Uxahryggir eru besta leiðin

Stefán Broddi Guðjónsson

Vegamót Uxahryggjavegar og Kaldadals eru undarleg. Í suður liggur tvíbreiður upphækkaður vegur til Þingvalla. Í norður- og austurátt taka við leiðir ofan í Borgarfjörð, Uxahryggir í Lundarreykjadal og Kaldidalur í Húsafell. Holóttir óheflaðir vegir sem eru ófærir stóran hluta ársins og erfitt fyrir bíla að mætast. Slitlagið endar þarna eins og verktaki eða Vegagerð hafi skroppið í mat.

Um 20 kílómetra kafli liggur frá þessum afleggjara niður að bundnu slitlagi í Lundarreykjadal og um 10 kílómetrar að efstu bæjum. Ein daprasta frestunarárátta íslenskra vegamála er að þessi kafli hafi ekki verið kláraður og mikil sóun að láta uppbyggingu vegarins frá Þingvöllum enda í holum uppi á heiði.

Fjórar leiðir suður – ein í vestur

Ég stóð á þessum gatnamótum á sunnudaginn eftir skrölt upp Uxahryggina. Ég mætti fáum. Samt var fjölmenni á Þingvöllum. Líklega flest á leið Gullna hringinn, enda greið leið, allan ársins hring á Suðurland frá Þingvöllum, samt litlu styttra að fara heldur en ofan í Borgarfjörð.

Á síðasta ári heimsóttu 79% erlendra ferðamanna Suðurland en 46% Vesturland skv. Ferðamálastofu. Enn lægra hlutfall heimsótti Vestfirði og Norðurland. Ferðamál eru samgöngumál. Frá höfuðborgarsvæðinu liggja fjórar uppbyggðar leiðir með bundnu slitlagi yfir á Suðurland en aðeins ein til Vesturlands. Ferðalangur getur valið fjölmargar ólíkar hringleiðir allan ársins hring frá höfuðborgarsvæðinu um Suðurland. Á Vesturland komast ferðamenn aðeins fram og til baka frá höfuðborgarsvæðinu, nema auðvitað skrölta malarvegi – en bara á sumrin.

Uppbygging Uxahryggja tengir saman Suðurland og Vesturland um Þingvelli. Hún breytir forsendum fyrir ferðaþjónustu í Borgarfirði og víðar. Leiðin á Snæfellsnes, í Dali, á Vestfirði og Norðurland er i gegnum Borgarfjörð. Hvers vegna ekki er löngu búið að ljúka við leiðina frá Þingvöllum um Uxahryggi er óskiljanlegt. Þessi 20 kílómetra holótti kafli veldur þjóðarbúinu fjárhagslegu tjóni á hverju einasta ári.

Hagkvæmasta leiðin til að ferðamenn dvelji lengur

Þó ég sé aðeins farinn að ryðga í þjóðhagsstærðum þá veit ég samt að hver einasti ferðamaður sem kemur til landsins skilar um 200 þúsund krónum í gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið. Ef við horfum á tekjur á hverja gistinótt eru þær ríflega 50 þúsund krónur á hvern ferðamann á hverja nótt. Sem sagt, ef okkur tækist að fá 10% þeirra til að dvelja einum degi lengur þá myndi það líklega skila þjóðarbúinu 7-10 milljörðum í gjaldeyristekjur og skattspori sem hleypur á milljarði eða milljörðum.

Að fara í Borgarfjörð um Þingvelli er góð leið til að dvelja degi eða dögum lengur. Í drögum að samgönguáætlun frá því í fyrra er áætlað að uppbygging Uxahryggjavegar kosti 3,8 milljarða króna.

Mér dettur satt að segja engin hagkvæmari leið í hug til þess að auka gjaldeyristekjur þjóðarbúsins og skattspor ferðaþjónustunnar heldur en að byggja upp Uxahryggjaleið – hún er besta leiðin.

Þangað til skulum við kappkosta við að halda veginum eins góðum og kostur er.

 

Stefán Broddi Guðjónsson

Höf. er sveitarstjóri í Borgarbyggð