Værukæri meirihluti

Guðveig Anna Eyglóardóttir

Samkvæmt lögum um húsnæðismál og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga ber sveitarstjórn ábyrgð á og á að hafa frumkvæðið að því að leysa húsnæðisþörf. Í því skyni skal sveitarstjórn fylgjast með þörf á húsnæði í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn ber því eftir sem kostur er að tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleigu húsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum.

Undirriðuð lagði fram eftirfarandi bókun á fundi byggðarráðs 26. september síðastliðinn: „Fulltrúar Framsóknarflokksins í sveitarstjórn hvetja til þess að Borgarbyggð verði þátttakandi í tilraunaverkefni sem nú er auglýst á vegum Íbúðalánasjóðs. Markmið verkefnisins er að fjölga íbúðarhúsnæði og bregðast með þeim hætti við húsnæðisvanda sem hamlar uppbyggingu í sveitarfélaginu. Brýnt er að ljúka húsnæðisáætlun sveitarfélagsins sem er grundvallarforsenda fyrir þátttöku.“ Ekki liggur enn fyrir hvaða 2-4 sveitarfélög á landinu það verða sem munu svo taka þátt í umræddu tilraunaverkefni. En það sem mikilvægast er er að Borgarbyggð ljúki við húsnæðisáætlun fyrir sveitarfélagið sem fyrst. Atvinnu- og húsnæðismál eru því miður sárlega fyrirferðarlítil í sveitarstjórn.

Tímabært er að sveitarfélagið fari nú í það að bretta upp ermarnar og sýni í verki vilja til þess að styðja við fjölgun íbúa og bæta skilyrði fyrir vexti og viðgangi fyrirtækja í Borgarbyggð. Skortu á íbúðarhúsnæði má ekki standa uppbyggingu fyrir þrifum. Fyrir kosningar ræddu fulltrúar allra flokka um mikilvægi þess að styðja við atvinnuuppbyggingu á svæðinu. T.a.m. með því að fara í endurskoðun á gatnagerðargjöldum og fasteignagjöldum. Lítið hefur farið fyrir áætlunum og umræðum í þá átt hjá meirihluta sveitarstjórnar.  Sveitarstjórn verður að láta til sín taka ef við ætlum ekki að vera eftirbátar þeirra sveitarfélaga sem tilheyra atvinnusvæði höfuðborgarinnar.  Borgin mun færast nær okkur í framtíðinni með bættum samgöngum. Því er nauðsynlegt í ljósi þess hve tímafrek og langdregin skipulagsmál eru að hefjast handa strax við það að kalla t.d. eftir aðkomu leigufélaga sem ekki eru hagnaðardrifin til að taka þátt í uppbyggingu á leiguhúsnæði í langtímaleigu í Borgarbyggð. Akraneskaupstaður hefur þegar gert samning við leigufélagið Bjarg um uppbyggingu á 33 leiguíbúðum sem verða afhentar 2019. Hér hafa þessir mál varla verið rædd! Ekki erum við að glíma við skort á landi, hvorki þegar kemur að íbúðarhúsnæði eða lóðum fyrir fyrirtæki. Því vil ég hvetja meirihluta sveitarstjórnar til að halla sér ekki aftur í stólum sínum heldur gefa sig af heilum hug að því verkefni sem þau hafa tekið að sér; að byggja upp Borgarbyggð.

 

Guðveig Eyglóardóttir

Höf. er oddviti Framsóknarflokks í sveitarstjórn Borgarbyggðar.