Ungur temur, gamall nemur

Geir Konráð Theódórsson

Að þeir sem eldri eru séu að kvarta undan ungu kynslóðinni er ekkert nýtt, í raun er þetta eldgömul hefð sem nær langt aftur í aldir. Elsta skráða heimildin sem ég hef séð er þegar Aristóteles er að kvarta undan þeim ungu fyrir um það bil 2400 árum síðan – en mig grunar að kvartað hafi verið undan þeim ungu í Babýlon, við smíði pýramídans í Giza og jafnvel með orgum og óhljóðum mannapa til forna. Ég ætla hinsvegar ekki að kvarta undan ungu kynslóðinni hér í þessum pistli – þvert á móti vil ég segja ykkur frá því hvað unga fólkið kom mér gleðilega á óvart í síðustu viku.

Í 28 ár hefur það tíðkast í Borgarnesi að í desember fái grunnskólakrakkar að setja upp og sjá um jólaútvarp Óðals FM 101,3. Ég man hvað ég var ótrúlega spenntur að fá að taka þátt í þessu sem barn og unglingur, sérstaklega man ég eftir andvökunóttunum þar sem ég var að hugsa um hvernig handrit við ættum að skrifa og hvaða tónlist við mættum velja. Að vísu valdi ég að tala um geimverursamsæri og að spila suður-ameríska panflaututónlist, en við þurfum ekkert að fara dýpra í það. Það sem skiptir máli í þessu er að þetta er frábært verkefni í útvarpinu. Þetta gefur ungmennum tækifæri til að koma hugsunum sínum niður á blað sem og að æfa sjálfstraustið og framsögu með því að deila þessu með hlustendum.

Frá því í haust hef ég verið svo heppinn að fá að vinna í Heiðarborg í Hvalfjarðarsveit og í 301 Félagsmiðstöðinni í Heiðarskóla. Út af Covid hefur því miður mörgu verið frestað eða aflýst fyrir blessuðu ungmennin, og mér hefur fundist það voða leitt að útskýra af hverju ekki er hægt að halda ball eða fara í ferð, eitthvað sem var bara sjálfsagður hlutur í minningum okkar sem eldri eru þegar við hugsum til baka til þessara „bestu ára“ í gaggó. Ég var þess vegna voða glaður þegar Kristín Valgarðsdóttir í Grunnskólanum í Borgarnesi bauð ungmennunum okkar á miðstigi og unglingastigi að vera með í útvarpinu þetta árið.

Í Borgarnesi byrja krakkarnir venjulega að skrifa handrit sem hluta af íslenskuáfanga í nóvember og æfa sig vel áður en útvarpið byrjar í desember, en við vorum með aðeins styttri fyrirvara. Þau hérna í Heiðarskóla fengu að vita af þessu á föstudegi og á mánudegi og þriðjudegi áttum þau að vera tilbúin að fara í upptökur. Út af covid var skiljanlega ekki hægt að fara í beina útsendingu í Borgarnesi. Það voru auðvitað ekki allir sem vildu vera með, en samt þónokkuð af brosandi andlitum sem voru alveg staðráðin í að vera tilbúin eftir helgina.

Eftir skólatíma á mánudegi var ég mættur með hljóðnema og aðrar upptökugræjur og búinn að setja upp heimagert hljóðver í hannyrðastofunni í Heiðarskóla. Það hafði ekki verið tækifæri til að lesa yfir handritin þannig að ég vissi ekkert hvaða efni þau höfðu valið fyrir þættina sína. Ég fór bara yfir svona almennar kurteisisreglur og sagði að það væri alveg eðlilegt að finna fyrir spenningi og galsa, og ef eitthvað færi úrskeiðis þá gæti ég klippt þetta til áður en við sendum þetta í útvarpið. Við byrjuðum að taka upp og ég varð alveg gáttaður, þessir dásamlegu krakkar komu mér svo á óvart.

Skemmtilegar pælingar um jólin og lífið komu upp, en svo komu hugleiðingar um trú, fíkn, þunglyndi, einelti, sjálfsmyndir, kynvitund og jafnrétti. Allt þetta einkenndist af virðingu gagnvart hvort öðru og einlægri beiðni um að við reynum að sýna hvort öðru skilning. Ég varð bara alveg orðlaus. Þarna var ég tilbúinn að taka upp eitthvað léttmeti og klippa inn einhver jólalög, en í staðinn var ég bara skælbrosandi og kinkandi kolli yfir öllu því sem kom frá þessum ungu spekingum.

Það er kannski hægt að kvarta undan skjánotkuninni og auðvitað glíma sum ungmenni við vandamál og valda okkur áhyggjum – en eitthvað eru foreldrar, forráðamenn og skólar að gera rétt. Þegar ungmenni okkar fá tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri þá er alveg magnað að sjá þau taka svona jákvæð og þroskuð efnistök, í staðinn fyrir geimverusamsæri og panflautur. Það er greinilegt að þau hafa hjartað á réttum stað. Kannski ætti að snúa hinu fornkveðna, að ungur nemur og gamall temur, á haus – kannski er kominn tími á að við hlustum og lærum líka af þeim sem yngri eru. Ég held að þrátt fyrir erfiða tíma í dag, að ef við bara hlustum og tökum tillit til visku allra kynslóða, þá getur framtíðin okkar verið björt.

 

Geir Konráð Theódórsson