Út fyrir kassann

Ole Jakob Volden

Það getur oft verið gagnlegt að hugsa út fyrir kassann og finna út hvernig við getum gert gott Akranes að enn betra Akranesi. Það er gott að búa á Akranesi því hér er nánast allt til alls svo öllum geti liðið vel. Skuldastaða bæjarins er með besta móti, þar sem skuldir bæjarins eru hagstæðar og eiginfjárstaðan er sterk. Íbúaþróun er á uppleið og hefur aukist verulega á síðustu 3 árum. Hver veit hver þróunin verður á næstu árum. Ef þessi íbúaþróun heldur áfram sem horfir þá verða Skagamenn á milli 9 – 10 þúsund talsins innan nokkurra ára.

Fólk flytur ekki á Akranes, ,,af því bara.” Það kemur m.a. á Skagann vegna hagstæðara íbúðarverðs en höfuðborgin býður upp á og einnig hefur grunnþjónusta samfélagsins gott orð á sér. Hins vegar tel ég að meira þurfi að koma til og því þurfum við Skagamenn að vera duglegri að styðja við þá sem eru að bjóða upp á menningu – og afþreyingu hér í heimabyggð. Fólk sækir mikið til höfuðborgarinnar og því eigum við Skagamenn að vera duglegri að efla einstaklingsframtakið þannig að til verði öflug grasrótarsamtök sem hafa það markmið, að vinna að uppbyggilegum verkefnum fyrir bæinn okkar sem allir geta notið.

Undanfarið hef ég átt samtöl við fjölda manns. Þar hef ég séð að margir Skagamenn eru með fullt af frábærum og metnaðarfullum hugmyndum. Þessir einstaklingar vita þó ekki hvert á að snúa sér til að koma þeim hugmyndum í framkvæmd. Þess vegna hafa allt of margar frábærar hugmyndir, sem áttu möguleika til að vaxa og dafna, ekki orðið að neinu. Þessar hugmyndir gætu hafa orðið að einhverju ótrúlega skemmtilegu hefðu þær fengið farveg til þess.

Hugmynd mín er sú að stofnaður væri samfélagssjóður hjá bænum. Þangað gætu Skagamenn með ýmsar hugmyndir, sett fram vel útfærðar hugmyndir auk fjárhagsáætlunar og sótt um styrk. Skagamenn gætu síðan kosið um þær hugmyndir sem þeim þætti áhugaverðastar. En til að þetta geri orðið að veruleika þá þurfum við að þora að hugsa út fyrir kassann. Jafnvel fara ótroðnar slóðir og prufa eitthvað nýtt og skemmtilegt.

Fáum einstaklinga í lið með okkur, einstaklinga sem hafa hugmyndir, fólk sem vill skapa og fólk sem er tilbúið til að hugsa út fyrir kassann. Hér á Akranesi býr fólk með mikla sköpunargáfu. Við sem samfélag eigum að styðja við það og efla.

 

Ole Jakob Volden

Höf. skipar 5. sæti á lista Framsóknar og frjálra á Akranesi. Hefur búið á Akranesi í rúm 30 ár og gefur kost á sér til að gera Skagann að enn betri bæ til að búa í.

Fleiri aðsendar greinar