið viðgangast, þá eru þingmenn þess í stað uppteknir af því að reyna að lækka kosningaaldurinn niður í 16 ár til að stækka hópinn sem hægt er að ræna réttinum til að kjósa.

Það verður lengi margt skrýtið á Íslandi.

 

Svavar Garðarsson, Búðardal.

Fleiri aðsendar greinar