Ungt fólk til áhrifa eða skrauts?

Rúnar Gíslason

Ég heiti Rúnar Gíslason og ég er með ólæknandi áhuga á samfélagsmálum. Einmitt þess vegna hef ég ákveðið að gefa kost á mér í 1.-3. sæti á lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar. Þeim sem vita að ég er bara tvítugur drengtittur úr Borgarfirði finnst það kannski svolítið djarft, verulega bratt, örlítið klikkað eða hugsanlega jafnvel verulega frekt að sækjast eftir mögulegu þingsæti, þegar væntanlega er völ á eldra og reyndara fólki í þessi hlutverk. Og kannski er þetta meira segja allt í senn, djarft, bratt, klikkað og frekt. Það er samt alls ekki meiningin og það skal ítrekað að þessi ákvörðun er tekin af góðum hug og fyrst og fremst vegna áhuga á velferð samfélagsins. Bein afleiðing af slíkum áhuga á að mínu mati að vera vilji til að hafa áhrif á samfélag sitt, til hins betra.

Það er gjarnan klifað á því að Alþingi eigi að endurspegla þjóðina, vera einskonar þverskurður af henni. Stjórnmálaflokkar hvetja líka gjarnan ungt fólk til þátttöku í þjóðfélagsmálum. Stundum finnst mér samt að hugur fylgi ekki endilega máli og að þótt allir flokkar vilji laða til sín unga kjósendur þá vilji þeir ekki endilega að unga fólkið hafi mikil áhrif. Allavega er það svo að þegar kemur að kosningum þá er unga fólkið frekar notað til að skreyta listana en til að vera raunhæfur valkostur. Ég er ekki að halda því fram að það eigi að bjóða fram eintóma barnalista. Ég legg einfaldlega til að kjósendur hafi meira val. Ég vil að ungt fólk eigi möguleika að koma að fulltrúum úr sínum röðum. Mér finnst það ekkert sérlega frekt heldur bara frekar hógvær uppástunga. Ég kýs að líta á mitt framboð sem ákveðna tilraun til að láta á það reyna hvort menn eru að meina það þegar þeir segja; „ungt fólk til áhrifa“.

Þótt ég, barnið, vilji fá að vera með fullorðna fólkinu þá þýðir það ekki mér þyki fullorðna fólkið ómögulegt. Öðru nær. Ég ber virðingu fyrir reynslunni en bendi líka á að enginn hefur sest inn á þing í fyrsta sinn með mikla þingreynslu á bakinu! Á stuttri ævi hef ég reyndar aflað mér reynslu á ýmsum sviðum. Reynslu sem ég er stoltur af og þakklátur fyrir. Ég hef tekið mikinn þátt í félagslífi, hef skipulagt bæjarhátíðir, setið í nefndum á vegum Borgarbyggðar og Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi. Síðasta vor útskrifaðist ég sem stúdent frá Menntaskóla Borgarfjarðar og fjallaði lokaverkefnið mitt um skólamál í héraði, sérstaklega út frá sjónarhóli barna og ungmenna. Ég hef sem fyrr segir áhuga á hverju því málefni er varðar ungt fólk. Ég hef líka áhuga á málefnum þeirra sem eldri eru enda eru þeirra vandamál og lausnir oftast af svipuðum meiði þó áherslur séu kannski aðrar. Ég hef mikinn áhuga á náttúruvernd og líka ferðamálum, þótt einhverjum finnist það ekki fara saman. Ég trúi því samt að hægt sé að nota ferðamennskuna til að vernda náttúruna, þó það hafi gengið illa fram að þessu. Ég hef líka mikinn áhuga á málefnum flóttafólks og ég trúi því að við eigum ekki einkarétt á einhverri þúfu þótt við höfum verið svo heppin að fæðast á henni. Vonandi finnst einhverjum að ég geti verið verðugur fulltrúi unga fólksins. Ef ekki þá nær það ekki lengra. Þó ég sé ekki eldri en ég er þá hef ég nú þegar lært það af biturri reynslu að það gengur ekki allt upp sem maður ætlar sér. Kannski verður þetta framboð án eftirspurnar. En það er ekki nema ein leið til að komast að því.

 

Til þjónustu reiðubúinn,

Rúnar Gíslason

Fleiri aðsendar greinar