Úr vörn í sókn

Stefán Skafti Steinólfsson

Kæru lesendur, íbúar Vesturlands og landsmenn allir. Gleðilegt ár!

Þessi grein er bjartsýnisgrein. Það eru til lausnir og þegar maður liggur flatur á botninum þá er lag að fóta sig og spyrna sér upp. Ástandið í fiskveiðum og sjósókn Skagamanna hef ég dregið upp í skrifum mínum undanfarið. Það liggjum við flöt og skaðinn er orðinn. Svona er staðan: Við Skagamenn erum fallnir í neðstu deild og liggjum á botninum. Líkja má þessu við að búið sé að selja alla leikmenn og Akranesvöllur notaður sem ruslahaugur, enginn man lengur hvernig bolta er sparkað. Erum utan deildar! En þá er sóknin besta vörnin.

Ég hef farið yfir skaðsemi kvótakerfis í sjávarútvegi sem hefur brugðist á allan hátt. Algjörlega unnið gegn því sem það var stofnað til. Að auka fiskveiðar og tryggja byggðafestu. Að sýna meðvirkni með stórgölluðu kvótakerfi er eins og að klappa alkóhólista á bakið og gefa honum brennivín. Það verður að viðurkenna vandann. Nú liggur það fyrir að útgerð er að leggjast af á Akranesi. Hér kemur varla sporður að landi. Því þarf að spyrna við fótum og treysta á þá vonarneista sem þó leynast hér innanbæjar. Vil ég þar nefna nýstofnað fyrirtæki Norðusýn og komu Ísfisks svo eitthvað sé nefnt. Fyrirtæki sem TREYSTA á aðgang að markaði. En mikilvægasta verkefni bæjarfulltrúa og þingmanna Vesturlands er að koma fiskmarkaði á laggirnar aftur sem allra allra fyrst.

Nú er lag að taka saman höndum við Fiskistofu og taka vigtarmál til rækilegar endurskoðunar. Hvernig væri að sækja fram og byrja endurreisn fiskveiða við Ísland (án ölmusukerfis skortveiði og sérhagsmuna) hér á Akranesi. Kjarkur og þor er allt sem þarf. Ég skora á þingmenn Vesturlands að láta málið til sín taka. Sérstaklega skora ég á ráðherra nýsköpunar og atvinnumála að taka málin föstum tökum. Ekki falla í þá gryfju að þvæla um þá smjörklípu sem umræðan um veiðigjöld er orðin. Við þurftum ekki veiðigjöld þegar samfélagið var byggt upp fyrir daga kvótakerfisins. Samningar sjómanna eru líka til ævarandi skammar og þarf að laga tafarlaust. Þar ræður kúgun og niðurlæging ríkjum.

Án tafar er hægt að opna fiskmarkaðinn hér. Veita nýjum markaði ívilnanir og sporgöngu.  Hlúa að og hvetja fyrirtæki til að gera út hér og fá aðstöðu. Endurreisa Akranes sem útgerðarstað og fiskihöfn. Það er kominn tími til að stjórn Faxaflóahafna komi orðum til athafna og geri Akraneshöfn að fiskihöfn, loforð sem var skjalfest og skráð fyrir löngu. Nóg er komið af blaðri og exelskjölum. Bæjarfulltrúar Akraness hvar í flokki sem þeir standa hafa sofið á verðinum um áratuga skeið. Flotið sofandi að feigðarósi og látið hirða af sér atvinnutækifæri og menningu sem ekki fæst keypt. Þingmenn Vestulands hafa allir brugðist. Kjörnir fulltrúar eiga að láta miklu meira í sér heyra með skaðsemi kvótakerfisins og þann hrylling sem það hefur gert fyrir bæinn okkar.

Með samstilltu átaki og trú á frelsi einstaklingsins getum við snúið vörn í sókn og byggt upp fiskveiðar, fiskvinnslu og gríðarlega nýsköpun sem fjórða iðnbyltingin mun gefa okkur. Hér á Akranesi sárvantar vinnu innabæjar. Allt eru þetta mannanna verk sem auðvelt er að breyta.  Okkur hefur stórlega mistekist og nú er að stokka spilin og gefa upp á nýtt. Komum Akranesi aftur í efstu deild fiskveiða og vinnslu og njótum þeirra gæða að vera sjávarþorp.  Vilji, kjarkur og þor er allt sem þarf. Við getum breytt þessu saman.

 

Stefán Skafti Steinólfsson, verkamaður.

Fleiri aðsendar greinar