Úr sandi byggja Vestlendingar auð

Geir Konráð Theódórsson

Á sandi byggði heimskur maður hús syngja krakkarnir, en við þessa línu ætti kannski að bæta við að úr sandi byggir mannkynið næstum allt. Ef þú horfir í kringum þig þá er líklegt að eitthvað í umhverfinu þínu sé búið til úr sandi, kannski glerið í rúðunni í glugganum eða skjánum í snjallsímanum, steypan í veggnum eða malbikið fyrir utan? Svo ótrúlega margt í okkar nútíma umhverfi notast við sand sem grunnhráefni, en því miður fyrir okkur mannfólkið erum við að verða uppiskroppa með sand sem nothæft hráefni.

Þú last þetta rétt og kannski réttilega spyrð núna; bíddu er ekki nóg til af sandi í heiminum, til dæmis í Sahara eyðimörkinni? Jú, alveg hárrétt hjá þér, nóg til af sandi þar. Ég ætti að vita það eftir að hafa búið þarna í Níger, en það sem ég vissi ekki fyrr en nýlega er að sandur er ekki bara sandur, og að sandkornin í sandinum geta verið mjög mismunandi.

Í mjög stuttu máli er sandur jarðefni sem kvarnast úr föstu bergi vegna veðrunar, en getur líka innihaldið mulin efni úr lífríkinu eins og skeljum, og sandkornin í sandinum eru venjulega skilgreind með kornastærð frá 0,06 til 2 mm að þvermáli. Ég veit að þetta er ekki það mest spennandi lesefni í blaðinu, en lykilatriðið sem þú skalt muna varðandi sand sem hráefni er að það er ekki stærðin á sandkornunum sem skiptir mestu máli heldur hvernig þau eru í laginu. Sandurinn sem hentar best sem grunnhráefni í okkar nútíma umhverfi, sérstaklega í byggingariðnaðinum, inniheldur grófgerð sandkorn. Það er hægt að hugsa um þau eins og púsl í púsluspili, sandkorn sem eru óregluleg í laginu og með horn og fleti sem henta vel til að mynda bindingu hvort við annað og önnur efni.

Góð binding er lykillinn að góðri steypu og það er fátt sem nútíma samfélagið í dag elskar meira en góða steypu. Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að mannkynið noti um 30 milljarða tonna af steypu á hverju ári, sem væri nóg til að byggja 27 metra háan og 27 metra þykkan vegg í kringum miðbaug – eða ef Trump fengi að ráða, jafnbreiðan landamæravegg milli Bandaríkjanna og Mexíkó nema að sá veggur væri alls staðar um 350 metra hár. Ég minni lesendur á að Hallgrímskirkja er tæplega 75 metrar á hæð. Sama hvernig ég reyni að ímynda mér þetta þá er erfitt að gera sér í hugarlund hversu mikið af steypu, og þar af leiðandi sandi, mannkynið er að nota á hverju ári.

Yfir helmingurinn af þessari steypu fer í uppbyggingu í Kína, og aftur er erfitt að gera sér grein fyrir magninu sem um ræðir. New York Times greinir frá því að á árunum 2011 til 2013 hafi Kína notað meiri steypu en Bandaríkin notuðu á allri síðustu öld. Þessi hraða uppbygging er sömuleiðis að gerast víðar og þar með eykst eftirspurnin eftir góðum sandi á heimsmarkaðnum. Þetta hlýtur að vera alveg frábært fyrir löndin í eyðimörkunum, eða hvað?

Sameinuðu arabísku furstadæmin, sem staðsett eru í hinni sandríku Rub’al Khali eyðimörkinni á Arabíuskaga, voru í vanda þegar átti að byggja stærsta turn í heimi. Um 330.000 rúmmetrar af steypu fóru í gerð á Burj Khalifa, og eins fáránlega og það hljómar þá urðu furstadæmin að flytja inn sand frá Ástralíu til að nota í steypuna. Eyðimerkursandur er nefnilega oftast veðraður af vindi og sú veðrun veldur því að sandkornin verða með tímanum vel slípuð og kringlótt, og þar af leiðandi óhentug til að mynda bindingu – eins og púsluspil þar sem öll stykkin væru með sleipar og sléttar hliðar. Eyðimerkursandurinn hentar þess vegna ekki í steypugerð eða til að búa til malbik, og því miður hentar hann ekki einu sinni til þess að búa til gler. Glerflöskuverksmiðja í Saudi-Arabíu varð til dæmis að flytja inn sand eftir að það uppgötvaðist að sandurinn í eyðimörkinni væri með of mikið gifs til að hægt væri að nota hann til að búa til gler.

Allt í góðu, sleppum eyðimörkunum, það er samt nóg til af sandi í sjónum. Hvað með allar strendurnar? Já, sumar strendur eru með sand þar sem sandkornin eru með hentuga lögun sem hægt væri að nota í ákveðinn iðnað, en vandinn er saltið. Til að sandurinn verði að hentugu hráefni verður að skola saltið úr honum og það getur reynst erfitt og dýrt. Auk þess hefur stórtækileg efnistaka við strendur oft mjög slæm áhrif á lífríkið, ásamt því að sandtaka gerir mörg svæði viðkvæm fyrir hækkandi sjávarmáli og komandi eyðingu strandsvæða með tíðari stormum. Mörg lönd hafa þess vegna sett ströng lög og bönn á hverskonar sandtöku á þessum viðkvæmum svæðum.

Hvar er þá þessi grófgerði púsluspilssandur sem mannkynið girnist svona svakalega fyrir alla þessa uppbyggingu? Besti sandurinn er sandur sem er veðraður af vatni og hann finnst helst í árfarvegum, en í þessu byggingaróhófi síðustu áratuga er búið að nota mest af þeim sandi sem auðvelt er að nálgast. Engu að síður er haldið áfram að grafa og flytja burt sand, sérstaklega í fátækari löndum. Efnistökur síðustu ára hafa verið stórtækari og sífellt verri fyrir umhverfið. Árbakkar hafa rofnað og aukið hættur á flóðum, mengun hefur aukist í ám og tengdum vatnsbólum og Ph gildi vatns hefur víða breyst með virkilega neikvæðum áhrifum á lífríkið. Til dæmis er Mekong áin í Víetnam mjög illa farin eftir ólöglega sandtöku í gegnum tíðina og í dag sést vel hvernig þetta hefur bitnað á lífríkinu og þeim 20 milljón manns sem búa við ána. Því ætti það ekki að koma okkur á óvart að víða um heim er verið að banna og berjast gegn sandtöku úr árfarvegum, líkt og sandtöku við strendur – en með minnkandi framboði eykst eftirspurnin eftir sandi.

Eftirspurnin er orðin svo mikil að núna er hægt að lesa um „sand-mafíur“ í Indlandi, Ítalíu og Marokkó þar sem glæpasamtök stórgræða á útflutningi á ólöglegum sandi. Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna sem og önnur samtök hafa miklar áhyggjur af sandskorti heimsins og hafa verið að leita leiða til þess að koma til móts við þessa óseðjandi þörf nútímans. Tæknilegar leiðir til að nota eyðimerkursand gætu verið mögulegar, hægt er að nota mulningsvélar til að búa til sand og svo hefur sömuleiðis reynst ágætlega að endurvinna steypu og malbik, en allt kostar þetta pening og hingað til telja sérfræðingar að hagkvæmast sé að nota sand úr náttúrunni – bara ef það væri nú einhver staður á hnettinum þar sem nóg er til af hágæða sandi, og að sandurinn þar væri ekki samofinn viðkvæmu lífríki.

Vísindamenn frá Danmörku og Bandaríkjunum birtu grein í Nature Sustainability í febrúar árið 2019 um kosti þess að stunda efnistöku á sandi á Grænlandi, því þar væri ógrynni af efni sem kæmi undan jöklunum sem hopa meira og meira með hverju árinu. Þar greina þeir frá því að grænlenski jöklasandurinn væri mjög hentugur í margskonar iðnað og gæti skapað árlegar útflutningstekjur upp tæplega 300 milljarða íslenskra króna, jafnvel meira ef heimsmarkaðsverð á sandi heldur áfram að hækka. Til samanburðar má hugsa um að áætlaðar heildartekjur ríkissjóðs á Íslandi eru um 772 milljarðar króna fyrir árið 2021.

Með þetta allt saman í huga tel ég núna líklegt að fjárfestarnir sem keyptu jörðina Hjörleifshöfða í Mýrdalshreppi á Suðurlandi, með þeim yfirlýstu hugmyndum um að nýta þar svæði í efnistöku á vikri og sandi, hafi verið heppnir og einstaklega klókir með að geta keypt alla þessa 11.500 hektara af sandi á rétt í kringum 500 milljónir króna. Ég legg til að Vestlendingar, með sína góðu útflutningshöfn á Grundartanga, horfi í kringum sig og skoði hvort þeir sem byggðu húsin sín á sandi hafi í raun verið eitthvað svo heimskir?

 

Geir Konráð Theódórsson