Útrýma þarf ólympískum grásleppuveiðum með því að setja grásleppuna í aflamark

Grásleppusjómenn skrifa

Aðalfundur Bátafélagsins Ægis í Stykkishólmi, elsta smábátafélags á Íslandi, var haldinn 6. nóvember 2020. Minnst var þess að Bátafélagið Ægir átti 60 ára afmæli á þessu ári. Aðalmál fundarins var áhyggjur grásleppusjómanna í Stykkishólmi um það hvernig veiðistjórnun á grásleppu verði háttað. Stykkishólmshöfn hefur ætíð verið með aflahæstu höfnum landsins og því mikið í húfi fyrir smábátasjómenn á svæðinu.

Það er staðreynd að a.m.k. 90% grásleppusjómanna í Stykkishólmi vilja grásleppuna í aflamark tafarlaust. Hvetja fundarmenn þingmenn til að fara í þessa vinnu og tryggja þannig stöðugleika í greininni. Telja fundarmenn að grásleppusjómenn á landsvísu séu hlynntir aflamarki og beri að hlusta á þá. Sjónarmið og reynsla þeirra sem stunda grásleppuveiðar þurfa að vega þungt, þyngra en þeirra sem á engan hátt koma að greininni.

Eins og komið hefur fram hjá grásleppusjómönnum í Stykkishólmi og víðar um Breiðafjörð á síðustu 10 árum, þá hafa óvissuþættir í stjórn og framkvæmd grásleppuveiða verið allt of margir. Það hefur falist í því að dögum hefur verið fækkað, netafjölda einnig, verð á grásleppu hefur verið rokkandi upp og niður og hefur þetta fyrst og fremst leitt til þess að kaupendur og grásleppusjómenn eru alltaf í óvissu fyrir hverja einustu vertíð og er það ólíðandi og illa útgerðarhæft. Fara þarf eftir veiðiráðgjöf Hafró sem aldrei en ljós fyrr en eftir að vertíð hefur hafist. Ef grásleppuveiðum væri stjórnað með aflamarki myndu sjómenn alltaf vita að hverju þeir ganga hverju sinni og þær ólympísku veiðar sem tíðkast hafa um árabil þar sem fyrstur kemur fyrstur fær myndu heyra sögunni til. Þannig fengju grásleppusjómenn tækifæri til að efla útgerðir sínar. Með kvótasetningu kemur mikill sveigjanleiki til að stunda veiðarnar á hagkvæman hátt, t.d. að fyrst og fremst veiðimaðurinn ráði sínum hraða til að afla þess magns sem hann hefur heimildir til.

Tíðrætt hefur verið um nýliðun í grásleppuveiðum. Hún er engin og mun áfram verða þannig við núverandi aðstæður þar sem veiðarnar teljast varla útgerðarhæfar, kostnaður við að hefja veiðar er mikill í tækjum og netum. Það sem menn taka heldur aldrei með í reikninginn þegar verið er að tala um útgerðarhlutann í veiðunum er sú mikla vinna sem til fellur við fellingu netanna og vinnan við frágang eftir vertíð. Þannig að ef að ungt fólk ætlar að byrja útgerð þá velur það síst grásleppuveiðar og leitar frekar til strandveiða þar sem þær hafa breyst til batnaðar undanfarin ár og stofnkostnaður mun lægri. Kvótasetning eykur möguleikann fyrir fólk að byrja grásleppuútgerð þegar vitað er að hverju er gengið. Óvissan í núverandi kerfi er ekki bjóðandi þeim sem eru að reyna að hafa ofan í sig og á með þessari atvinnu, þurfa að ráða mannskap og vera klár með úthaldið en vita ekki hvað er framundan.

Í frumvarpi ráðherra um veiðar og stjórnun grásleppuveiða er komið í veg fyrir samþjöppun aflaheimilda með því að hver útgerð megi einungis eiga 2% af heildaraflamarki grásleppu. Því fagna fundarmenn og telja að með þessu yrði svipuð dreifing veiða kringum allt land og því þurfi ekki að hafa stórar áhyggjur af samþjöppun. En um leið eru grásleppuveiðar orðnar útgerðarhæfar og möguleikinn til að efla útgerðina til staðar upp að vissu marki. Fundarmenn styðja einnig 1. gr. frumvarpsins varðandi staðbundin veiðisvæði við grásleppuveiðar en telja mikilvægt að ávallt sé haft samráð við heimamenn þegar svæðin eru ákvörðuð.

 

Stjórn Bátafélagsins Ægis Stykkishólmi

Þröstur Auðunsson, Páll Aðalsteinsson, Valentínus Guðnason.