Upplýsingaóreiða og sakbending Landbúnaðarháskóla Íslands á sauðfjárbændur

Haraldur Benediktsson

Umræða um loftslagsmál er ekki einfalt umræðuefni. En mestu málir skiptir að hún sé upplýsandi og uppbyggileg. Mörgum tekst það – en sumir falla í freistni til að vekja á sér athygli og benda á aðra, t.d. bændur. Þannig er allavega óhætt að segja að mörgum bændum hafi orðið hverft við, þegar sjónvarpað var afar einhliða málflutningi prófessors við Landbúnaðarháskóla Íslands í þætti um loftslagsmál.

Nú er það gömul saga og ný, að sauðfé hefur oft verið kennt um gróðureyðingu á Íslandi. Það er langt frá því að svo sé. Þó því sé oft haldir fram er það ekki af sanngirni. Þó er enginn sem andmælir að notkun lands, beitarálag og beitarstýring skiptir máli fyrir framför lands. Rétt eins og landgræðsla og uppgræðslustarf bænda skiptir máli.

En það er staðreynd að víða er nettólosun frá landi – en hún getur aldrei verið reiknuð frá einni búfjártegund, eða einni atvinnugrein, landbúnaði. En hve mikil er losunin í raun og veru? Skiptir máli hvar er á landinu? Hvernig jarðvegurinn er? Hve steinefnaríkur hann er?  Og hvernig skal brugðist við ástandinu? Hvaða aðferðir virka? Hvers getum við vænst um árangur?

Það ríkir upplýsingaóreiða um losun frá landi. Við virðumst notast við gildi sem Loftslagsskrifstofa Sameinuðu þjóðanna gefur út. Út frá þeim tölum eru gefnar upp tölur sem eiga að segja til um losun. En hversu nálægt veruleika eru þær tölur?

Í fyrrnefndum sjónvarpsþætti talaði prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands og setti samhengi á milli gróðureyðingar og sauðfjárbeitar. Þulur í þættinum bætti um betur; veifaði tveimur lambalærum og ályktaði að milli þessara læra gæti verið mikill munur á loftslagsáhrifum. Ég held að það sé rétt – en ályktun mín er miklu frekar að þó að við myndum vita hvaðan kjötið væri upprunnið, þá vantar okkur traustari þekkingu.

Prófessorinn henti fram sterkum fullyrðingum og ályktunin var ekki misskilin – sökin á losun frá landi var vegna bænda, sem væru að beita ógróið og illa farið land. Nú ætla ég ekki að blanda mér í beitarumræðu. En það sem ég saknaði frá hendi prófessorsins – sem hefur í áratugi haft starfa við rannsóknir við Landbúnaðarháskóla Íslands – hvað hann vildi gera annað en alfriða land fyrir beit. Og þá hvers vegna það væri besta leiðin?

Mér finnst núna standa á að Landbúnaðarháskólinn svari hvað ákveðnar aðgerðir í landgræðslu myndu binda mikið kolefni.  Hvaða tegund af landi væri best að velja til þess og hvað það tæki langan tíma?

Ef við værum t.d. að horfa til gróðursnauðra mela – þá er mikilvægt að vita hvað hægt væri að binda mikið af CO2.  Með hvaða aðferðum? Hver væri áætlaður ávinningur af því eftir t.d. fimm ár?  Hvar væri heppilegt að stunda slíka landgræðslu – svo sem í hvaða hæð?  Hvernig getum við fengið raunverulega tölur um þá bindingu? Þá þarf Landbúnaðarháskólinn að svara um hvaða leiðir er að velja, til að nota hagkvæmustu leiðina til árangurs. Prófessorinn ætti að geta lagt slíkar upplýsingar fram nú þegar – fyrst hann getur fullyrt um þann skaða sem orðinn er.

Þá þarf að sama skapi að setja fram hver ávinningur er af þeirri landgræðslu sem sauðfjárbændur hafa stundað í áratugi og fá áreiðanlegar tölur um CO2 í jarðvegi sem þar hefur verið bundinn. Hvaða aðferðum hefur verið beitt? Svo sem friðun, beit, friðun og beit, hvaða árstíma og framvegis.

Er það endilega svo að lausnin sé algjör friðun? Hvaða áhrif hefur það á framvindu að sleppa alfarið að fá lífrænt efni í inn í framvindu gróðurs? Og þótt sé algjör friðun, dugar það til framvindu gróðurs ef ekkert annað er gert?

Aðeins með þannig umræðu er hægt að taka fullyrðingar alvarlega sem settar voru fram í nefndum þætti. Þannig þarf Landbúnaðarháskóli Íslands að setja fram leiðbeiningar og áætlun.

Landbúnaðarháskólinn verður að leggja fram rauntölur og raungögn. Ef það er ekki gert er þetta marklaus umræða og aðeins ætluð til að skekkja og skaða mikilvæga umræðu.

Að sama skapi er um aðra landnotkun og notkun á t.d. framræstum mýrum.

Það er ekki gott fyrir Landbúnaðarháskóla Íslands að benda bara en geta ekki lagt fram leiðir til lausnar. Landbúnaðarháskólinn er mikilvægur hlekkur í að taka á upplýsingaóreiðu um land og landnotkun á Íslandi. Fyrr en það er unnið er þetta umræða um sökudólga og sakfellingar.

 

Haraldur Benediktsson

Höf. er bóndi og alþingismaður.