Uppbygging aðstöðu til jarðræktarrannsókna á Hvanneyri

Bjarni Jónsson

Mikið hefur verið horft til sóknarfæra og vaxtarbrodda í landbúnaði að undanförnu og þá sérstaklega í kornrækt og annarri jarðrækt. Mikilvæg framtíðarsýn hefur einmitt verið mörkuð á því sviði í nýjum samningum matvælaráðuneytisins við bændur. Það samkomulag um stórt verkefni á því sviði sem var undirritað milli ráðuneytisins og Landbúnaðarháskóla Íslands þann 24. janúar síðastliðinn markar þáttaskil en á árinu 2024 eru ætlaðar 54 milljónir í verkefnið. Helsta markmið þess er að þróa kornyrkju sem er aðlöguð að íslenskum aðstæðum og að byggja upp hæfni og getu í plöntukynbótum og plöntuerfðafræði á Íslandi. Gert er ráð fyrir að framlengja samkomulagið árlega til eins árs í senn fram til ársloka 2028. Niðurstöður tilraunarinnar verða gefnar út fyrir bændur, ráðgjafa og sáðvöruinnflytjendur.

Þetta eru frábærar fréttir fyrir íslenskan landbúnað og okkur öll. Það stendur aðeins eitt út af: Það vantar aðstöðu til kennslu og jarðræktartilrauna á Hvanneyri. Mikilvæg var gjöf dáðs jarðræktarkennara til áratuga, Magnúsar Óskarssonar, sem ánafnaði skólanum eftir sinn dag 200 milljónum til uppbyggingar slíkrar aðstöðu á Hvanneyri. Þess utan var því lofað að Landbúnaðarháskólinn fengi að nota söluandvirði Korpu til að reisa jarðræktarmiðstöð. Enn er hins vegar ekkert að frétta af þessu máli frá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, ekki einu sinni heimild til að nýta höfðinglega gjöf Magnúsar Óskarssonar til að koma upp aðstöðu til jarðræktarkennslu á Hvanneyri. Teikningar liggja fyrir, lóðin er klár. Skriflegri fyrirspurn minni um þetta efni sem beint var til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fyrir níu vikum síðan er enn ósvarað https://www.althingi.is/altext/pdf/154/s/0843.pdf

Það þolir ekki frekari bið að komið verði upp góðri aðstöðu til jarðræktarkennslu og tilrauna á Hvanneyri til að mæta þörfum bænda og nýta sóknarfærin sem felast í framþróun í kornrækt og jarðrækt. Þetta hangs skilar okkur engu, þvert á móti er það hamlandi fyrir þessi mikilvægu uppbyggingarverkefni.

Ég vil að lokum hvetja ráðherra til að stuðla að uppbyggingu þekkingar og tækifæra í íslenskum landbúnaði og að ráðuneyti háskóla verði þar einnig virkur þátttakandi.“

 

Bjarni Jónsson

Höf. er þingmaður Vinstri grænna í NV kjördæmi og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis