Uppgangstímar í Dalabyggð

Þorgrímur Einar Guðbjartsson

Um komandi helgi göngum við til kosninga. Það er stór dagur í lífi margra. Þeir sem eru að kjósa í fyrsta sinn og þeir sem eru í framboði í vænlegum sætum, upplifa ýmsar tilfinningar í huga sér. Margir eru spenntir og glaðir, hlakka til, skilja að kosning er alvöru mál og ætla að ganga að kjörborði með það að markmiði að leggja sitt af mörkum til að veita lýðræðinu framgang.  Svo eru aðrir sem eru kvíðnir. Upplifa ekki að í boði séu valmöguleikar að þeirra skapi, trúa ekki á málflutning eða framkomu frambjóðenda og finnst eins og að þeirra rödd hafi ekki fulltrúa í hópi frambjóðenda og eiga því erfitt með að finna valkost að sínum huga. Svo eru þeir sem kjósa ekki og fyrir því eru margar ástæður, sem ég get ekki rakið hér, því ég hef ekki verið í þeim sporum, því fyrir mér er kosning alvöru mál, hvort sem ég fari viss eða óöruggur á kjörstað, en hvort tveggja hef ég upplifað.

Í Dalabyggð er gengið til persónukjörs í fjórða sinn í röð. Fyrir fjórum árum varð alger endurnýjun í kosningunum. Mörgum fannst það ekki gott, því mikilvægt er að hafa fólk í forsvari sem hafi reynslu, meðan öðrum fannst það frábært, því það sýndi í raun að lýðræðið hafði unnið. Þ.e. fólkið kaus það fólk sem það hafði trú á og þetta varð niðurstaðan.

Framundan í Dalabyggð eru nokkur spennandi ár. Ef allt fer á besta veg megum við búast við uppbyggingarárum á við árin í kringum 1965-1975. Það á að fara að byggja fleiri íbúðir í Búðardal, það er verið að byggja tvær brýr í Hörðudal á Skógarstrandarvegi, það er verið að undirbúa iðnaðarhúsalóðir í Búðardal, atvinnurekendur víða um héraðið eru í uppbyggingu og síðast en ekki síst er verið að vinna að byggingu íþróttamannvirkja í Búðardal.

Í mörg ár höfum við rætt okkar á milli um hvort eigi að byggja íþróttamannvirki í Búðardal. Sitt hefur hverjum sýnst. En frá því að skólahald á Laugum var lagt af, þá hef ég verið þess fullviss að stefna bæri að því að reisa íþróttamannvirki í Búðardal og þá einkum í tengslum við skólakennslu.

Í dag er ég virkilega ánægður að ekki var farið af stað í það verkefni fyrir áratug eða svo, því þá hefði eingöngu verið horft á íþróttamannvirki sem myndu nýtast skólanum númer eitt og öðrum númer tvö. Húsið hefði orðið lítið og sundlaugin líka.

Nú liggur fyrir að byggt verður af metnaði og forsjá. Íþróttamannvirkin eiga að nýtast íbúum, ferðamönnum, gestum og gangandi ásamt því að verða kennsluaðstaða fyrir nemendur í grunnskólanum. Það er þarna sem vendipunkturinn liggur. Með þessu móti byggjum við traustari grundvöll fyrir frekari uppbyggingu í Dölum, bæði fyrir okkur sem hér búum í dag og höfum plön um að viðhalda og byggja áfram upp okkar atvinnurekstur, sem og þeirra sem hingað munu líta sem tækifæri til að búa sér og börnum sínum heimili, atvinnu og tækifæri.

Í þessu ljósi styð ég heilshugar þessa uppbyggingu og hlakka til að sjá hana rísa og verða að veruleika. Ég hlakka til allra viðburðanna sem þar munu fara fram. Ég hlakka til að geta komið og fylgst með talningu atkvæða í kosningum til Alþingis, enda verður íþróttahúsið á krossgötum kjördæmisins og í miðju þess og þar með sjálfkjörinn vettvangur til atkvæðatalningar.

Ég sé fyrir mér í framhaldinu að þá getum við samnýtt húsnæði Dalabúðar og Lýðheilsugarðsins, m.a. með rekstri á þjónustu og bókasafni í sama húsnæði og með því móti gert svæðið að góðum stað fyrir íbúa og aðra að koma og njóta, hitta mann og annan.

Göngum glöð til kosninga og munum að Róm var ekki byggð á einum degi og það sama á við um samfélag, það tekur tíma, þrautseigju og vandvirkni, en skilar sér alltaf best ef við, íbúarnir erum höfð með í ráðum og að leiðarljósi.

 

Þorgrímur Einar Guðbjartsson, Erpsstöðum.