Unglingaskólinn NÚ í óvissuferð á Hvanneyri

Gísli Rúnar Guðmundsson

Dagana 24.-26. ágúst síðastliðinn dvaldi unglingaskólinn NÚ í óvissuferð að Hvanneyri í Borgarfirði.

Þegar rútan stöðvaði fyrir utan Gamla skóla á Hvanneyri rétt fyrir hádegi sama dag, kom í ljós að enginn í hópnum hafði hugmynd um hvar hann var staddur að öðru leyti en að við værum úti í sveit. Ragnar Frank Kristjánsson, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, tók á móti hópnum og fór stuttlega yfir sögu Hvanneyrar eftir að hafa boðið hópinn velkominn. Megin tilgangur óvissuferðarinnar var að fá nemendur og starfsmenn NÚ til að kynnast betur innbyrðis og þétta hópinn.

 

Á Hvanneyri er í einu orði sagt frábær aðstaða fyrir minni og stærri hópa sem hafa í hyggju að fara út fyrir borgarmörkin, verja tíma saman, efla samkennd og hóphugsun. Helsti kostur Hvanneyrar er að staðurinn er einungis í 70 mínútna akstri frá Reykjavík, örstutt er í helstu þjónustu auk þess að þar er einstök saga og náttúra. Gist var í gamla skólanum sem hélt mjög vel utan um tæplega 40 manna hóp. Íþróttahúsið á Hvanneyri er frá 1911 og þar er ólýsanlegt andrúmsloft. Mjög stutt er í stóra og smáa grasbala, leiksvæði, battavöll og stóran knattspyrnuvöll sem hægt er að nýta á marga vegu. Sveitaloftið, náttúran og samveran mótar einstaka upplifun fyrir alla og sérstaklega fyrir nútíma borgarbarn. Það má segja að dvöl á Hvanneyri sé ein risastór kennslustund í náttúrufræði, sögu og landafræði Íslands.

 

NÚ gefur sig út fyrir það að vera “tækni” skóli þar sem 90% af öllu kennsluefni er rafrænt og nánast enginn pappír til staðar. Það var því í hróplegri andstöðu við stefnu skólans að gista í einu af elstu skólahúsnæðum landsins án allra raftækja og internets. Lagt var upp með tæknilausa ferð svo nemendur væru alltaf í NÚ-inu og myndi einbeita sér að því að kynnast sjálfum sér og skólafélögunum.

 

Aðstaðan að Hvanneyri til útikennslu af ýmsum toga er til fyrirmyndar og það nýttu starfsmenn NÚ sér til hins ítrasta. Hópavinnan í ferðinni fór að mestu leyti fram utandyra þar sem veðurfar var með eindæmum gott alla ferðina. Hópurinn kynnti sér landbúnaðarsögu Íslands og leit í heimsókn í hátæknifjósið sem vakti mikla athygli. Ragnar Frank leiddi hópinn í sannleikann um helstu örnefni Hvanneyrar í skemmtilegri gönguferð um jörðina. Hið svokallaða Skjólbelti hitti beint í mark hjá hópnum enda einstakur staður til margskonar útileikja, skemmtana og útiveru.

Þar sem eldunaraðstaða er af skornum skammti í gamla skólanum fór hópurinn í morgunmat og hádegismat í mötuneyti Landbúnaðarháskólans þar sem við fengum frábæran mat alla dagana.

Toppurinn á ferðinni var án efa varðeldurinn sem kveiktur var í Skjólbeltinu í þar til gerðu indjánatjaldi. Mikil stemning myndaðist í hópnum og var sungið og spilað á gítar fram á kvöld.

 

Við fórum af stað með 34 einstaklinga en komum heim með lið sem er í skýjunum með einstaka upplifun. Undirritaður skorar á sveitarstjórn Borgarbyggðar að gera betur í því að kynna þetta einstaka svæði svo fleiri geti fengið að njóta.

 

NÚ er nýjasti grunnskóli landsins fyrir unglinga í 8.-10. bekk sem vilja samþætta nám og íþróttaiðkun. Í NÚ eru 34 nemendur, 21 drengur og 13 stúlkur. Starfsmenn við skólann eru þrír auk tveggja stundakennara og námsráðgjafa. NÚ er sjálfstætt starfandi grunnskóli sem skapar sér sérstöðu með því að leggja áherslu á íþróttir, vendinám og sjálfræði nemenda.

Takk fyrir okkur,

 

Gísli Rúnar Guðmundsson

Skólastjóri NÚ

 

Nánar um grunnskólann NÚ á slóðinni http://framsynmenntun.is

Fleiri aðsendar greinar