Útrýmum fátækt!

Ágústa Anna Ómarsdóttir

Í mínum draumaheimi eru allir jafnir. Jafnir til að fá húsnæði á þeim kjörum að heimilisfólkið ráði við að borga húsaleigu og geti jafnframt sent börn sín í skólann með nesti eða hafi ráð á að greiða í skólamötuneytið svo að barnið þurfi ekki að horfa á aðra borða nestið sitt með garnirnar gaulandi. Matur í grunnskólum ætti að vera frír.

Allir ættu að geta fengið húsnæði við hæfi. Húsnæði er grunnþörf alls fólks og enginn ætti að vera húsnæðislaus á Íslandi árið 2021. Það er mannvonska í landi þar sem veður eru válynd.

Hægt er að búa til samvinnufélög iðnaðarmanna sem hafa það að markmiði að búa til ódýrt og öruggt húsnæði. Þessi samvinnufélög mega ekki vera hagnaðardrifin.

Fólk sem kemur úr meðferð, úr langvarandi sjúkrahúsinnlögn eða fangelsi ætti að vera hjálpað til að fá húsnæði og vinnu við hæfi, svo það geti einbeitt sér að bata og aðlagast samfélaginu að nýju.

Það ætti að afglæpavæða fíkniefni í neysluskömmtun svo að fólk missi ekki fótana, vegna þess að það verði rekið úr vinnu eða fái ekki vinnu í kjölfar fíkniefnadóms. Það á ekki að eyðileggja líf og æru einstaklinga þó þeir fái fíkniefnadóm. Batnandi fólki er best að lifa.

Allir ættu að vera jafnir til að taka þátt í þeim íþróttum eða tómstundum sem þeir helst vilja. Hverfisíþróttahús ættu að vera opin öllum börnum og unglingum sem þau vilja sækja og ættu ekki að vera rekin í hagnaðarskyni.

Gjaldfrjáls aðgangur ætti að vera að allri velferðarþjónustu,

  • heilbrigðisþjónustu,
  • samgönguþjónustu,
  • menntaþjónustu,
  • réttarþjónustu,

og svo framvegis.

Atvinnu ættu allir að geta fengið við sitt hæfi. Í Stykkishólmi (bænum mínum) er vinnustaður, Ásbyrgi, fyrir seinfæra, ofvirka, einhverfa og þá sem þurfa aðstoð til að vinna sína vinnu. Þau endurvinna allt mögulegt, búa til kerti, bera út dreifirit og póst, auk þess sem að einu sinni í viku fær ein kona að koma á vinnustaðinn minn (dvalarheimili aldraðra) og hjálpa til við þvottinn. Ég er og hef alltaf verið stolt af því hvernig hugsað er um þennan samfélagshóp hjá Stykkishólmsbæ.

Enginn á að vera án framfærslu. Atvinnuleysi heftir fólk og býr til fátækt. Það væri bót í máli að búa til og starfrækja bæði garðyrkjubú á stórum mælikvarða og verksmiðju/saumastofu til að framleiða fatnað og textíl hvers konar. Við eigum nægilegt rafmagn í landinu, það sýnir sig í því að raforka er seld á spottprís til stóriðju hér í landi. Við Íslendingar getum orðið sjálfbær ef við bara viljum.

Foreldrar sem standa allt í einu uppi með að barnið þeirra fæðist eða verður langveikt af einhverjum sökum á að vera stutt með niðurgreiðslu búnaðar og kostnaðar vegna veikinda barnsins. Og fá viðunandi umönnunarbætur til að mæta vinnutapi.

Langveikir og fatlaðir eiga að fá að lifa mannsæmandi lífi!

Heldri borgarar, öryrkjar, atvinnulausir eiga að geta átt áhyggjulaust ævikvöld!

Bætum heilbrigðiskerfið!

Bætum vegakerfið!

Bætum menntakerfið!

Bætum samtryggingakerfið!

Útrýmum fátækt!

Kjósum XJ!

 

Ágústa Anna Ómarsdóttir.

Höf. er lyfjatæknir, býr í Stykkishólmi og er á framboðslista Sósíalistaflokksins í Norðvesturkjördæmi.