
Uxahryggjavegur verður að fara framar í samgönguáætlun
Sigurður Guðmundsson
Fyrr í sumar voru drög að samgönguáætlun 2024-2038 lögð í samráðsgátt stjórnvalda. Þessi drög eru mikil vonbrigði fyrir Borgarbyggð og í raun Norðvesturkjördæmið allt eins og kemur t.d. fram í athugasemdum við samgönguáætlunina frá SSV, Guðmundi Fertram o.fl. sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum. Það er samt eitt atriði í þessum drögum sem olli mér sérstökum vonbrigðum og sendi ég eftirfarandi athugasemdir við samgönguáætlunina inn í samráðsgátt stjórnvalda:
Við lestur samgönguáætlunar sem liggur fyrir á samráðsgátt þá vil ég lýsa óánægju minni með að vegur um Uxahryggi (Brautatunga-Kaldadalsvegur) sé ekki framar í áætluninni en 2034-2038. Ég mundi vilja sjá Uxahryggjaveg fara miklu framar í samgönguáætlunina ásamt því að mikil tækifæri eru einnig fólgin í því að halda áfram með uppbyggingu á Kaldadalsvegi til Húsafells sem að mínu áliti ætti að vera í samgönguáætlun sem nú er lögð fram.
Þessir tveir kaflar fullkláraðir munu búa til nýjar hringleiðir út frá höfuðborgarsvæðinu sem henta mjög vel fyrir dagsferðir ferðamanna. Innan þessara hringja eru náttúruperlur eins og Þingvellir, Langjökull, Víðgelmir, Húsafell, Hraunfossar, Reykholt, Deildatunguhver, Grábrók, Hvanneyri, Borg á Mýrum, Borgarnes, Akranes, Hvalfjörður og fleiri áhugaverðir staðir á þessu svæði. Umtalsverð lagfæring á þessum vegum breytir þeim úr því að vera vegur sem ekki er fær öllum bílum og fær einungis hluta úr ári, í veg sem opinn yrði allt árið; Uxahryggjavegur og mundi lengja til muna opnun á Kaldadalsvegi.
Endurbygging þessara vega er mikið hagsmunamál fyrir ferðaþjónustuaðila á Suðvesturlandi þar sem þarna er verið að búa til nýja hringi sem mun auka afþreyingu sem er í boði á Suðvesturlandi, eykur getu landsins til að taka við fleiri ferðamönnum, stuðlar að meiri dreifingu ferðamanna á þessu svæði, bætir nýtingu núverandi ferðaþjónustu á Vesturlandi, skapar tækifæri til aukinnar uppbyggingar í ferðaþjónustu á Vesturlandi, bætir tengingar á milli Suður- og Vesturlands og mun dreifa umferð og álagi á vegi umtalsvert.
Vegabætur á Uxahryggjavegi og Kaldadalsvegi munu því hafa mikla þýðingu fyrir Vesturland, höfuðborgarsvæðið og landið allt og því er mikilvægt að flýta framkvæmdum við þessa kafla eins mikið og mögulegt er öllum til hagsbóta.
Ég treysti því að þingmenn mínir í Sjálfstæðisflokknum í NV kjördæmi, þau Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir og Teitur Björn Einarsson fylgi vel eftir nauðsynlegum breytingum á samgönguáætluninni til að rétta hlut NV kjördæmisins í vegabótum a næstu árum því af nógu er að taka til að bæta vegakerfið til hagsbóta fyrir kjördæmið og samfélagið allt.
Sigurður Guðmundsson
Höf. er oddviti Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórn Borgarbyggðar.