Uppbyggingasjóður í forvarnarstarfi!

Heiðrún Janusardóttir

Um þessar mundir standa yfir Vökudagar á Akranesi. Að venju eru fjölmargir viðburðir í boði, bæjarbúum og öðrum til yndis og ánægju. Einn viðburðurinn ,,Umbreyting – Eitthvað verður annað,“ er samsýning átta nemenda og fjögurra kennara úr Grundaskóla. Viðfangsefnið er að nýta gamla hluti til endurhönnunar og endursköpunar þar sem ofgnótt og neysluhyggja einkenna samtímann. Sýningin er ótrúlega flott og mörg verkin eiga sjálfsagt eftir að standa lengi. Á það ekki síður við um verk unga fólksins en kennaranna.

En það er ekki sýningin sjálf, þó glæsileg sé, sem er ástæða þess að ég set þessar línur á blað. Það er verkefnið sjálft sem mér finnst svo merkilegt. Sýningin sprettur ekki upp af engu! Hún er afrakstur margra vikna vinnu þeirra sem að henni standa.

Fjórir kennarar sem allir stunda ólíkar listgreinar meðfram grunnskólakennslu tóku sig saman fyrir fjórum árum og bjuggu til þetta verkefni, með það að markmiði að samþætta ólíkar listgreinar og stuðla að samvinnu nemenda og kennara óháð aldri og reynslu. Það eitt, að gefa ungu fólki tækifæri til að finna hæfileikum sínum farveg við listsköpun undir handleiðslu fullorðinna, en þó á jafningjagrundvelli er frábært framtak. Að gera það síðan í sínum frítíma er aðdáunarvert! Í sameiningu naut hópurinn handleiðslu listakonunnar Helenu Guttormsdóttur. Í ferlinu eru allir jafnir, allir miðla, ungir læra af þeim sem eldri eru og öfugt. Viðfangsefni verkefnisins gefur tilefni til gagnrýninnar hugsunar.

Verkefnið er styrkt af Uppbyggingasjóði Vesturlands. Þar stendur sjóðurinn algjörlega undir nafni. Að byggja upp, styðja við og styrkja ungt fólk og gefa þeim veganesti sem getur hvort sem er nýst þeim á komandi starfsvettvangi eða ýtt undir áhugamál sem stuðlar að innihaldsíkum tómstundum. Það að eiga sér áhugamál og geta stundað það við góð skilyrði undir góðri handleiðslu er lykilatriði í öllu forvarnarstarfi hvort sem er í íþróttum eða listum.

Um leið og ég óska aðstandendum verkefnisins til hamingju hvet ég bæjarbúa og ekki síður aðra til að gera sér ferð í matsalinn í Sementverksmiðjunni og skoða glæsilega sýningu.

 

Heiðrún Janusardóttir

Höf. er verkefnisstjóri æskulýðs- og forvarnarmála hjá Akraneskaupstað.

Fleiri aðsendar greinar