Uss.. enginn má vita

Guðveig Lind Eyglóardóttir

Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar 7. janúar síðastliðinn var lögð fram til kynningar skýrsla KPMG um skoðun á innra eftirliti og fjárhagskerfi sveitarfélagsins 2020. Í skýrslunni eru gerðar fimm athugasemdir við eftirlit og fjárhagskerfi Borgarbyggðar eins og fram kemur í bókun byggðarráðs. Undirrituð taldi eðlilegt að í bókun yrði gert grein fyrir því í hverjar þessar ábendingar fælust. Mér var meinað að leggja fram slíka bókun með þeim rökum að um trúnaðarupplýsingar væri að ræða. Ákveðið var á fundinum að umræðum um skýrsluna skildi frestað fram á næsta fund og frekari upplýsinga yrði aflað um réttmæti þess að um skýrsluna skyldi ríkja trúnaður.

Skýrslan sem breyttist í vinnuskjal

Á fundi byggðarráðs 21. janúar síðastliðinn var málið tekið upp aftur nema skýrslan var ekki lengur skýrsla heldur bar nú heitið „vinnuskjal“ og trúnaður um skjalið staðfestur við fulltrúa í byggðarráði sem var rökstuddur með því að upplýsingarnar sem þar koma fram gætu verið persónugreinanlegar. Þessum sömu áhyggjum er varðar persónugreinanlegar upplýsingar var ekki fyrir að fara hjá fulltrúum meirihlutans þegar opinberuð var úttekt Verkís á starfsemi slökkviliðs Borgarbyggðar í lok árs 2018, þegar sama fólk lagði gríðarlega mikla áherslu á að sú skýrsla yrði gerð opinber þrátt fyrir að hún fjallaði í stórum dráttum um ákveðna starfsmenn. Ekki er of mikils til þess mælst að umhverfið sé heilbrigt og sömu leikreglur gildi fyrir alla. Ljóst er að ef vilji meirihlutans stæði til þess að veita íbúum þessar upplýsingar væri vissulega hægt að fá heimild til þess hjá skýrsluhöfundi.

Í bókun lagði ég áherslu á það sem ég tel óásættanlegt, að ekki sé hægt að greina frá helstu veikleikum og ábendingum sem sveitarfélaginu hafa borist í meginþáttum ásamt tillögum að úrbótum. Ég tel að hér sé um að ræða upplýsingar sem íbúar Borgarbyggðar eiga heimtingu á að fá að vita. Fram kom í bókun meirihlutans að alvarlegustu athugasemdunum yrðu gerð skil í skýrslu endurskoðenda með ársreikningi. Verða það þá ritskoðaðar og valdar ábendingar?

Hvernig getum við aukið gagnsæi og traust?

Vantraust á stjórnmálum birtist reglulega í formi kvartana um að fá ekki upplýsingar sem óskað er eftir. Algengt er að kvartanir beinist af töfum sem verða á því að upplýsingar séu veittar og ekki eru alltaf öll gögn veitt. Þetta viðmót og tregða til að bregðast við leiða af sér tortryggni og efasemdir í garð stjórnsýslunnar og stjórnmálamanna.  Vantraust getur haft afdrifaríkar afleiðingar og leitt af sér viðvarandi neikvæða afstöðu til samskipta við kjörna fulltrúa.

Bætt samskipti við almenning er undirstaða trausts. Meðvitund fólks og næmni gagnvart því sem er eðlilegt í samskiptum við stjórnmál og stjórnsýslu hefur breyst mikið síðust áratugi. Traust til stofnana og fyrirtækja hvort heldur það er hér á landi eða á alþjóðlegum vettvangi fer dvínandi. Mikilvæg er meðvitund um það að traust verður fyrst og fremst byggt upp með því að viðhafa gegnsæi. Kjörnir fulltrúar þurfa að tileinka sér heilbrigð vinnubrögð og viðhorf og bregðast hratt og örugglega við mistökum með því að taka ábyrgð.

 

Guðveig Lind Eyglóardóttir

Höf. er oddviti Framsóknarflokks í sveitarstjórn Borgarbyggðar.

Fleiri aðsendar greinar