Uppryfjun á afstöðu framboða til vindmyllugarða fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar

Georg Magnússon

Fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar óskuðu 90 landeigendur, ábúendur og náttúrusinnar eftir afstöðu allra framboða til vindmylluframkvæmda í Borgarbyggð. Tilgangur fyrirspurnarinnar var að reyna að kalla fram skýra afstöðu framboðanna hvað það varðar. Svör framboðanna voru um margt keimlík, vitnað í skipulagsmál, lög, rammaáætlun og almennt gjörðir ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Talað er um að uppsetning vindmyllugarða þurfi að vera í sátt og samlyndi við íbúa.

Hér er úrdráttur úr svörum framboðanna:

Vinstri Græn:

Áformum um vindorkuverum í landi Hvamms og á Grjóthálsi er í raun sjálfhætt á meðan andstaða íbúa er gegn virkjunaráformum. Mun VG ekki sætta sig við að framkvæmdunum verði hleypt í gegn á meðan andstaðan er jafn afgerandi og raun ber vitni.

Sameiginlegt framboð Samfylkingar og Viðreisnar :

Um beislun vindorku þarf að ríkja sátt á meðal allrar þjóðarinnar. Við viljum að tekin verði hreinskiptin umræða um þessi mál og að stjórnvöld taki heildstæðari stefnu í rammaáætlun fyrir landið í heild um hvar þessi auðlind skuli nýtt og hvar ekki áður en lengra verður haldið.

Svar Sjálfstæðisflokksins:

Borgarbyggð er sveitarfélag þar sem mikið er um náttúruperlur og einstaklingar koma langt að til að njóta gæða umhverfisins og óspjallaðrar náttúru. Hér er mikil og lífleg sumarhúsabyggð og ferðaþjónusta er mikilvæg atvinnugrein í héraðinu. Ljóst er að varhugavert gæti verið að koma á laggirnar stórum mannvirkjum eins og vindmyllum í návígi við slík svæði og starfsemin gæti verið til þess fallin að raska slíkum rekstri. Ljóst er að umræddir virkjunarkostir eru ekki í gildandi rammaáætlun og þess vegna telja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að það sé ekki tímabært að taka afstöðu til vindorkuvera í þeirri skipulagsvinnu sem unnið er að. Það verður því ekki gert ráð fyrir þessu í aðalskipulagi sveitarfélagsins fyrr en viðhlítandi rammaáætlun liggur fyrir.

Svar Framsóknarflokksins:

Framsóknarflokkurinn svaraði ekki fyrirspurninni heldur vísaði Guðveig Eyglóardóttir í viðtal við sig í Skessuhorni: Stefna ríkisstjórnarinnar er sú að hægt verði að beisla vindorkuna sem og aðra orku. Fyrir því er ég jákvæð enda mikilvægur þáttur í orkuskiptum og orkuöflun almennt. Hinsvegar liggur ekki fyrir stefnumörkun um hvar slíkir vindorkugarðar eiga að rísa og hvar ekki. Öll umræða og þekking meðal sveitarfélaga er að mínu mati á núll punkti og nauðsynlegt að úr því verði bætt svo hægt sé að taka ákvarðanir á þekkingu um nýtingu vindorku í landinu. Ég held að það séu allir sammála um að það er einfaldlega ekki hægt að setja vindmyllugarða hvar sem er og mikilvægt að slík áform séu unnin vandlega og gerð í samráði við íbúa á hverju svæði ef til þess kemur.

 

Megin línan í svörum framboðanna er að ákvörðun um vindorkugarða skuli tekin í sátt og samlyndi við íbúa. Meirihluti sveitarstjórnar Framsóknar með stuðningi Sjálfstæðismanna keyra áfram á fullri ferð undir handleiðslu þeirra sem hyggjast reisa vindmyllugarða í sveitarfélaginu. Vilji íbúa er algerlega hundsaður. Framsókn og Sjálfstæðismönnum kemur bara ekkert við þó að fasteignir í nágrenni við fyrirhugaða vindmyllugarða hríðfalli í verði og óbyggilegt verði á svæðinu.

Þeim kemur heldur ekkert við hvernig ferðaþjónustan muni dafna undir vindmyllu gný.

Þeim kemur ekkert við þó örplast spúist í ómældu magni út í umhverfið.

Þeim kemur ekki við þau óafturkræfu náttúruspjöll sem verða af uppbyggingunni.

Þeim kemur ekkert við hvað fer fram og hvernig uppsveitirnar koma til með að verða í náinni framtíð. Mannlaus óbyggileg eyðimörk.

Þeim kemur ekkert við þó við séum að reyna að verja okkur gegn þeirra ákvörðunum með ærnum tilkostnaði í tíma og peningum.

Það eina sem þeim kemur við er að þeir sem hyggjast reisa vindmyllugarða fái að gera það óáreittir.

 

Meirihluti sveitartjórnar Borgarbyggðar hefur aldrei fært nein rök fyrir þessum æðibunugangi, sveitarfélagið mun ekki koma til með að hafa nokkrar einustu langtíma tekjur af fyrirhuguðum vindmyllugörðum. Ef einhverjar verða verður það í mýflugumynd.

Meirihluti sveitarstjórnar Borgarbyggðar hefur fullyrt að þó hafi verið gerðar skipulagsbreytingar, þeim sem hyggja á vindmylluframkvæmdir til hagsbóta, og veitt leyfi fyrir 98 metra háu rannsóknarmastri á Grjóthálsi og óskilgreindum rannsóknartækjum á öðrum stöðum, hafi það ekkert með vindmyllugarða að gera.

Að bera slíkt á borð fyrir íbúa lýsir í besta falli hroka og eða bara heimsku ég veit ekki hvort er eða kannski bara bæði.

Það er ansi hart að þurfa að verja sig með öllum tiltækum ráðum gegn meirihluta sveitarstjórnar sem lýsti því yfir fyrir kosningar að allt yrði unni í sátt og samlyndi við íbúa. Ég hélt nefnilega að sveitarstjórn ætti að vinna fyrir íbúana en ekki gegn þeim.

 

Nú styttist í kosningar og það er nokkuð ljóst að það þarf að moka hressilega út úr ráðhúsi Borgarbyggðar. Meirihluti sveitarsjórnar Borgarbyggðar getur afstýrt mestu hamförum af mannavöldum sem allt stefnir í að óbreyttu. Sýnið kjar og þor. Takið ákvörðun í eitt skipti fyrir öll og lokið fyrir öll hugsanleg  áform um vindmyllugarða í sveitarfélaginu.

Í upphafi skyldi endinn skoða.

Vinnið fyrir okkur íbúana en ekki gegn okkur.

 

Georg Magnússon, Norðtungu 3.