Uppbygging íþróttamannvirkja í Borgarbyggð

Stjórnir Knattspyrnudeildar og Frjálsíþróttafélags Borgarfjarðar

Nokkur umræða hefur verið undanfarið um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Borgarbyggð. Hún hefur farið fram á fésbókinni, í fjölmiðlum og víðar. Margt af því sem þar hefur verið sagt kemur okkur hjá Knattspyrnudeild Skallagríms og Frjálsíþróttafélagi Borgarfjarðar undarlega fyrir sjónir. Um það er hins vegar ekki deilt að verulegu þörf er orðin á uppbyggingu íþróttamannvirkja í Borgarbyggð.  Nefna má að aðstaða fyrir fótbolta yfir vetrartímann er mjög döpur, en annað hvort er æft á sparkvelli á leiksvæði við Grunnskólann í Borgarnesi eða aðstaða tekin á leigu á Akranesi.  Þá er núverandi íþróttahús orðið of lítið og þörf á því að stækka það.

Allt frá árinu 2018 hafa verið starfandi vinnuhópar á vegum sveitarfélagsinu um uppbyggingu íþróttamannavirkja í Borgarbyggð.  Árið 2019 var kallað eftir þarfgreiningu frá íþróttafélögum innan UMSB og deilda Skallagríms þannig að allir gætu komið á framfæri sínum áherslum.  Knattspyrnudeild Skallagríms lagði áherslu á að fjölnota íþróttahús með gervigrasi væri fyrsti valkostur fyrir sína starfsemi.  Hús með hálfum knattspyrnuvelli myndi nýtast deildinni mjög vel og við meðvituð um að ekki væri raunhæft að gera ráð fyrir stærra húsi.  Hús af þeirri stærð uppfyllir þarfir varðandi æfingaaðstöðu og þar væri einnig hægt að spila leiki yngri flokka.  Að sama skapi var ljóst að fjölnotahús með hlaupabrautum og annarri aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir myndi nýtast vel til æfinga yfir vetrartímann.  Með byggingu hússins væri verið að skapa tækifæri til þess að fjölga verulega börnum og ungmennum sem stunda fótbolta og frjálsar íþróttir og jafnvel fleiri íþróttir.

Fyrir sveitarstjórnarkosningar 2022 var okkur kynnt sú niðurstaða að ekki væri raunhæft að byggja fjölnotahús á íþróttasvæðinu í Borgarnesi þar eða jarðvegur væri ekki nægjanlega traustur.  Því lagði hópurinn til að lagt yrði gervigras á núverandi knattspyrnuvöll og farið yrði í þá framkvæmd áður en farið yrði í stækkun íþróttahússins.  Okkur var ljóst að þessi framkvæmd var umdeild sérstaklega vegna áhrifa hennar á aðstöðu til frjálsra íþrótta við völlinn.

Eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2022 var ljóst að nýr meirihluti í sveitarstjórn vildi skoða betur byggingu fjölnotahúss og fleiri valkosti varðandi staðsetningu þess.  Út úr þessari skoðun kom sem betur fer að hægt væri að byggja húsið á íþróttasvæðinu í Borgarnesi.  Staðsetning hússins á íþróttasvæðinu hefur alla tíð verið okkar fyrsti valkostur.  Þar er húsið í nánd við íþróttamannvirki og skóla, samlegðaráhrif mikil og tækifæri til þess að bjóða upp á samfellu í skóla- og tómstundastarfi.  Fyrir börn og ungmenni úr dreifbýli Borgarbyggðar er það líka mikill kostur að allt íþróttastarf sé á sama svæðinu og það þurfi ekki að ferja þau á milli staða.

Í viðtali á Vísi.is nýverið talaði formaður Körfuboltadeildar Skallagríms um að íþróttahreyfingin í Borgarbyggð sé ósátt með þá ákvörðun að byrja á byggingu fjölnota íþróttahúss.  Það er ljóst að þar er formaður Körfuboltadeildar ekki að tala fyrir hönd Knattspyrnudeildar Skallagríms eða Frjálsíþróttafélags Borgarfjarðar og fleiri félaga innan UMSB sem hafa verið sátt við að byrjað sé á fjölnota húsi.  Það liggur fyrir að hægt er að hefja byggingu fjölnotahúss fyrr vegna þess að sú bygging krefst styttri undirbúningstíma en stækkun íþróttahússins.  Í fjárhagsáætlun Borgarbyggðar kemur fram að á þessu ári er stefnt að því að hefja framkvæmdir við uppbyggingu íþróttamannvirkja, framkvæmdir hefjist við fjölnotahús og stækkun íþróttahússins í kjölfarið.  Framkvæmdum við bæði þessi hús á að vera lokið árið 2027.  Er ekki eðlilegra að við öll innan íþróttahreyfingarinnar í Borgarbyggð fögnum þeirri uppbyggingu sem framundan er í stað þess að vinna gegn henni af því að forgangsröðun er öðruvísi en sum okkar vildu.

 

Stjórn knattspyrnudeildar Skallagríms

Stjórn Frjálsíþróttafélags Borgarfjarðar