Uppbygging fyrir alla

Kjartan S. Þorsteinsson

Akranesbær á stórt landsvæði fyrir ofan byggðina sem oft er kallað einu nafni Flóinn. Þar má t.d. finna iðnaðarhverfið við Höfðasel og ruslahaugana. Ég fékk Guðna Hannesson kortagerðarmann til að reikna út hversu stór hluti af þessu svæði væri byggilegt land. Eftir að hafa dregið frá svæði þar sem hann taldi ýmist líklegt eða öruggt að ekki yrði byggt, þá stóðu eftir 1,86 ferkílómetrar (dreginn var 1 km „buffer“ í kringum aðalbyggðina og hann dreginn frá. Friðlandið við Innstavogsnes var einnig dregið frá). Til að setja það landflæmi í eitthvað samhengi þá samsvarar það 291 fótboltavöllum.

Náum sátt
Ef við eigum óbyggt svæði sem samsvarar tæplega þrjú hundruð fótboltavöllum, liggur þá ekki beint við að spyrja hvers vegna ekki megi koma hausaþurrkunarverksmiðju þar fyrir? Það er ekkert sem segir að hausaþurrkun þurfi að vera við höfn, enda eru þær oft hafðar vel inni í landi. Ef áætlun HB Granda mun standast, þá á lyktarmengun frá henni ekki að ná lengra en 500 metra. Á meðfylgjandi mynd má sjá þetta áhrifasvæði mengunarinnar teiknað annars vegar á Breiðinni, þar sem fyrirhugað er að reisa verksmiðjuna, og hins vegar á Höfðaseli. Eins og sést er feykinóg pláss í Flóanum og auðvelt að finna henni stað í öruggri fjarlægð frá allri íbúðabyggð. Það er heldur ekkert sem segir að verksmiðjan þurfi að vera á Höfðaseli. Það er úr nógu plássi að velja í Flóanum. Hins vegar er alveg klárt að fjöldamörg íbúðarhús verða fyrir mengun, verði verksmiðjan ennþá staðsett á Breiðinni.
Með því að koma verksmiðjunni fyrir í Flóanum þá væri Akranesbær kannski ekki að svara ítrustu ósk HB Granda um staðarval. En á móti væri bærinn að finna verksmiðjunni stað sem allir hagsmunaaðilar gætu sætt sig við, bæði HB Grandi og nágrannar fyrirtækisins. Hér skortir aðeins framtak og kjark.

Girðum okkur í brók
Skagamenn hafa hingað til ekki verið þekktir fyrir kjarkleysi. Horfum því bjartsýn fram á veginn. Ef við gefum okkur að skipulagstillaga HB Granda um staðsetningu verksmiðjunnar á Breið verði ekki samþykkt, hvað gerist þá? Það er alveg dagljóst að hagsmunir Akranesbæjar og HB Granda verða áfram sameiginlegir. HB Grandi vill hafa verksmiðjuna sem næst höfninni. Bærinn vill að hún haldist innan bæjarlandsins. Því er nánast ómögulegt annað en að í gang fari vinna beggja aðila með þetta tvennt að leiðarljósi. Það sem gerist þá líka, er að hagsmunir íbúa Akraness fá þá einnig að njóta sín. Þetta slítandi þrætuefni verður þá úr sögunni. Það er lausn sem allir geta verið sáttir við.

Ef tillagan verður hins vegar samþykkt, þá er verið að taka mikla áhættu með framtíð miðbæjarins og Neðri-Skaga. Það er alveg klárt að ekki er hægt að koma í veg fyrir lyktarmengun frá hausaþurrkun. HB Grandi hefur ekki lagt fram neina þá tækninýjung sem ekki hefur verið reynd annars staðar til að draga úr lyktinni. Samt hefur engum tekist að draga svo mikið úr henni að hún finnist ekki greinilega í mörg hundruð metra fjarlægð. Innan þess svæðis sem fyrirtækið setur sér um mörk lyktarmengunar er íbúðabyggð. Um það fyrirkomulag mun aldrei ríkja sátt. Tímarnir og kröfurnar hvað þetta varðar hafa breyst til batnaðar. Akranesbær gæti í framtíðinni orðið þekktur fyrir það helst að leyfa mengandi iðnað í miklu nágrenni við íbúðabyggð.

Höfum þessar staðreyndir málsins á hreinu

Ég vil að lokum koma þessum staðreyndum málsins á framfæri:
1. Það er enginn á móti uppbyggingu á Akranesi. Hópurinn sem stendur að baki framtakinu Betra Akranes er að mótmæla mengun í íbúðabyggð. Það er ekki nokkur maður að mótmæla fiskiðnaði. Við viljum aðeins að lyktarmengandi hluta hans verði fundinn staður þar sem mengunin skerðir ekki lífsgæði fólks.
2. HB Grandi hefur engin áform um að hætta við uppbyggingu á Akranesi þótt þessi fyrsta tillaga þeirra um staðsetningu hausaþurrkunarinnar á Breið verði ekki samþykkt. Það hefur forstjóri fyrirtækisins staðfest opinberlega. Orðrétt sagði hann „fráleitt að slíkt hafi verið rætt í stjórn HB Granda.“

Ég skora á þig, lesandi góður, að hvetja bæjaryfirvöld Akraness til að hafna þessu fyrsta boði HB Granda í viðræðunum og ganga frekar til samninga við fyrirtækið um að finna verksmiðjunni annan stað, innan bæjarfélagsins en fjarri íbúabyggð. Ef þú gerir það ekki, þá verður þögn þinni tekið sem samþykki. Þú þarft ekki að berja potta og pönnur á Akratorgi nema þig langi til. Allt sem þarf er stutt og kurteisisleg lína á skipulag@akranes.is, eða á pappír sem þú skilar í þjónustuver bæjarins að Stillholti 16-18, fyrir 30. mars. Þú getur að auki lagt málstaðnum lið með því að skrifa nafn þitt á vefnum www.betraakranes.org.

Kjartan S. Þorsteinsson
Höfundur er íbúi á Neðri-Skaga

Myndin sýnir áhrifasvæði lyktarmengunar, eins og HB Grandi fullyrðir að það verði eftir betrumbætur á verksmiðjunni. Sama áhrifasvæði er hér sýnt bæði á Breiðinni og í iðnaðarhverfinu við Höfðasel. – Ljósmynd GH.