
Val á þjóðhöfðingja
Rún Halldórsdóttir
Það styttist í forsetakosningar. Ég hef verið hikandi að setja orð á blað en læt slag standa. Það er hiti í mörgum og orðræðan jafnvel hatursfull en sem betur fer búum við í frjálsu landi og allir mega tjá skoðanir sínar. Ekki geta allir verið sammála og ástæða mikils tilfinningahita í umræðum er oft brennandi áhugi á málefnum, brostnar vonir á einhvern hátt, áhyggjur af því að við séum ekki á réttri leið, að þjóðfélagið sé að þróast á verri veg. Það er eðlilegt að spjótin beinist að Katrínu Jakobsdóttur, fyrrverandi forsetisráðherra síðustu 7 ára, í ríkisstjórn ólíkra flokka. Þar var hún ekki einvaldur og þurfti að kyngja málamiðlunum sem skoðanabræður hennar og systur eiga erfitt með, eða geta ekki sætt sig við. Þetta er líklega gömul saga og ný í stjórnmálum en ég dáist að þreki Katrínar, málefnalegum tilsvörum sem ávallt eru laus við hroka hvað sem á dynur. Hún er vitur og fróð, glöð og glettin. Ég var eiginlega að vona að hún færi ekki í forsetaframboð því ég vildi hafa hana áfram í stjórnmálunum en allt hefur sinn tíma.
Ég hef ekki áhyggjur af niðurstöðum kosninganna. Við erum heppin að búa í lýðræðisríki og geta valið okkur þjóðhöfðingja. Það er úrvalsfólk sem býður sig fram og ég get séð þau flest fyrir mér sem forseta Íslands. Katrín ber hinsvegar af að mínu mati. Það hefur auðvitað áhrif að ég þekki hana best, aðallega úr pólitísku starfi. Reynsla í stjórnmálum bæði hér heima og erlendis mun koma að góðum notum í starfi þjóðhöfðingja en ekki síður hennar glaðværi persónuleiki, jafnvægi, víðsýni og virðing fyrir landi og þjóð.
Rún Halldórsdóttir