
Uppbygging íþróttasvæðis í Borgarnesi
Silja Eyrún Steingrímsdóttir
Þegar ég bauð mig fram í kosningunum 2018 voru málefni íþróttamannvirkja eitt af þeim málum sem ég brann hvað mest fyrir og geri enn. Það er löngu vitað að núverandi aðstæður til íþróttaiðkunar eru ekki góðar og að íþróttahúsið í Borgarnesi eins og það er í dag er barn síns tíma.
Aðstæður til íþróttaiðkunar í Borgarbyggð eru mjög góðar á sumrin en þá eru frjálsar íþróttir með mjög góða aðstöðu sem og knattspyrnan en yfir vetrartímann vandast málið. Er sá vandi í raun tvíþættur, bæði eru aðstæður til knattspyrnuiðkunnar yfir vetrartímann ekki boðlegar auk þess sem íþróttasalurinn í íþróttahúsinu annar ekki eftirspurn. Þessi staða getur komið í veg fyrir að nýjar íþróttagreinar komist að en einnig að þröngt er um hvern flokk á æfingum sem stundum eru aðeins í hálfum sal o.s.fv. Þá er einnig kominn tími á ýmiskonar viðhald í núverandi húsi og þörf á að bæta annars konar aðstöðu til dæmis fyrir starfsmenn, íþróttafélög og aðkomu inn í húsið.
Starfshópur skipaður
Á þessu kjörtímabili var vinnunni ýtt af stað með því að skipa hóp sem hafði það hlutverk að fara yfir þau gögn sem höfðu verið unnin síðustu ár í tengslum við byggingu íþróttahúss og í kjölfarið leggja til hvar mögulegt sé að byggja upp nýja íþróttaðstöðu. Samráð var haft við starfsmenn Borgarbyggðar sem nýta húsið hvað mest, formenn íþróttafélaga, UMSB og einnig var fengin verkfræðistofa til að aðstoða við vinnu við þarfagreiningu o.fl. Niðurstaða hópsins varð í grófum dráttum sú að það væri mesta samlegðin í að byggja við núverandi hús, bæði myndi það nýtast skólanum betur í íþróttastarfi, starfsfólk myndi nýtast betur, aðgengni fyrir íbúa og notendur betra og auðveldara að skipuleggja heildstætt íþróttastarf á svæðinu. Enda er til staðar mikil þörf til endurbóta á aðstöðunni við núverandi íþróttahús.
Umræðan um nýtt íþróttahús er ekki ný af nálinni og hefur yfirleitt verið talað um að það yrði byggt fyrir aftan núverandi hús, það lá því beinast við þegar hópurinn var búinn að ákveða að vilja að uppbyggingin væri á núverandi svæði, að kanna jarðveginn í kringum íþróttahúsið til að vita hvar væri raunhæft að byggja hús. Hópurinn fekk með sér ráðgjafa í þessa vinnu og samhliða var unnin þarfagreining.
Niðurstöður þarfagreiningarinnar gáfu til kynna að það þyrfti fjölnotahús sem myndi rúma knattspyrnuna, frjálsar íþróttir og að til staðar yrði göngubraut innandyra sem gæti nýst eldri borgurum. Í öðru lagi þyrfti nýjan íþróttasal sem yrði byggður við núverandi hús. Auk þess þyrfti að ráðast í allsherjar viðhald á núverandi húsi.
Til að byrja með var kannað svæðið á bak við núverandi íþróttahús og núverandi æfingasvæði knattspyrnunnar og teknar prufuholur til að kanna jarðveginn. Niðurstöður sýndu að ekki væri æskilegt að reisa hús á hvorugum staðnum þar sem núverandi æfingavöllur er búinn til úr allskyns uppfyllingarefni og þar þyrfti að jarðvegsskipta og væntanlega langan sigtíma áður en hægt væri að byggja þar sem er mjög kostnaðarsamt. Svipaða sögu er að segja með svæðið á bakvið núverandi íþróttahús. Því var haldið áfram að rannsaka svæðið til að finna hvar væri best að byggja við.
Teknar voru fleiri prufuholur í kringum húsið meðal annars á bílastæðinu hægra megin við húsið og þar sem körfuboltavöllurinn er milli íþróttahúss og UMSB húss. Í ljós kom að þessi svæði áttu bæði að henta vel til uppbyggingar sér í lagi á klöppinni milli íþróttahúss og Þorsteinsgötu 5 en það myndi þýða að kaupa þyrfti upp fasteign til að koma því fyrir og eins væri hægt að setja lítið fjölnotahús á körfuboltavöllinn milli íþróttahús og UMSB húss.
Það segir sig sjálft að byggja tvö hús annað fjölnota og parketsal í viðbyggingu við núverandi hús eru ansi háleit markmið og mjög kostnaðarsamt eins og tillögur hópsins voru fyrir lokafund um skýrsluna. Þar að auki hefði fjölnotahúsið þurft að vera frekar lítið og myndi ekki anna allri þörf knattspyrnudeildarinnar. Við lok vinnunnar kom knattspyrnudeildin með tillögu þess efnis að það væri líklega betri kostur að setja gervigras á æfingasvæðið. Sú hugmynd hefur síðan þróast í að setja gervigras á núverandi knattspyrnuvöll.
Framhaldið
Um þessar mundir er að taka til starfa bygginganefnd íþróttamannvirkja í Borgarnesi þar sem þessari vinnu verður haldið áfram og unnið út frá rannsóknum og þarfagreiningum sem hópurinn hefur látið gera. Ráðinn verður verkefnastjóri á næstu dögum/vikum og í kjölfarið skipaður samráðshópur hagaðila sem verður til ráðgjafar og samráðs við byggingarnefndina á næstu stigum málsins.
Nýlega kom niðurstaða úr prufuholum á núverandi knattspyrnuvelli sem gaf til kynna að það svæði myndi henta mjög vel fyrir gervigras sem og er búið að ganga frá kaupum á Þorsteingötu 5 og á árinu eru áætlaðar um 400 milljónir í þetta verkefni. Vinna við að bæta íþróttaaðstöðu í Borgarnesi mun því hefjast á þessu ári og vonandi á næsta kjörtímabili munum við sjá aðstöðuna okkar batna með hverju árinu.
Þessi vinna hefur tekið langan tíma og því er ekki að neita að þar hefur ýmislegt spilað inn í sem ekki verður rakið hér. Þegar farið er af stað í svona umfangsmikil fjárfestingaverkefni er nauðsynlegt að vanda til verka. Reynslan hefur kennt okkur að það borgar sig að hafa belti og axlarbönd áður en lagt er á stað og endanleg ákvörðun tekin. Er það sérstaklega mikilvægt til að minnka líkur á því að upp komi óvæntar áskoranir og til þess að mögulegt sé að gera raunhæfar kostnaðaráætlanir. Þetta eru mjög fjárfrekar framkvæmdir en að setja gervigras á núverandi völl getur kostað um og yfir 300 milljónir með öllu og nýr parketsalur gæti kostað milli 6-800 milljónir og þá er ekki talinn með kostnaður við endurbætur á núverandi íþróttamannvirkjum.
Silja Eyrún Steingrímsdóttir
Höfundur er sveitarstjórnarfulltrúi í Borgarbyggð